fbpx
Þriðjudagur 21.október 2025
Pressan

Þoldi ekki „skítalyktina“ af kannabisreykingum nágrannans og fór í hart

Pressan
Mánudaginn 20. október 2025 19:30

Kannabisplöntur. Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandarísk kona á áttræðisaldri hafði betur í dómsmáli gegn karlkyns nágranna sínum en konan þoldi ekki kannabisreykingar mannsins og sagði af þeim stafa mikinn óþef sem minnti á lykt af saur. Sagði konan lyktina iðulega hafa borist frá heimili mannsins yfir til hennar. Samkvæmt dómnum verður maðurinn að reykja kannabis í nógu mikilli fjarlægð frá heimili konunnar.

Fjallað er um málið í ýmsum fjölmiðlum bæði austan hafs og vestan en konan heitir Josefa Ippolito-Shepherd og er 76 ára. Nágranni hennar heitir Thomas Cackett og er 73 ára. Þau búa í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C.

Ippolito-Shepherd sagði lyktina af kannabisreykingum Cackett afar stæka og minna á lykt af saur eða skunki. Lyktin hafi borist frá dyrunum að heimili hans og yfir að hennar heimili en þau búa í sitt hvoru tvíbýlishúsinu, sem eru hlið við hlið.

Ippolito-Shepherd sagðist iðulega óttast að koma aftur heim, eftir að brugðið sér að heiman, þar sem ekki hafi verið von á öðru en að finna kannabislyktina frá Cackett. Fullyrti hún að í eitt skipti hafi lyktin farið svo illa í hana að hún hafi kastað upp.

Hún fékk loksins nóg og fór í mál við þennan nágranna sinn. Segir hún að markmiðið hafi aldrei verið að fá peninga frá honum heldur að geta andað að sér fersku lofti á sínu eigin heimili.

Fimm ár

Bandaríska dómskerfið er þungt í vöfum og dómsmál þar í landi geta tekið mörg ár en þessi málarekstur tók alls fimm ár. Ippolito-Shepherd var sinn eigin lögmaður og hafði betur í undirrétti árið 2023 en málinu var áfrýjað til áfrýjunardómstóls fyrir Washington sem hefur nú staðfest dóminn.

Dómstóllinn féllst á þau rök Ippolito-Shepherd að réttur hennar til hafa afnot og ánægju af sinni fasteign væri mikilvægari en réttur nágranna hennar til að hafa afnot og ánægju af sínu kannabis.

Þess ber að geta að kannabis hefur verið löglegt í Washington síðan árið 2015.

Cackett fullyrti fyrir dómi að hann væri enginn stórreykingamaður þegar kæmi að kannabis. Hann reykti aðeins í um 5 mínútur á dag til að lina þjáningar sínar vegna ýmissa heilufarslegra vandamála sem hann glími við. Þar á meðal væri húðkrabbamein, lifrarbólga, liðagigt og settaugabólga.

Dómarar við áfrýjunardómstólinn tóku það hins vegar ekki trúanlegt að Cackett hefði aðeins reykt kannabis í fimm mínútur á dag. Samkvæmt dómnum verður hann að reykja kannabis í að minnsta kosti 7,6 metra fjarlægð frá heimili Ippolito-Shepherd og það á við þótt hann sé staddur á sínu eigin heimili. Hlýði hann því ekki á hann yfir höfði sér refsingu. Málið er talið fordæmisgefandi fyrir Washington og mögulega aðra hluta Bandaríkjanna þar sem kannabis er löglegt og notendur þess reykja efnið á heimilum sínum og það hugsanlega einhverjum  nágrönnum þeirra til ama.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Tveggja barna faðir fann jónu í vinnunni – Tveimur tímum síðar var hann látinn

Tveggja barna faðir fann jónu í vinnunni – Tveimur tímum síðar var hann látinn
Pressan
Fyrir 4 dögum

UFC-goðsögnin talin glíma við óvenjulegan geðsjúkdóm eftir að hafa ítrekað ráðist á móður sína

UFC-goðsögnin talin glíma við óvenjulegan geðsjúkdóm eftir að hafa ítrekað ráðist á móður sína
Pressan
Fyrir 5 dögum

Móðir sótti ekki soninn til barnapíunnar – Áratugum seinna voru borin kennsl á hana

Móðir sótti ekki soninn til barnapíunnar – Áratugum seinna voru borin kennsl á hana
Pressan
Fyrir 5 dögum

Járnfrúin sögð hafa haldið framhjá tvisvar og átt í sérstöku sambandi við náinn ráðgjafa

Járnfrúin sögð hafa haldið framhjá tvisvar og átt í sérstöku sambandi við náinn ráðgjafa