fbpx
Miðvikudagur 01.október 2025
Fréttir

Andri Snær svarar Stefáni Einari fullum hálsi: „Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. október 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andri Snær Magnason rithöfundur hefur svarað skrifum Stefáns Einars Stefánssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, fullum hálsi. Segja má að umfjöllun Morgunblaðsins um síðustu helgi hafi vakið athygli, en þar var fjallað um þá rithöfunda sem hafa samanlagt borið mest úr býtum hvað varðar starfslaun síðustu 25 ár.

Byggðist umfjöllunin á gögnum frá Samtökum skattgreiðenda sem birta fjölda greiddra mánaða starfslauna hjá hverjum og einum höfundi, heildarritlaun yfir allt tímabilið, fjölda bóka og blaðsíðna og starfslaun á hverja útgefna blaðsíðu. Kom meðal annars fram að Andri Snær hefði fengið 137,8 milljónir króna á 25 árum fyrir „fimm bækur“, eða 106.957 krónur á hverja blaðsíðu.

Sjá einnig: Sauð upp úr á Bylgjunni þegar Stefán Einar og Margrét tókust á – „Þú ert ekki að stjórna þessum þætti, Stefán Einar“

„Aðdáunarverð nákvæmni“

Andri Snær skrifar langa svargrein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir sína vinnu á síðustu árum.

„Nákvæmni tölfræðinnar upp á krónu er aðdáunarverð og hefur yfirbragð vandvirkni en því miður er þetta rangt. Stefán Einar hefði mátt gefa sér betri tíma til að kynna sér málefnið í stað þess einfaldlega að endurbirta gagnrýnislaust upplýsingar og framsetningu hagsmunasamtaka. Hlutverk blaðamanna er að leggja sjálfstætt mat á slíkt efni en það á ekki við að þessu sinni,“ segir Andri og bætir við að Stefán sé að „hengja bakara fyrir að vera ekki smiður“ eins og hann orðar það.

„Ég er ekki bara bókahöfundur og í umsóknum mínum um starfslaun hafa leikrit og leikritun verið hluti eða kjarninn í mínu listræna starfi ásamt handritum fyrir heimildarmyndir. Öll þessi verkefni eru tilgreind í umsóknum mínum. Höfundar eins og Ólafur Haukur, Árni Ibsen og Hrafnhildur Hagalín hafa öll notið stuðnings launasjóðs rithöfunda fyrir leikritun,“ segir Andri Snær og telur svo upp fjölda verka sem Stefán „gleymdi“ að nefna.

Hann nefnir til dæmis leikritið Bláa hnöttinn sem var settur upp á stóra sviði Þjóðleikhússins árið 2001. Bendir Andri Snær á að ekkert íslenskt leikriti hafi verið sett upp jafn víða um heiminn.

„Árið 2001 var leikverkið „Hlauptu náttúrubarn“ flutt í Útvarpsleikhúsinu á RÚV. Árið 2004 skrifaði ég Úlfhamssögu fyrir Annað svið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Verkið var unnið upp úr hinum fornu Úlfhams rímum. Verkið fékk sjö Grímutilnefningar og undirritaður fékk tilnefningu sem „Leikskáld ársins“. Verkið er að finna í umsókn um starfslaun hjá Launasjóði rithöfunda.“

Sum verkin lengi í vinnslu

Andri Snær nefnir fleiri verk sem hann tók þátt í: Til dæmis verkið Eilíf hamingja sem var sett upp árið 2007 og fékk tilnefningu til Grímunnar. Draumalandið árið 2009 þar sem hann var annar leikstjórinn og handritshöfundur. Myndin hlaut Edduverðlaun sem heimildarmynd ársins. Hann heldur svo áfram og nefnir verkið Eilífa óhamingju sem var sett upp á litla sviði Borgarleikhússins árið 2010. Hann nefnir svo fleiri sýningar og heimildarmyndir sem hann hefur unnið að.

Andri Snær segir að hann hafi gefið út sjö bækur á þessu tímabili og það sé rétt hjá Stefáni Einari að sumar þeirra voru lengi í vinnslu. Segir hann að fjórar þeirra hafi slegið Íslandsmet til viðbótar við Íslandsmetið sem Blái hnötturinn sló.

„Ferill höfundar er óvenjulegur og það er notað gegn honum: Fyrir að taka áhættu eða vinna þvert á listform. Hér er ekki talin upp þáttaka í Feneyjatvíæringnum með SAP arkítektum með Lavaforming 2025, skrif fyrir íslenska dansflokkinn, minnismerkið um Ok jökul, verkefni með Kronos Quartet í maí 2025, Yo Yo Ma-verkefni í Hörpu haustið 2024 eða klukkutima sýningu sem ég gerði fyrir Schauspielhaus í Hamborg fyrir 2000 manns sumarið 2024 á vegum þýska vísinda- og menntamálaráðuneytisins. Ekki heldur ótal fyrirlestrar eða þátttaka í að móta þema og opna stærstu heilbrigðisráðstefnu Asíu, Prince Mahadrol-ráðstefnuna í Taílandi 2023 ásamt ritstjóra The Lancet. Að fylgja eftir bók eins og „Um tímann og vatnið“ á 30 tungumálum – er í rauninni ekki eins manns verk,“ segir hann meðal annars í greininni.

„Rasandi hissa á sóuninni“

Andri Snær segir að verk hans geti verið lengi í mótun og mörg verði til samtímis. Hann rifjar upp að árið 2014 hafi hann fengið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

„Þrátt fyrir það lagði Stefán Einar fram stjórnsýslukæru árið 2016 þar sem honum þótti ferill minn grunsamlegur og óskaði eftir öllum mínum trúnaðargögnum hjá Launasjóði rithöfunda. Miðað við framsetningu um „krónur á blaðsíðu“ og vantalin leikrit þá getur hver maður ímyndað sér hvílíku tjóni Stefán Einar hefði valdið ef hann hefði komist í umsóknir mínar. Hann hefði haft vald til að trufla, reka á eftir eða eyðileggja vinnuferli bókar minnar „Um tímann og vatnið“ sem þá hét „Leitin að Auðhumlu“. Stefán hefði haft vald til að birta upplýsingar um verk sem eru enn óútkomin og gera þau tortryggileg. „Um tímann og vatnið“ er eins og áður kom fram – komin út á 30 tungumálum en samt hamast Stefán í mér fyrir getuleysi – af því hún er bara „ein bók“.“

Andri Snær er ósáttur með þá framsetningu sem birtist í umfjöllun Morgunblaðsins og segir að nær hefði verið að reikna út hverju höfundarnir skiluðu í stað þess að reikna út hvað þeir fengu. Segist hann til dæmis hafa fengið þær upplýsingar frá Forlaginu að bækur hans hér á landi hefðu selst í samtals 110 þúsund eintökum.

„Það er velta upp á 550 milljónir sem skiptist á prentsmiðjur, bókabúðir, virðisaukaskatt, bókaforlag og höfundarlaun. Af hverju gat Stefán ekki reiknað út framlag okkar höfunda – hverju við skiluðum í stað þess að reikna út hversu mikil byrði við erum á samfélaginu? Af því að það – lét okkur líta of vel út? Að auk listræns framlags væri beinn fjárhagslegur ávinningur af starfi okkar? Talaði hann um fimm Íslandsmet? Alþjóðleg verðlaun? Að velgengi okkar innanlands og utan væru rök til að efla sjóðinn? Nei, Stefán Einar er svo rasandi á sóuninni í feril minn, líkir því við að hann sjálfur hefði bara „mætt í vinnuna, einu sinni í mánuði alla mína starfsævi“. Já ég hefði svo sannarlega viljað sjá mínar helgustu hugmyndir í hans höndum. Ég segi og skrifa: Helgustu hugmyndir.“

Andri Snær segist að lokum vera hlynntur aðhaldi og það gildi um blaðamenn líka.

„Mér þykir leitt að hafa sóað verðmætum tíma mínum í að leiðrétta vinnubrögð Stefáns. En þrátt fyrir ábendingu þá leiðrétti Stefán ekki sjálfur mistök sín heldur gaf í á Bylgjunni og í Spursmálum og á samfélagsmiðlum. Mínum sjónarmiðum er hér með komið á framfæri. Það eina sem skiptir mig máli er gæði verkanna og tíminn sem ég gef þeim. Það er forsenda þess að þau fari um heiminn. Þá er von til þess að þau lifi mig – og ekki síst Stefán.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Dularfulli fundur varnarmálaráðherra er hafinn – Enga feita hershöfðingja, ekkert skegg og ekkert sítt hár

Dularfulli fundur varnarmálaráðherra er hafinn – Enga feita hershöfðingja, ekkert skegg og ekkert sítt hár
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gufunesmálið: Hvers vegna fengu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsisdóm?

Gufunesmálið: Hvers vegna fengu Stefán og Lúkas 17 ára fangelsisdóm?
Fréttir
Í gær

Fjórir lífeyrissjóðir tapa 3 milljörðum króna á falli Play – „Stjórnir sjóðanna, þurfa þær ekkert að svara fyrir svona glórulausar fjárfestingar?“

Fjórir lífeyrissjóðir tapa 3 milljörðum króna á falli Play – „Stjórnir sjóðanna, þurfa þær ekkert að svara fyrir svona glórulausar fjárfestingar?“
Fréttir
Í gær

Hryllingur á Ryder Cup – Trumpistar góluðu viðbjóðsleg orð og ógnuðu fjölskyldum evrópskra kylfinga

Hryllingur á Ryder Cup – Trumpistar góluðu viðbjóðsleg orð og ógnuðu fjölskyldum evrópskra kylfinga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjárfestir náði að selja hlutabréf í Play á sama tíma og tilkynnt var um endalokin

Fjárfestir náði að selja hlutabréf í Play á sama tíma og tilkynnt var um endalokin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Play gefur út leiðbeiningar til farþega nú þegar fyrirtækið er farið á hausinn

Play gefur út leiðbeiningar til farþega nú þegar fyrirtækið er farið á hausinn