
Glæpagengi í Svíþjóð beita blekkingum til að fá börn til að fremja ódæðisverk fyrir sig þar á meðal morð. Eru börnin ekki síst blekkt með loforðum um peningagreiðslur sem annaðhvort er ekki staðið við eða þá greitt með greiðslum sem engin innistæða eða raunverulegir peningar eru á bak við.
Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins, SVT, kemur fram að börnin séu allt niður í 11 ára gömul. Glæpagengin hafa samband við þau í spjallhópum á samskiptaforritinu Signal en í fjölmennustu hópunum eru allt að 300 notendur. Er börnunum heitið háum greiðslum frá tugum þúsunda og allt upp í eina milljón sænskra króna (um 13,2 milljónir íslenskra króna) fyrir að fremja ofbeldisverk fyrir glæpagengin.
Áður fóru svona samskipti aðallega fram í gegnum samskiptamiðilinn Telegram en eftir að fyrirtækið hóf samvinnu við sænsk yfirvöld vegna slíkra mála færðust þau yfir á Signal. Glæpagengin reyna með þessum aðferðum fyrst og fremst að fá börn undir 18 ára aldri til liðs við sig einkum til að þau fái vægari refsingu ef þá einhverja. Stjórnvöld hafa boðað að sakhæfisaldurinn verði lækkaður úr 15 árum í 13 ár en gagnrýnendur segja það fela í sér uppgjöf gagnvart vandanum.
Er þessum krökkum lofað peningum, að þeim verði útveguð vopn og að flóttaleiðir og felustaðir verði til reiðu. Loforðin eru hins vegar yfirleitt svikin og krakkarnir fá enga peninga og þurfa sjálfir að útvega sér leið til að flýja af vettvangi þess glæps sem þau hafa framið.
Kemur fram í umfjölluninni að þessir spjallhópar breiðist hratt og auðveldlega út á meðal ungmenna. Segir fréttamaður SVT, Kovan Alshawish, sem sérhæfir sig í fréttum af glæpum að foreldrar ungmenna ættu að vera áhyggjufullir ef þau séu með Signal í símanum sínum.
Alshawish segir að þetta þýði í raun að glæpagengin geti náð sambandi við börnin á heimilum þeirra. Töluvert hefur verið í fréttum undanfarið í Svíþjóð að ungmenni hafi framið ofbeldisglæpi fyrir glæpagengi, auk morða eru þar á meðal íkveikjur og að kasta molotov-kokteilum.
Alshawish segir að ungmennin sem göbbuð og lokkuð séu með þessum hætti af glæpagengjunum séu oft ekki þekkt af lögreglu eða skóla- eða félagsmálayfirvöldum sem einhverjir sérstakir vandræðaunglingar. Hann segir meðlimi glæpagengjanna fullyrða að mikil eftirspurn sé hjá ungmennum eftir því að taka að sér þessi verkefni fyrir gengin. Svo fari oft hins vegar að börnin fái eftir að þau hafi framið ódæðin ýmist engar greiðslur, lægri greiðslur en samið var um eða greitt sé með fölsuðum seðlum eða innistæðum.
Segir hann þessa spjallhópa hafa breiðst út meðal ungmenna um allt land og sé ekki bundnir við ákveðna hópa, stéttir, borgir, bæi eða landsvæði. Undir það tekur Rasem Chebil yfirmaður í rannsóknardeild lögreglunnar í Malmö.
Hann bætir því við að hluti af aðferðum glæpagengjanna sé einnig að fá börnin til að senda myndir af vegabréfum sínum. Þær noti gengin til að kanna fjölskylduhagi viðkomandi og hóti þeim síðan því að vinni þau ekki umrætt verk verði ráðist á fjölskyldur þeirra. Oft séu börnin send til að fremja óhæfuverk utan sinnar heimaborgar. Hann vill þó meina að gengin þurfi oftast að hafa töluvert fyrir því að fá börnin til að vinna ódæðisverkin fyrir sig og það takist alls ekki alltaf en ljóst sé að það séu þó nokkur tilfelli þar sem það hafi tekist. Erfitt virðist hins vegar vera að hafa hendur í hári þeirra aðila sem lokka og gabba börn með þessum hætti til að fremja ódæðisverk þar sem viðkomandi eru yfirleitt staddir utan Svíþjóðar.