

Landsréttur hefur staðfest fangelsisdóm yfir litháískum athafnamanni, Alexander Furs, sem sakfelldur var fyrir aðkomu að kókaínsmygli til Íslands. Furs var í slagtogi við Rússann Sergey Gaysin, sem ítrekað hefur komist í kast við lögin á Íslandi.
Furs og Gaysin voru dæmdir í októbermánuði árið 2024 fyrir aðkomu að innflutnings tæplega 50 gramma af kókaíni og fjallaði DV um málið. Það sem vakti sérstaka athygli var að hinn litháíski Furs var þá í framboði til þings í heimalandinu.
Furs er þekktur athafnamaður í Litháen með vafasama sögu. Meðal annars er hann með um 20 ára gamlan dóm fyrir innbrot og þjófnað á bakinu. Furs var sagður hafa styrkt stjórnmálaflokkinn Nemunas aushra um því sem nemur 2,6 milljónum króna og fengið sæti á lista að launum.
Þegar saga hans komst í kastljósið var orðið of seint að skipta honum út af lista og því var talið líklegt að Furs kæmist á þing. Það varð hins vegar ekki raunin í þingkosningunum þann 13. október í fyrra.
Málsatvikum er lýst í dóminum á þann veg hinn rússneski Sergey Gaysin, sem hefur komist í kast við lögin hér á landi fyrir líkamsárásir, kynferðis- og fíkniefnalagabrot, hafi staðið að því að flytja inn umslag með kókaíni innanborðs í desember árið 2020. Umslagið var flutt inn hjá Fedex með hraðsendingu.
Tveir milliliðir tóku við umslaginu sem loks fór til Furs og fylgdist lögreglan með. Þegar hann fékk umslagið lét lögreglan til skarar skríða en þá fleygði hann því út um gluggann í húsinu sem hann var í. Lýsti hann yfir sakleysi í málinu.
Furs tilkynnti málið ekki fyrir kosningarnar í fyrra. Sagðist hann hafa verið ranglega dæmdur og gerði fastlega ráð fyrir því að hann yrði sýknaður í Landsrétti. Svo reyndist ekki vera því að Landsréttur hefur staðfest tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir honum. En auk þess voru gerð upptæk 48,86 grömm af kókaíni, Nokia farsími og Samsung farsími í málinu.
Þá var Furs gert að greiða lögmanni sínum málsvarnarlaun og hluta sakarkostnaðar málsins.
Dómurinn yfir Gaysin var þyngdur úr tveggja í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Kona sem var dæmd til skilorðsbundins fangelsis í héraði var hins vegar sýknuð af Landsrétti.