fbpx
Föstudagur 03.október 2025
Fréttir

Gunni Helga lét Stefán Einar fá það óþvegið: „Skrýtið að veifa aumingjaspjaldinu“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 3. október 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjörugar umræður fóru fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem fréttir vikunnar voru til umræðu. Gunnar Helgason rithöfundur og Þórarinn Hjartarson hlaðvarpsstjórnandi voru gestir þeirra Heimis Karlssonar og Lilju Katrínar Gunnarsdóttur í þættinum.

Ýmislegt bar á góma, til að mynda fall flugfélagsins Play en líka umræðan um starfslaun listamanna sem var nokkuð hávær í vikunni.

Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði grein um málið síðastliðinn laugardag sem unnin var upp úr gögnum frá Samtökum skattgreiðenda um þá rithöfunda sem hafa samanlagt borið mest úr býtum hvað varðar starfslaun síðastliðin 25 ár.

Var umfjölluninni stillt þannig upp að sjá mátti fjölda greiddra starfslauna hjá hverjum og einum höfundi, heildarritlaun yfir allt tímabilið, fjölda bóka og blaðsíðna og starfslaun á hverja útgefna blaðsíðu. Sitt sýndist fólki um þessa umfjöllun og er óhætt að segja að hún hafi verið umdeild.

Sjá einnig: Sauð upp úr á Bylgjunni þegar Stefán Einar og Margrét tókust á – „Þú ert ekki að stjórna þessum þætti, Stefán Einar“

Stefán Einar mætti í Bítið á mánudag ásamt Margréti Tryggvadóttur, formanni Rithöfundasambandsins, þar sem fjörugar umræður fóru fram og þá skrifaði Andri Snær Magnason rithöfundur beitta grein þar sem hann gagnrýndi umfjöllun Stefáns Einars og sagði hann hafa skautað yfir fjölmörg verk sem hann hefur komið að á undanförnum árum og áratugum.

„Ekki-frétt eða falsfrétt“

Gunnar Helgason var ómyrkur í Bítinu í morgun og sagði að umfjöllun Stefáns Einars og Samtaka skattgreiðenda væri „ákveðin mannorðsárás á ákveðna listamenn sem eru með rangar skoðanir“. Benti hann á að Stefán Einar hafi sagt það sjálfur í Bítinu á mánudag þegar hann nefndi að Andri Snær hefði til dæmis verið aktífur í baráttunni gegn því að hér sé virkjað.

Sjá einnig: Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“

„Getur verið – og þetta er bara spurning og tilraun til að veita þessum sjóði aðhald – að það sé verið að úthluta fjármunum til fólks til þess að það geti sinnt einhverju öðru, pólitískum aktívisma af ýmsu tagi…,“ sagði Stefán Einar meðal annars í þættinum á mánudag.

Gunnar sagði að ýmislegt hefði vantað í umfjöllun Stefáns Einars.

„Þetta er illa unnið, þetta er röng frétt sem gerir þetta að ekki-frétt eða falsfrétt, annað hvort, og svoleiðis fréttir eru notaðar í einhverjum tilgangi. Þetta er svo mikið drasl að ég veit bara ekki,“ sagði Gunnar og sagði Stefán hafa veifað „aumingjaspjaldinu“.

Notaði nafn Charlie Kirk

„Svo kemur hann í útvarpið og segir að hann hafi orðið fyrir svívirðingum. Ég er búinn að lesa mjög mikið, ég er búinn að vera með þetta á heilanum af því að þetta snýr að mér, mínu lífsviðurværi. Það eru allir mjög kurteisir, það er að segja rithöfundarnir, ég get ekki svarað fyrir alla sem eru að tjá sig, þar sem dónarnir mæta og byrja að garga,“ sagði hann og bætti við að hann sjálfur hefði verið kallaður aumingi og sagt að halda kjafti.

„En ekki af honum sko, Stefáni – en Stefán kallaði bróður minn hrotta og ofbeldismann og ég veit ekki hvað hann hefur kallað aðra. Það hefur enginn sagt svoleiðis við Stefán, og þetta er svo skrýtið að veifa aumingjaspjaldinu þegar þú ert sá sem ert að ráðast á,“ sagði Gunnar sem sagði leiðinlegt að nota nafn Charlie Kirk í þessari umræðu.

Þetta minnti þó á þegar einhver stillir sér upp sem rólegum og yfirveguðum svo allt sem hann segir virki eðlilegt og mikilvægt – en í rauninni sé hann að ráðast á venjulegt fólk sem situr heima, vinnur sitt dagsverk og skrifar sínar bækur.

„Það er enginn sem fer á listamannalaun og hugsar með sér að núna geti ég slakað á,“ sagði Gunnar meðal annars en umræðuna má nálgast hér að neðan.

Stefán Einar brást við viðtalinu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann hvatti fólk til að hlusta á viðtalið við Gunnar.

„Gífuryrði og jafnvægisleysi einkennir allt það sem hann hefur fram að færa. Hann getur ekki einu sinni leyft viðmælanda sínum að ljúka máli sínu. Frekjan og yfirgangurinn er svo óheftur. Almenningur á Íslandi horfir í forundran á það hvernig listaelítan bregst við og rís upp á afturlappirnar þegar efnisleg umræða á sér stað um styrkjakerfi fyrir listamenn. Gunnar Helgason, bróðir hans Hallgrímur, sem hefur verið á stærsta spenanum alla tíð, Andri Snær, Margrét Tryggvadóttir og fleiri og fleiri steyta hnefann framan í almenning og lætur eins og að þau eigi réttmætt og óskorað tilkall til þeirra milljarða sem greiddir eru inn í þetta kerfi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óargadýr í eigu Fast & Furious stjörnu halda hverfi í gíslingu og drepa aðra hunda

Óargadýr í eigu Fast & Furious stjörnu halda hverfi í gíslingu og drepa aðra hunda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Afbókanir farnar að berast ferðaþjónustuaðilum vegna falls Play – Misjafnar skoðanir á æskilegum viðbrögðum

Afbókanir farnar að berast ferðaþjónustuaðilum vegna falls Play – Misjafnar skoðanir á æskilegum viðbrögðum