Langflestir íbúar Evrópusambandsríkja telja að aðild hafi gert landi þeirra gott. Hlutfallið er hærra í norðurhluta álfunnar en suðurhlutanum.
73 prósent íbúa Evrópusambandsríkja telja að aðild að ESB hafi verið jákvæð fyrir land þeirra. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem birt var á vef Evrópuþingsins.
Mesta jákvæðnin mælist í Möltu, 93 prósent. Svo í Danmörku og Írlandi, þar sem 90 prósent segja að ESB aðild hafi gagnast landi þeirra vel. En þetta eru einmitt þau tvö lönd þar sem efnahagurinn hefur vænkast hvað mest á undanförnum árum.
Þá mælist einnig mjög mikil jákvæðni í Portúgal (89 prósent), Lúxemborg (88 prósent), Litháen (87 prósent), Póllandi (85 prósent) og Svíþjóð (82 prósent). Almennt mælist mest jákvæðni í norðurhluta álfunnar, það er á Norðurlöndum, á Benelúx svæðinu, Eystrasaltinu og Þýskalandi en einnig mikil jákvæðni á Íberíuskaga.
Minnsta jákvæðnin mælist í Búlgaríu en þó telur meirihluti þar að ESB aðild hafi gert gott fyrir landið það er 58 prósent. Þar á eftir koma Austurríki (60 prósent), Tékkland (62 prósent), Frakkland (64 prósent) og Ítalía (65). Almennt er jákvæðnin minnst í suðurhluta álfunnar og á Balkanskaga, en þó hvergi undir 50 prósentum.
Spurt var um margt fleira í könnuninni sem gerð var í öllum 27 aðildarríkjum. Meðal annars hver áhrif aðildar séu á líf íbúanna sjálfra. Sléttur helmingur þeirra, það er 50 prósent, telja að aðildin hafi haft almenn jákvæð áhrif á daglegt líf þeirra. 31 prósent sögðu hvorki né en aðeins 18 prósent svöruðu að aðildin hefði haft neikvæð áhrif á daglegt líf.
Þá kemur einnig fram að Evrópubúar vilja að sambandið spili stærri rullu, til að mynda í öryggismálum. 68 prósent vilja að ESB leggi meiri áherslu á að verja íbúa gegn alþjóðlegum krísum og hættum.
Fleiri vilja að varnarmál og öryggi sé aðalfókus ESB heldur en efnahagsmál og iðnaður, það er 37 prósent á móti 32 prósent. Sem er nokkuð merkilegt í ljósi þess að ESB er fyrst og fremst efnahagsbandalag. Þetta gefur þó til kynna að Evrópubúar séu að missa traust á NATO í ljósi afstöðu Trump stjórnarinnar.
90 prósent íbúa vilja að aðildarríkin vinni þétt að því að leysa alþjóðleg vandamál saman. 77 prósent telja að sambandið þurfi fleiri verkfæri til þess að bregðast hratt við heimi sem er að breytast ört pólitískt séð.
78 prósent telja að fleiri verkefni ættu að vera borguð af ESB og 91 prósent telja að Evrópuþingið ætti að hafa nægar upplýsingar og verkfæri til að stýra fjármunum sambandsins.