fbpx
Laugardagur 01.nóvember 2025
Fréttir

Mótmæla Sundabraut harðlega – „Gufunes er ekki bara tómt landsvæði til að fylla af malbiki“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 31. október 2025 20:44

Frá Gufuneshverfi en íbúar þar óttast mjög áhrif Sundabrautar á náttúru og búsetu á svæðinu. Mynd: DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umhverfismatsskýrsla og aðalskipulagsbreytingar, vegna fyrirhugðrar lagningar Sundabrautar milli Sæbrautar og Kjalarness er nú til umsagnar í Skipulagsgátt. Þegar hafa verið um 20 athugasemdir sendar inn. Í sumum þeirra er lagt til hvernig fyrirhuguð brú yfir Kleppsvík, þ.e. milli Sæbrautar við Sundahöfn og Gufuness, sem verður hluti af Sundabraut, ætti að vera en einnig kemur til greina af hálfu Vegagerðarinnar að grafa göng í stað þess að byggja brú á þeim kafla. Í sumum athugasemdum er framkvæmdinni hins vegar mótmælt harðlega meðal annars af íbúum í Gufunesi en í andmælunum er meðal annars vísað til þess að Sundabraut ofan jarðar muni spilla náttúrunni á svæðinu og að nánast verði ólíft fyrir íbúa að búa þar en einn þeirra bendir á vegurinn verði aðeins 70 metra frá heimili hans. Sumir þessara íbúa hvetja þó til þess að á þeim kafla sem valið stendur á milli brúar og ganga að síðarnefndi kosturinn verði valinn.

Samkvæmt skoðanakönnun Maskínu eru 76 prósent landsmanna hlynnt Sundabraut en sú andstaða sem er til staðar mun vera mest í Grafarvogi en íbúar þar töldu sig munu nota Sundabraut einna mest.

Hávaði og mengun

Sá íbúi Gufuness sem á heimili sem á að vera aðeins 70 metra frá fyrirhuguðu vegstæði Sundabrautar segir meðal annars í sinni athugasemd að í stað fuglasöngs og sjávarniðs, sem hann og fjölskylda hans búi nú við, muni koma stanslaus hávaði og mengun. Segist hann þjást af astma og vera mjög viðkvæmur fyrir hávaða.

Telur hann öruggt að Sundabraut muni þar af leiðandi hafa mjög skaðleg áhrif á heilsu hans. Segir íbúinn að börn hans muni alast upp við að anda að sér mengun frá bílum í stað tærs sjávarloftsins. Kyrrðin sem sé það sem einna helst einkenni Gufunes muni vera fyrir bí að eilífu. Segir íbúinn næsta víst að mengun frá Sundabraut muni skaða lífríki Gufuness meðal annars varpland fugla.

Íbúinn segir að Sundabraut muni gera út af við þann samhljóm náttúru, listar og mannlegs samfélags sem einkenni Gufunes:

„Bara fyrir hraðari akstursleið fyrir fólk sem mun aldrei stoppa hérna og veit varla að við erum til. Gufunes er ekki bara tómt landsvæði til að fylla af malbiki. Það er lifandi staður, viðkvæmur, menningarlegur og óbætanlegur. Reykjavík á marga vegi en bara eitt Gufunes.“

Göng

Annar íbúi í Gufunesi er einnig á móti Sundabraut en er þó tilbúinn til að samþykkja að grafin verði göng en hún ekki lögð ofanjarðar. Á þá viðkomandi væntanlega við þann hluta sem snýr að Kleppsvík, milli Sæbrautar við Sundahöfn og Gufuness.

Íbúinn vísar einnig til náttúrunnar í Gufunesi. Sundabraut eigi að að vera örfáum metrum frá íbúðabyggð auk þess sem hún mun stofna varplandi í hættu. Gufunes sé náttúruparadís og verðmæt sem slík. Þar að auki muni verðmæti eigna á svæðinu skerðast.

Þriðji íbúinn í Gufunesi sem andmælir Sundabraut segir meðal annars að á nesinu sé verið að byggja upp fallegt og friðsælt íbúðarhverfi þar sem íbúar njóti nálægðar við náttúruna og hafið. Svæðið umhverfis Geldinganes sé eitt af fáum ósnortnum náttúrusvæðum innan borgarinnar og hafi á undanförnum árum orðið vinsælt útivistarsvæði. Þar njóti fjölbreyttur hópur fólks fuglalífsins og upplifi kyrrð náttúrunnar.

Með því að leggja veg yfir þetta svæði sé hætta á að þessi einstaki kostur glatist. Fólk muni missa aðgang að verðmætum útivistarmöguleikum í nlsta nágrenni borgarinnar, og aukin umferð geti haft neikvæð áhrif á bæði fuglalíf og þá ró sem einkenni svæðið í dag.

Nálægð

Eins og hinir tveir íbúarnir vísar þessi einnig til þess að áformað sé að leggja Sundabraut mjög nálægt Gufuneshverfinu. Samkvæmt núverandi teikningum muni brautin liggja í mikilli nálægð við íbúðarhúsin, sem muni óhjákvæmilega hafa áhrif á hljóðvist og skerða hið fallega og friðsæla umhverfi sem nú einkenni hverfið. Mikilvægt sé að þessi atriði séu skoðuð vandlega áður en endanleg ákvörðun sé tekin.

Fjórði íbúinn í Gufunesi mótmælir framkvæmdinni með sams konar rökum og hinir þrír og leggur til að á áðurnefndum kafla þar sem valið stendur á milli brúar og ganga verði síðari kosturinn fyrir valinu. Það sé vissulega dýrara en hagkvæmara til lengri tíma litið:

„Gufunes er náttúruparadís, sem okkur ber að varðveita.“

Íbúi við Leiruvog og Blikastaðakró sem tilheyra að hluta til Reykjavík og að hluta Mosfellsbæ er hins  vegar ekki jafn tilbúinn til málamiðlana og lýsir sig alfarið mótfallinn lagningu Sundabrautar. Hún muni valda óafturkræfu raski á náttúru, lífríki og upplifun í Leiruvogi. Svæðið hafi mikið verndargildi og sé mikilvægt fyrir íbúa og náttúruna.

Víðar

Í annarri athugasemd er lýst yfir áhyggjum af áhrifum Sundabrautar á fuglalíf í Leiruvogi.

Fleiri athugasemdir eru gerðar við áhrif Sundabrautar á umhverfið og athugasemdirnar eru frá fleiri svæðum en bara Gufunesi og Leiruvogi. Íbúar í Laugardal og Langholtshverfi gera athugasemdir meðal annars á þeim grundvelli að Sundabraut sé ekki í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um sjálfbærar samgöngur og mannmiðað borgarskipulag.

Stuðningur við Sundabraut er mikill en andstaða er til staðar sérstaklega meðal þeirra sem munu búa næst hinu fyrirhugaða umferðarmannvirki sem, samkvæmt Vegagerðinni, reiknað er með að muni kosta á annað hundrað milljarða króna.

Nánar má kynna sér umhverfismatsskýrslu vegna Sundabrautar, athugasemdir og fleiri gögn vegna framkvæmdarinnar hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stöðvaður með 40 sentímetra af snjó á framrúðunni

Stöðvaður með 40 sentímetra af snjó á framrúðunni
Fréttir
Í gær

Milljónaráðgjafinn Þórunn tórði ekki lengi hjá ríkislögreglustjóra – Glænýjum ráðningasamningi sagt upp

Milljónaráðgjafinn Þórunn tórði ekki lengi hjá ríkislögreglustjóra – Glænýjum ráðningasamningi sagt upp
Fréttir
Í gær

Ólafur: „Við vissum að eitthvað hræðilegt hafði gerst“ – Þetta er það sem særir enn í dag

Ólafur: „Við vissum að eitthvað hræðilegt hafði gerst“ – Þetta er það sem særir enn í dag
Fréttir
Í gær

Dagur segir að enginn tali um bleika fílinn – „Þessa þögn verður að rjúfa“

Dagur segir að enginn tali um bleika fílinn – „Þessa þögn verður að rjúfa“