fbpx
Þriðjudagur 07.október 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Átökin í borginni – stóra prófið fyrir Guðrúnu Hafsteins

Eyjan
Þriðjudaginn 7. október 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekkert leyndarmál að Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, er ekki í stuðningsmannaliði Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns flokksins. Hildur er góð vinkona Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og studdi hana með ráðum og dáð í formannsslagnum þar sem Guðrún fór með sigur af hólmi.

Guðrún fór hægt af stað sem formaður og lagði ekki í að skipta um formann þingflokksins fyrr en nú rétt áður en nýtt þing kom saman. Ástæðan fyrir því var sú að Guðrún fann vel að hún er í raun í minnihluta í eigin þingflokki þar sem meirihluti þingmanna studdi Áslaugu Örnu í formannskjörinu og hefur ekki fylgt sér að baki nýjum formanni. Guðrún hefur þó sótt í sig veðrið og á dögunum var einhverjum starfsmönnum þingflokks Sjálfstæðismanna sagt upp og greinilegt er að hún er að treysta tök sín á flokknum.

Margir búast við því að næsta fórnarlamb formannsins verði Hildur Björnsdóttir. Orðið á götunni er að mikil átök séu nú meðal stuðningsmanna Guðrúnar um það hvort ráðast beri til atlögu gegn Hildi. Í þingkosningunum í nóvember fékk Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega 17 prósent í báðum Reykjavíkurkjördæmunum en undir forystu Hildar er flokkurinn að mælast með um og yfir 30 prósent í borginni í könnunum.

Orðið á götunni er að Guðrún átti sig á því að verði reynt að bola Hildi úr oddvitasætinu muni verða mikil hjaðningavíg, auk þess sem alls óvíst sé hvort það takist. Jafnvel þó að það tækist yrði flokkurinn klofinn í herðar niður eftir þann slag og erfitt yrði að sameina fylkingar fyrir sjálfar borgarstjórnarkosningarnar. Guðrún er sögð andsnúin því að tefla fram oddvitaframbjóðanda til höfuðs Hildi af þessari ástæðu.

Orðið á götunni er að það flæki svo málið að í raun hafi Guðrún mjög takmarkaða stjórn á fylgismönnum sínum. Stafar það af því að sjálf á Guðrún ekki ýkja marga harða stuðningsmenn, kjarninn í hennar stuðningsmannahópi eru stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór og hans stuðningsmenn vilji ólmir ná tökum á borgarstjórnarflokknum með því að raða sínu fólki þar á framboðslista. Þeir eru búnir að bola andstæðingum Guðlaugs Þórs úr flestum valdastöðum flokksins á landsvísu en hafa ekki náð tangarhaldi á borgarstjórnarflokknum. Nú telja þeir vera dauðafæri til að hrifsa líka til sín öll völd í borgarstjórnarflokknum.

Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór hafi ekki útilokað að fara sjálfur gegn Hildi í prófkjöri en sé einnig opinn fyrir því að styðja einhvern annan í slíkum slag. Nú stendur Guðrún frammi fyrir stóra prófinu: Getur hún haft hemil á Guðlaugi Þór og stuðningsmönnum hans? Hún veit sem er að pólitísk framtíð hennar veltur á úrslitum sveitarstjórnarkosninganna í vor, og ekki hvað síst í Reykjavík og stöðu flokksins í framhaldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir orðaskipti Guðrúnar og Dags vera ein af ástæðum þess að fólk á erfitt með að treysta stjórnmálafólki

Segir orðaskipti Guðrúnar og Dags vera ein af ástæðum þess að fólk á erfitt með að treysta stjórnmálafólki
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Séra Friðrik, Friðrik V og Guðríður Þorbjarnardóttir

Björn Jón skrifar: Séra Friðrik, Friðrik V og Guðríður Þorbjarnardóttir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Daði Már Kristófersson: Stenst ekki að leiðrétting veiðigjalda setji allt í kaldakol

Daði Már Kristófersson: Stenst ekki að leiðrétting veiðigjalda setji allt í kaldakol
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurður Hólmar Jóhannesson skrifar: Já Takk – Tími til kominn að standa með fötluðu fólki

Sigurður Hólmar Jóhannesson skrifar: Já Takk – Tími til kominn að standa með fötluðu fólki
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið