fbpx
Miðvikudagur 19.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley

Eyjan
Miðvikudaginn 19. nóvember 2025 06:00

Catania á austurströnd Sikileyjar. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýlegri ferð til Sikileyjar opnaðist fyrir mér nýr heimur sem ég fjalla um í þessari grein.

Sikiley er einstakur áfangastaður. Fróðlegt er að bera saman sögu Sikileyjar og sögu Íslands. Eyjarnar tvær eiga margt sameiginlegt en eru mjög ólíkar að öðru leyti.

Ferð til eyjunnar með leiðsögn fróðra leiðsögumanna er mikil upplifun en Sikiley er einstök bæði hvað varðar sögu og menningu en einnig er áhugavert að kynnast lifnaðarháttum eyjaskeggja svo og fortíð og nútíð eyjunnar.

Skoðum það nánar.

Sikiley og Ísland eru jafnaldrar

Jarðsaga Sikileyjar segir að eyjan hafi orðið til í núverandi mynd fyrir um 50 milljónum ára eða á sama tíma og Ísland er talin hafa orðið til sem eyja. Sikiley er um 25 þúsund ferkílómetrar að stærð eða um einn fjórði af stærð Íslands.

Báðar eyjarnar eru á flekaskilum. Ísland er á milli Ameríkuflekans og vesturhluta Evrópuflekans en þessir tveir flekar færast í sundur um 2 cm. á ári.

Sikiley varð hins vegar til við það að suðurhluti Evrópuflekans og Afríkuflekinn rákust á hver annan og lyftust upp og mynduðu þannig eyjuna og fjöll hennar. Þessi flekaárekstur hefur valdið mannskæðum jarðskjálftum á Sikiley, sá stærsti varð árið 1908 í Messina þar sem um 80 þúsund manns fórust og borgin lagðist að mestu í rúst.

Sikiley er í dag með um 30 virk eldfjöll eins og Ísland. Þekktast þeirra er Etna sem gýs reglulega og Stromboli sem eins og allir vita tengist Snæfellsjökli með neðanjarðargöngum samkvæmt frásögn Jules Verne og ekki lýgur hann í sögum sínum!

Ein eldfjallaeyjan heitir Vulcano sem í dag er samheiti yfir öll eldfjöll í heiminum eins og Geysir okkar er samheiti yfir allar goshveri heimsins.

Saga Sikileyjar er mun lengri en okkar

Talið er að fyrstu íbúar Sikileyjar hafi komið til hennar fyrir um 35 þúsund árum en til samanburðar er talið að Paparnir hafi komið fyrst til Íslands fyrir um 1300 árum og landnámsmennirnir frá Noregi komu fyrir um 1150 árum.

Nútímasaga Sikileyjar hefst þegar Fönikíumenn nýttu sér eyjuna til að stjórna siglingum um Miðjarðarhafið um árið 1000 fyrir Krists burð (f.Kr.). Þeir byggðu meðal annars höfnina í Palermo sem er í dag höfuðborg Sikileyjar. Palermo sem þá hét Ziz var mikilvægur áfangastaður á siglingaleiðinni til og frá Spáni til hafna fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Grikkir hertaka síðan eyjuna um árið 700 f.Kr. og nefna hana og suðurhluta Ítalíu Stóra Grikkland. Þeir stofna borgríkin Messina, Naxos og Syracuse sem eru á austurströnd eyjunnar og eru í dag vinsælir ferðamannastaðir. Grikkir reistu fjölda opinna leikhúsa sem hafa verið endurbyggð og laða fjölda ferðamanna að sér á hverju ári.

Um 200 f.Kr yfirtaka Rómverjar eyjuna og stjórna henni til um 500 e.Kr þegar Býsanska veldið tekur eyjuna. Um árið 827 taka Arabar eyjuna yfir og gera hana að múslimaríki.

Normannar lögðu Sikiley undir sig á 11. öld og var konungsríkið Sikiley stofnað árið 1130 af heiðnum víkingum („væringjum“) sem komu frá Normandí í Frakklandi. Þeir voru í raun danskir víkingar, flestir málaliðar.

Yfirráðasvæði væringjanna náði til Napólí og hét þetta svæði Langbarðaland. Þeir byggðu kristnar kirkjur víða á eyjunni, sú stærsta er við Monreal nálægt Palermo. Normannar töpuðu eyjunni um 1282 stuttu eftir að Ísland varð hluti af Noregi í kjölfar Gamla Sáttmála.

Síðar börðust Spánverjar, Habsborgarar og Frakkar um yfirráð eyjunnar auk ríkra aðalsmanna af Bourbonna ættum sem skiptu eyjunni á milli sín þar til Ítalía varð sjálfstætt konungsríki árið 1861 og síðan lýðveldi árið 1946, tveimur árum eftir að Ísland varð að lýðveldi.

Hin tíðu stjórnarskipti á eyjunni leiddu til sífelldra átaka, mikillar skattpíningar og vinnuþrælkunar eyjaskeggja sem börðust gegn þessum yfirráðum meðal annars með því að stofna mafíuflokka víðs vegar um eyjuna. Mafían þróaðist síðar í glæpagengi sem hafa í dag verið barin niður að mestu af yfirvöldum.

Kirkjurnar eru jafnmargar á Sikiley og á Íslandi

Eitt það merkilegasta sem ferðamenn uppgötva á eyjunni er kirkjurnar eða hofin sem eru allt að 2700 ára gamlar. Nokkrar þeirra, eins og til dæmis dómkirkjan í Ortiga/Syracusa var fyrst reist sem heiðið grískt hof, var síðan breytt í rómverskt hof og svo í rómversk-kaþólska kirkju. Síðar varð hún að mosku og nokkrum öldum síðar var henni breytt í kristna Normanna kirkju og loks í hefðbundna kaþólska kirkju. Það má segja að húsið hafi þjónað sem fjöltrúar kirkja og hof fyrir flest trúarbrögð Evrópu.

Kirkjurnar á Sikiley eru óteljandi margar eins og vötnin á Arnarvatnsheiði. Í dag eru um 350 stærri kirkjur á Sikiley. Á Íslandi eru kirkjurnar einnig um 350 talsins, allar reistar eftir kristnitökuna árið 1000.

Hernaðarlegt mikilvægi Sikileyjar og Íslands er svipað

Þegar saga Sikileyjar er skoðuð er ljóst að eyjan hefur ávallt verið hernaðarlega mjög mikilvæg.

Hún er staðsett í miðju Miðjarðarhafs og var auk þess mikið hveitiforðabúr fyrir eigendur eyjunnar hverju sinni. Sá sem átti Sikiley, stjórnaði siglingum um Miðjarðarhafið. Þess vegna börðust Grikkir, Rómverjar, Tyrkir, Normannir og síðan Spánverjar og Frakkar um eyjuna frá um 700 fyrir Krists burð þar til eyjan varð sjálfstæð um 1861 á sama tíma og sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga var að hefjast.

Í seinni heimsstyrjöldinni var Ísland talið vera ein mikilvægasta eyjan á Atlantshafi, hernaðarlega séð. Um Ísland fóru allar skiplestarnar frá Ameríku til Rússlands. Flestar kafbátaleitarvélarnar voru staðsettar á Íslandi og um flugvelli landsins voru þúsundir sprengjuflugvéla ferjaðar frá Bandaríkjunum til Bretlands. Í raun var Ísland eitt risastórt flugmóðurskip á miðju Atlantshafinu, eins og bæði Churchill og Roosevelt lýstu landinu.

Enn í dag er Ísland hernaðarlega mikilvæg eyja sem bæði Bandaríkjamenn og Evrópulönd nýta sér í eftirlitsskyni. Í dag er mikilvæg amerísk herstöð með flugvelli í Sigonella á Sikiley með um 4000 hermönnum sem hafa eftirlit með umferð herflugvéla og skipa um Miðjarðarhafið. Má líkja henni við Keflavíkurflugvöllinn okkar með sínum hernaðarmannvirkjum

Sikiley nýtur góðs af ESB aðild Ítalíu

Íbúar Sikileyjar eru í dag um 4,7 milljónir eða rúmlega tíu sinnum fleiri en íbúar Íslands. Hagkerfi eyjunnar er tæplega fjórum sinnum stærra en hagkerfi Íslands. Hagvöxtur á Sikiley í ár verður um 1,1%. Húsnæðisvextir á Ítalíu eru um 3,3%, verðbólgan er um 1,8% og hagvöxtur var um 0,9% í fyrra. Efnahagur Ítalíu einkennist af stöðugleika og hefur Giorgia Meloni forsætisráðherra landsins fengið hrós fyrir styrka stjórn þess.

Flestir íbúanna starfa við þjónustugreinar og í iðnaði. Landbúnaður og fiskveiðar eyjaskeggja framleiða matvæli fyrir íbúana en stórar olíuhreinsunarstöðvar á austurströnd eyjunnar skapa mikil verðmæti og atvinnu. Um 17 milljónir ferðamanna heimsækja eyjuna á ári og er ferðaiðnaður stærsta atvinnugreinin á Sikiley.

Í dag er Ítalía í áttunda sæti yfir stærstu hagkerfi heimsins og er stærra en bæði Rússland og Kanada. Ítalía er hluti af Evrópusambandinu og notar evru sem gjaldmiðil. Um 74% Ítala eru ánægðir með aðildina að Evrópusambandinu og um 71% vilja hafa evruna áfram.

Sikiley hefur notið góðs af aðild Ítalíu að ESB sem hefur stutt við fjárfestingar í vegakerfinu, lestarkerfinu, fjarskiptum og öðrum innviðum auk ríkulegs stuðnings við landbúnaðinn á eyjunni. ESB hefur aðstoðað Sikileyjarbúa þegar jarðskjálftar og eldgos hafa dunið yfir svo og við endurreisn hagkerfisins eftir Covid.

Það er gott að hafa þetta í huga þegar kemur að kosningum um aðildarumsókn okkar Íslendinga að ESB sem fara fram bráðlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um breytingar og hitt sem ekki breytist

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um breytingar og hitt sem ekki breytist
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýjar ógnir og nýtt RÚV

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýjar ógnir og nýtt RÚV
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Mogginn vill leiðrétta mannréttindabrot en bara „hóflega“

Svarthöfði skrifar: Mogginn vill leiðrétta mannréttindabrot en bara „hóflega“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig
EyjanFastir pennar
18.10.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins
EyjanFastir pennar
17.10.2025

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf