Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, fulltrúi Pírata í bæjarstjórn Kópavogs, segir gagnrýni Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra á rannsókn á „Kópavogsmódelinu“ svokallaða í leikskólamálum ekki halda vatni. Bæjarstjórinn hlusti ekki á foreldra í bænum.
Ný rannsókn Vörðu á leikskólamálum í Kópavogi sýna að breytingin sem gerð var árið 2023 henti fjölskyldum mjög illa. Það er að gera sex tíma gjaldfrjálsa en hækka verðið fyrir fulla dagvistun mjög mikið. Foreldrar lýsa óánægju með kerfið og segja það hannað út frá hagsmunum sveitarfélagsins en ekki þeirra.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri sagðist gefa lítið fyrir rannsóknina. Úrtakið væri of lítið og að Varða væri hluti af BSRB sem væri á móti Kópavogsmódelinu.
„Stóra málið er ekki úrtaksstærð heldur að bæjarstjóri hlustar ekki á foreldra,“ segir Sigurbjörg Erla. „Foreldrar í Kópavogi hafa ítrekað lýst tímapressu, auknu álagi og samviskubiti eftir innleiðingu Kópavogsmódelsins, en í stað þess að taka frásagnir þeirra alvarlega segir bæjarstjóri að þetta sé „allt of lítið úrtak“.
Mikið hefur verið fjallað um Kópavogsmódelið í fjölmiðlum á undanförnum árum og hafa margir foreldrar gagnrýnt það harðlega. Er módelið sagt aðeins henta efnuðum foreldrum sem þurfi ekki að vinna átta tíma vinnudag. Einnig að módelið skekki myndina gagnvart konum.
Sigurbjörg Erla bendir á að rannsókn Vörðu sé unnin af sérfræðingum og sé eiginlega og aðferðafræðilega vönduð. 20 slembivalin viðtöl séu eðlilegt umfang þegar markmiðið sé að skilja hvernig kerfið bitnar á fjölskyldum.
„Fullyrðingu bæjarstjóra um að ánægja sé að aukast þarf að styðja með gögnum. Þangað til stendur eftir það sem foreldrar segja sjálfir: kerfið er stíft, skapar stöðuga pressu og hentar illa venjulegu fjölskyldulífi með útivinnandi foreldra. Kópavogsmódelið er ekkert annað en þjónustuskerðing og íbúar Kópavogs eiga skilið að bæjarstjóri hlusti á þá,“ segir hún að lokum.