
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað að fasteignasala beri að greiða kaupanda fasteignar bætur vegna kostnaðar við viðgerð á fasteign en hún var tilkomin vegna myglu.
Kaupandinn keypti ásamt konu sinni fasteign í upphafi árs 2024 en fasteignasalinn hafði milligöngu um kaupin. Samkvæmt kaupsamningi var afhendingardagur eignarinnar í apríl 2024. Í kjölfar afhendingar áttu aðilar málsins í skriflegum samskiptum vegna ætlaðrar myglu í einu herbergja fasteignarinnar. Gengið var frá afsali vegna kaupanna um miðjan júní 2024.
Í kæru sinni sagði kaupandinn að hann hefði ekki fengið tækifæri við fyrri skoðun á eigninni að skoða eitt herbergjanna og heldur ekki við þá síðari. Hafi seljandinn sagt að eitt barna hans svæfi í herberginu og síðar hafi fasteignasalinn sagt að ekki væri hægt að skoða herbergið vegna veikinda á heimili seljandans. Kaupandinn sagði að þá hefði hann farið að gruna að ekki væri allt með felldu en ákveðið að láta kyrrt liggja. Hann hafi í kjölfarið gert kauptilboð, sem var samþykkt, enda uppsett verð verið gott.
Kaupandinn sagði hins vegar að við afhendingu eignarinnar hafi hann orðið var við myglu í umræddu herbergi og tilkynnt fasteignasalanum það.
Í kærunni krafðist kaupandinn bóta þar sem fasteignasalinn hafi valdið honum tjóni. Hann hafi ekki fengið réttar upplýsingar um eignina og heldur ekki fengið tækifæri til að skoða hana alla.
Í andsvörum sínum sagði fasteignasalinn hins vegar að eignin hafi verið sýnd á opnu húsi og öll herbergi verið opin. Kaupandinn hafi einmitt mætt þennan dag og haft fullt tækifæri til að skoða eignina. Í kauptilboði hafi hann ekki gert fyrirvara um frekari skoðun eða ástandsskoðun. Hafi kaupandinn skömmu fyrir undirritun kaupsamnings óskað eftir annarri skoðun sem seljandinn hafi alfarið séð um. Hafi seljandinn strax upplýst að ekki væri hægt að skoða eitt herbergið þann dag.
Hafnaði fasteignasalinn því alfarið að kaupandinn hafi fengið rangar eða óljósar upplýsingar um fasteignina. Þá mótmælti hann því að reynt hafi verið að fela ástand eignarinnar á nokkurn hátt. Í söluyfirliti fasteignarinnar hafi til að mynda komið fram að gluggar á efri hæð hennar væru allir upprunalegir. Vísaði fasteignasalinn enn fremur til þess að í söluyfirlitinu hafi verið áréttuð sú ríka skoðunar- og aðgæsluskylda sem hvíli almennt á kaupanda fasteignar.
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa segir í sinni niðurstöðu að fasteignasalinn sé sérfræðingur í fasteignaviðskiptum og beri því að gera kröfur til hans um aðgæslu og vönduð vinnubrögð. Fasteignasala beri meðal annars að tryggja að hagsmunir kaupanda og seljanda séu tryggðir við skjala- og samningsgerð. Af framlögðu söluyfirliti verði ráðið að ekki hafi verið færðar inn upplýsingar um ástand glugga á efri hæð fasteignarinnar.
Segir nefndin að óumdeilt sé að kaupandanum hafi verið veittar þær upplýsingar að gluggar efri hæðarinnar væru upprunalegir en ekki verði hins vegar séð að honum hafi verið veittar upplýsingar um að gluggi í einu herbergjanna læki og að mygla væri byrjuð að myndast við gluggann og í lofti. Bendir nefndin á að það hafi staðið fasteignasalanum nær að tryggja að þessar upplýsingar kæmu fram í söluyfirliti.
Nefndin telur sýnt fram á að þjónusta fasteignasalans hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um sölu fasteigna.
Nefndin vísar til tilboðs óháðs fagaðila sem kaupandinn aflaði og lagði fram með kæru sinni en þar segir að verkið feli í sér viðgerðir á herbergi þar sem mygla hafi myndast vegna raka sem komið hafi frá glugga í lélegu ástandi. Mygla hafi náð að breiðast út í veggi, loft og kverkar. Kostnaður við viðgerð og nýjan glugga var áætlaður um 1,6 milljónir króna. Nefndin segir að kaupandinn hafi sýnt fram á fjárhagslegt tjón sitt og rétt þyki að fasteignasalinn greiði honum kostnaðinn við viðgerðina vegna myglunnar, 1,1 milljón króna.