
Þrátt fyrir ýmsar vangaveltur hefur Pútín ekki látið neinn bilbug á sér finna og var hann mættur á ráðstefnu á dögunum þar sem hann heilsaði hinni 22 ára Yekaterinu Leshchinskaya með handabandi.
Yekaterina er formaður samtakanna Russian Healthy Fatherland og ræddu þau Pútín meðal annars mögulegt bann við sölu á rafsígarettum í Rússlandi.
Það vakti athygli netverja, að því er segir í frétt Mail Online, að þegar hann rétti fram höndina sáust áberandi bólgnar æðar á hægri handarbaki hans. Þá sást hann meðal annars kreppa hnefann ítrekað undir jakkaerminni.
Úkraínski blaðamaðurinn Dmitry Gordon sagði um myndbandið að hendurnar á forsetanum væru augljóslega bólgnar og þær virtust „aumar“. Aðrir benda á að myndbandið gefi ekkert annað til kynna en að Pútín eldist eins og aðrir og það sem sjáist séu ekkert nema eðlileg öldrunarmerki.
Hvað sem því líður hefur myndbandið komið af stað vangaveltum um heilsu Pútíns.
Í nóvember í fyrra sáust merki um einkennilega kippi og titring í fótum hans þegar hann heimsótti Astana, höfuðborg Kasakstan.
Bob Berookhim, skurðlæknir í New York, sagði við það tilefni að Pútín væri hugsanlega með Parkinsons-sjúkdóm eða annan taugasjúkdóm. Það væri þó erfitt að leggja mat á það þar sem tiltölulega fá nýleg myndskeið væru til af forsetanum.
Það hefur einnig vakið umtal að andlit forsetans virðist oft á tíðum þrútið og bólgið. „Það gæti bent til þess að hann sé í sterameðferð sem gæti verið tilkomin vegna bólgusjúkdóma, verkja eða annarra alvarlegri veikinda,“ sagði Dr. Berookhim. „Það gæti líka stafað af þyngdaraukningu.“
Í frétt Mail Online er rifjað upp að kenningin um að Pútín hafi verið undir eftirliti krabbameinssérfræðinga eigi rætur að rekja til rannsóknar fréttamiðilsins Proekt árið 2022.
Greindu blaðamenn miðilsins ferðir forsetans til dvalarstaðar hans í Sochi við Svartahaf og tengdi þær við bókanir lækna á nálægum hótelum. Niðurstaðan var að krabbameinsskurðlæknir, sem sérhæfir sig í skjaldkirtilskrabbameini, hafi heimsótt hann 35 sinnum og dvalið þar í samtals 166 daga.
Yfirvöld í Kreml hafa í nokkur skipti brugðist við fréttaflutningi um meintan heilsubrest forsetans og sagt að hann sé við góða heilsu.