Það sem hefur einkennt pólitískan spuna síðustu ára eru hundaflautur. Þær hljóma ekki hátt, en eru hannaðar til að kalla fram ákveðin viðbrögð hjá ákveðnum hópum. Þannig eru hlutir sagðir undir rós til þess að espa upp tiltekinn hóp samfélagsins.
Reagan talaði um bótadrottninguna (e. Welfare Queen). Breskir einangrunarsinnar vildu ná völdunum aftur (e. Take Back Control) þegar þeir börðust fyrir Brexit. Og svo kom Trump, nánast eitt langt hundaflaut í mannsmynd.
Hönnuður flautunnar var Steve Bannon, hugmyndafræðingur alt-right hreyfingarinnar og arkitekt menningarstríðsins sem nú stendur yfir. Hlutverk Bannon var að móta pólitíska frásögn sem kallar á reiði og sundrungu, byggða á hugmyndum um þjóðernishyggju, andstöðu við elítuna, fjölmiðla og alþjóðavæðingu. Hann vissi að slíkt myndi hljóma vel í eyrum þeirra sem upplifðu sig vanmáttuga eða svikna af kerfinu.
Þannig fóru slagorð og setningar á borð við Ameríka fyrst (e. America first), um glóbalistana (e. globalists), um lög og reglu (e. law and order), veggurinn frægi (e. build the wall) að óma. Vókið (e. Woke) er síðan nýr tónn í sömu gömlu flautunni.
Þannig stillti herra Bannon tóninn og Trump sá svo einfaldlega um að blása í flautuna. Allt virðist nokkuð sakleysislegt á yfirborðinu en undir niðri eru skilaboð til þeirra sem þola ekki fjölbreytileika og vilja tvískiptan heim. Við og þið.
Snilldin við hundaflautuna er sú að stjórnmálamaðurinn segir ekki berum orðum rasíska eða fordómafulla hluti. Það er bara það sem að rétti hópurinn heyrir. Hún hljómar eins og verið sé að verja frelsi og frjáls skoðanaskipti. Þegar reyndin er önnur.
Hundaflautarinn getur þá alltaf sagt „hvenær sagði ég að ég væri á móti [hér má setja inn jaðarsettan hóp eftir hentugleika]?“ og raunin er sú að viðkomandi hefur líklega ekki sagt neitt slíkt. En fólk heyrði það samt.
Við eigum okkar eigin hundaflautara. Marga hæfileikaríka. Til að mynda í Miðflokknum og í Sjálfstæðisflokknum á tyllidögum.
Nýjasta slagorð Miðflokksmanna sem stimplað var á derhúfur umliðna helgi á landsþingi þeirra er „Ísland fyrst – svo allt hitt“. Með því er (án orða) búin til mynd, án þess að segja það beint, af ríkisstjórn sem hugsar meira um útlönd en eigin þjóðfélagsþegna. Nákvæmlega sama flauta og hljómaði í Washington og London. Þeir sem heyra, heyra.
Enda viljum við væntanlega flest Íslandi og Íslendingum allt það besta ekki satt? Slagorðið hljómar eins og þjóðrækni, en undir niðri er þetta bara nákvæmlega sama tónlistin og í bandarískri menningarstríðsorðræðu. Hugmyndin að hjálp við aðra sé á kostnað okkar sjálfra.
Annað dæmi um nýlegt hundaflaut er áróðursherferð gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanni Viðreisnar.
Þar er Þorgerði stillt upp sem óvini íslenskrar þjóðar vegna þess að utanríkisráðuneytið styrkti samtök sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks og verkefni í Úkraínu sem felst í að rampa upp Úkraínu.
Þessum styrkjum er svo stillt upp við stöðu barna með fjölþættan vanda hér á Íslandi og fjárstyrk heilbrigðisráðherra til Ljóssins.
Og myndin teiknuð upp:
Hvort viltu styrkja einhvern útlenskan sjóð eða styðja við krabbameinsveika Íslendinga? Auðvitað vekur þetta alls kyns tilfinningar, reiði og vegur að réttlætistilfinningu og fer á flug.
Enda var það væntanlega nákvæmlega planið.
Það skiptir engu máli þó útskýrt sé að þetta séu fjármunir sem lögbundið renna til þróunarsamvinnu (0,3% af landsframleiðslu) eða að fjármunir slíkra styrkja fari ekki í launakostnað heldur í verkefni. Hvað þá að svara með því að segja að það sé sannarlega forgangsmál ríkisstjórnar að taka yfir málaflokk barna með fjölþættan vanda og standa með krabbameinsveiku fólki.
Nei, sagan sem hentar er sú að ríkisstjórnin hugsi meira um útlönd en Íslendinga.
Þannig er fræinu sáð. Og þegar fólk heyrir tugguna nógu oft þá byrjar það að trúa henni.
Sigmundur Davíð og Snorri Másson vilja að við trúum því að heimurinn sé svona einfaldur. Svart-hvítur. En ekki láta blekkjast af áróðursmaskínum hundaflautaranna.
Hundaflaut er ekki til þess gert að vernda neinn, heldur til að beina reiði fólks frá raunverulegum vanda yfir á táknræna óvini.
Þetta er í grunninn taktík sem hentar þeim best sem vilja valdatafl en boða um leið engar raunverulegar lausnir. Þetta eru stjórnmálaöfl sem nota jaðarsetta hópa sem skjöld.
Að boða einangrunarstefnu er ekki umhyggja fyrir Íslandi.
Að stunda óttastjórnmál er ekki umhyggja fyrir Íslandi.
Að grafa undan jaðarsettum einstaklingum er ekki umhyggja fyrir Íslandi.
Það er engin skömm í því að falla fyrir hundaflauti.
Það er hannað til að leika á tilfinningar, réttlætiskennd og þreytu fólks á kerfinu.
En við ykkur öll vil ég segja þetta:
Lærum að þekkja tóninn og sjáum í gegnum þetta.