Alvarleg bilun varð í álveri Norðuráls á Grundartanga í gær sem veldur framleiðslustöðvun að hluta. Samkvæmt Sólveigu Bergmann, framkvæmdastjóra samskipta og samfélagsmála hjá Norðuráli, veldur bilunin því að álframleiðsla skerðist um tvo þriðju í óákvæðinn tíma. Starfsmenn álversins eru uggandi vegna málsins og er staðan á Grundartanga metin alvarleg. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í samtali við RÚV í dag að þetta væri gríðarlegt áfall enda viti allir sem þekkja til reksturs álvera hvað það þýðir þegar svona gerist. Um 600 vinna hjá Norðuráli.
Sjá einnig: Bilun í rafbúnaði hjá Norðuráli og framleiðslustöðvun að hluta
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins fjallaði um málið á Alþingi í dag og segir að þarna muni tapast útflutningstekjur upp á tugi milljarða.
„Virðulegi forseti. Í gær varð alvarlegt áfall á Grundartanga sem snertir ekki aðeins fyrirtækið heldur allt nærsamfélagið og einn af grundvallaratvinnuvegum landsins. Í Norðuráli hefur verið stöðvuð framleiðsla og afkastageta hefur skerst um tvo þriðju um óákveðinn tíma. Þetta hefur gríðarleg áhrif á fólk og fyrirtæki og þarna munu tapast útflutningstekjur upp á tugi milljarða. Þetta alvarlega slys er því miður áminning um mikilvægi öflugs atvinnulífs enda byggja lífskjör okkar á öflugri framleiðslu og útflutningi. Á Grundartanga verða til verðmæti sem nema umtalsverðu hlutfalli af útflutningstekjum Íslands og þegar sú lífæð þrengist þá finnur allt hagkerfið fyrir því. Við megum ekki gleyma: verðmætasköpunin er grunnur velferðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn stendur með fólkinu á Grundartanga og í öllum greinum sem halda landinu gangandi. Við stöndum vörð um fjölskyldur og fyrirtækin í landinu en síðastliðið ár er eina svar ríkisstjórnarinnar að hækka álögur á þessa aðila.“
Guðrún bað forsætisráðherra um að koma á dagskrá þingsins sérstakri umræðu um stöðu efnahagsmála enda séu blikur á lofti í atvinnulífinu. Loðnuveiði sé óviss sem og horfur í kolmunna og makríl daprar. Kísilverið á Bakka sé nú lokað tímabundið. Sex hundruð manns hafi misst vinnuna eftir gjaldþrot flugfélagsins Play og nú liggur hluti starfsemi Norðuráls niðri. Ræða þurfi hvernig ríkisstjórnin ætli að verja verðmætasköpun á Íslandi. Það dugi ekki að grípa til skyndilausna.