Pólverjar eru líklegir til þess að bætast í hóp þeirra Evrópuþjóða sem hyggjast sniðganga Eurovision í vor ef Ísraelsmenn fá að taka þátt. Menningarmálaráðherrann telur að Pólverjar eigi að draga sig úr keppninni.
Enn virðast þjóðir vera að bætast í hóp þeirra sem ekki ætla að taka þátt í Eurovision í Vínarborg í vor ef Ísraelsmenn fá að taka þátt. Ástæðan er hernaður og þjóðarmorð Ísraela á Gaza.
Þegar hafa Íslendingar, Spánverjar, Slóvenar, Hollendingar og Írar tilkynnt að þeir hyggist ekki taka þátt verði Ísraelar með. Danir hafa tilkynnt að þátttaka þeirra sé háð því að friður verði um keppnina.
Nú virðist sem Pólverjar séu að bætast í hóp sniðgönguþjóða og kemur það ekki alveg á óvart. En talið var að bæði Pólverjar og Finnar myndu bætast í sniðgönguhópinn bráðlega.
„Eurovision er viðburður sem hálf Evrópa, Ástralía og nærri allir Pólverjar eru að bíða eftir. Ég myndi mjög vilja að þetta yrði ekki að pólitískum viðburði, en að mínu mati ættum við ekki að taka þátt í Eurovision ef Ísrael fær að taka þátt,“ sagði Marta Cienkowska, menningarmálaráðherra Póllands, í útvarpsviðtali hjá TOK FM.
Cienkowska ítrekaði að engin ákvörðun hefði verið tekin í ríkisstjórninni. En eins og margir muna þá var yfirlýsing menningarmálaráðherra Spánar forveri þess að Spánverjar bættust í sniðgönguhópinn. Útlit er því fyrir að Pólverjar bætist brátt í hópinn, en frestur til að tilkynna þátttöku er um miðjan desember.