
Skjáskot úr TikTok myndbandi er í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum og Nútíminn birtir einnig umrætt myndband. Myndbandið virðist tekið hér á landi en á því má sjá ungan mann sem virðist af arabískum uppruna sitja á mótórhjóli milli tveggja bifreiða og halda á hlutum sem virðast vera annars vegar skammbyssa og hins vegar hríðskotabyssa. Þrír menn hafa verið handteknir vegna málsins.
Myndbandið er sagt vera af TikTok-síðu með notandanafninu abuhamza255 en aðgangi að síðunni hefur verið lokað og engin myndbönd lengur sjáanleg en notandinn hefur þó 1550 fylgjendur og fengið 18,8 þúsund læk og því virðist sem að það hafi verið myndefni inni á síðunni en þótt maður gerist fylgjandi viðkomandi notanda sjást engin myndbönd.
Þegar Nútíminn greindi frá málinu í gærkvöldi fann DV TikTok-síðu sem var undir nánast eins notandanafni, svo munaði einum staf, abuhanza255. Þar mátti má sjá nokkurn fjölda myndbanda af ungum mönnum sem flest voru greinilega tekin á Íslandi. Flestir virðast þeir af arabískum uppruna og í einu veifar einn þeirra palestínska fánanum. DV sá þó ekkert myndband þar sem sjá mátti skotvopn en þegar leitað var að síðunni nú í morgun fannst hún ekki en á sumum myndbandanna á síðunni mátti sjá einstakling sem líktist þeim sem sjá má á umræddum skjáskotum halda á því sem virðast vera hríðskotabyssa og skammbyssa.
Í frétt Nútímans kemur fram að myndbandið þar sem sjá má það sem virðist vera skotvopn hafi verið klippt til af TikTok þar sem ekki megi sýna myndbönd á miðlinum þar sem skotvopn sjáist. Miðillinn náði þó að vista myndbandið áður en það var gert og birtir það með frétt sinni.
Í umræddu myndbandi er birt myndskeið þar sem birtur er fjöldi ljósmynda og tónlist leikin undir. Myndirnar virðast teknar úr fjarlægð án þess að mikill aðdráttur (e. zoom) hafi verið notaður en það hefur verið gert í skjáskotunum. Myndirnar eru flestar ekki mjög skýrar og ekki sést vel í andlitið á viðkomandi og hlutirnir sem virðast vera byssur sjást ekki mjög vel. Harpa sést í bakgrunni og myndbandið virðist því vera tekið úti á Granda.
Einhverjir hafa varpað því fram að myndbandið virðist búið til með aðstoð gervigreindar en á því má þó sjá tvo bíla og sést í númer þeirra beggja. Annar er skráður á fjármögnunarfyrirtæki en hinn á karlmann sem er um fertugt, með arabískt nafn og er skráður til heimilis í Reykjavík.
Í frétt Nútímans kemur fram að myndbandið hafi verið tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Uppfært 10:57
Í frétt Mbl.is sem birtist nú rétt í þessu kemur fram að þrír menn hafi verið handteknir um síðustu helgi vegna myndbandsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á vopnin sem reyndust vera eftirlíkingar en líta mjög raunverulega út. Málið er til rannsóknar og Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þremenningarnir verði eftir atvikum kærðir fyrir brot á vopnalögum.