Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn um helgina, grunaður um að hafa farið inn á heimili fjölskyldu í Hafnarfirði að næturlagi og brotið þar gegn barni á grunnskólaaldri.
RÚV greindi frá málinu í gær og kom þar fram að tengsl væru milli foreldra barnsins og hins grunaða, en þau væru þó ekki tengd fjölskylduböndum. Manninum var sleppt úr haldi á miðvikudaginn.
Vísir greinir nú frá því að lögregla hafi meðal annars til rannsóknar hvort maðurinn hafi haft samræði við barnið, sem er sagt vera drengur á miðstigi í grunnskóla. Vísir hefur heimildir fyrir því að drengurinn hafi vaknað um miðja nótt og maðurinn þá kominn inn í herbergi hans.
Sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Hildur Sunna Pálmadóttir, segir að rannsókn sé í fullum gangi og litið sé á það alvarlegum augum þó að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald. Hún vildi ekki tjá sig um hversu gamall þolandinn er en tók fram að um sé að ræða ungt barn sem er ekki að nálgast fullorðinsaldur. Rannsókn sé stutt á veg komin en samkvæmt frétt Vísis hefur þegar verið leitt í ljós að „ hræðilegir atburðir hafi átt sér stað á heimili drengsins“.
Lögregla telur að fólk þurfi ekki að óttast að maðurinn brjóti aftur af sér þó að hann gangi laus.