
Snorri Másson er ungur þingmaður og ný hugmyndafræðileg leiðarstjarna Miðflokksins. Í fyrra mánuði horfði ég á myndband þar sem hann stóð í ræðustól Alþingis og skýrði stefnu flokks síns. Skilaboðin voru einföld:
Ríkisstjórnin veitir styrk á fjárlögum til rampagerðar fyrir fatlað fólk í Úkraínu. Þeir peningar fara ekki til íslenskra bænda. Ríkisstjórnin er að vinna fyrir fína fólkið í útlöndum en ekki íslenskan almenning. Íslendingar þurfa að byrja á að bjarga sjálfum sér.
Í sömu mund las ég grein eftir þingmanninn á Vísi þar sem hann segir að vindar frá hægri þjóðernispopúlistum í útlöndum blási nú Miðflokknum í hag!!!
Nokkrum dögum seinna las ég Morgunblaðsgrein eftir annan ungan þingmann, Sigurð Helga Pálmason. Hann situr á Alþingi fyrir Flokk fólksins.
Þessi nýi þingmaður slær annan tón:
„Það er eðlilegt að ræða forgangsröðun og hvernig fjármunir nýtast best. Ef við gleymum hins vegar öllu því sem alþjóðlegt samstarf hefur fært og er að færa okkur glötum við samhengi hlutanna og skilningi á því hvers vegna okkur standa fjölmargar opnar dyr úti í heimi.
Þátttaka okkar í alþjóðasamstarfi og aðild að ýmsum alþjóðlegum samtökum og stofnunum er jafnframt fjárfesting í framþróun, öryggi og stöðugleika heima fyrir.“
Hér tala tveir nýir þingmenn. Þeir eru sannarlega ekki að kallast á yfir breitt bil kynslóðanna. Boðskapur þeirra lýsir aftur á móti tveimur ólíkum hugmyndaheimum.
Hvorugur þeirra er að segja nýja hluti. Það sem þeir færa fram er þekkt úr stjórnmálasögunni. Þeir eru bara málsvarar ólíkrar hugmyndafræði.
Á undanförnum árum höfum við fylgst með því, bæði í Ameríku og Evrópu, hvernig hægri þjóðernispopúlistar hafa markvisst búið til pólitískar andstæður með því að endurvekja hugmyndaheim einangrunar og aðskilnaðar kreppuára fjórða áratugs síðustu aldar.
Snorri Másson fer ekki dult með að Miðflokkurinn er að flytja inn orðræðu MAGA-hreyfingar Bandaríkjaforseta, Brexit í Bretlandi og Annars kosts fyrir Þýskaland. Þaðan kemur meðvindurinn sem flokksmenn hans finna nú fyrir og ætla að hlaupa með.
Meðvindinum fylgir boðskapurinn um að einangra Ísland. Meðvindurinn vill blása burt stoðum EES-samningsins. Meðvindurinn þrýstir á Ísland að styrkja ekki stöðu sína með því að skipa sér í sveit með þeim ríkjum sem aðhyllast frjáls viðskipti þegar Bandaríkin hafa yfirgefið þá hugmyndafræði.
Meðvindurinn feykir til hliðar mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstólnum.
Meðvindurinn er svo nýttur til að blása þeirri sjálfsímynd í brjóst íslenskra bænda að þeir séu svo smáir og aumir að þeir eigi að sjá á eftir nokkrum krónum til fatlaðs fólks í Úkraínu.
Eins og haustlægðirnar koma frá Nýfundnalandi á meðvindur Miðflokksins upptök í þeirri döpru hugmyndafræði, sem við lesum um í sagnfræðiritum um fjórða áratug síðustu aldar.
Sigurður Helgi Pálmason er hins vegar að tala fyrir þeirri klassísku frjálslyndu miðju hugmyndafræði og samvinnustefnu, sem var andsvarið við þjóðernislegri einangrunarhyggju kreppuáranna.
Í samvinnustefnunni felst að í alþjóðlegu samstarfi megi treysta öryggi landsmanna og leysa úr læðingi aflvaka framfara. Hvort tveggja er svo undirstaða þeirrar velferðar, sem við njótum í ríkari mæli en nokkurt land, sem hlaupið hefur með vindum einangrunarhyggjunnar.
Hógvær en skýr boðskapur Sigurðar Helga Pálmasonar er áminning um að við þurfum að ræða hvar Ísland á best heima á mestu umbrotatímum í áratugi. Með hverjum slær hjartað?