Þó nokkra gagnrýni hefur hlotið sú fyrirætlan Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) að gefa fundarmönnum á þingi Sambandsins í næsta mánuði boli áþekka þeim sem hinn umdeildi áhrifamaður á hægri væng bandarískra stjórnmála Charlie Kirk klæddis þegar hann var skotinn til bana. Bolurinn er hvítur og á honum stendur orðið frelsi. Í bréfi til ungra Sjálfstæðismanna þar sem gjöfin er kynnt er hún sögð tákn um baráttuna fyrir frelsi. Meðal þeirra sem gagnrýna þetta uppátæki er fyrrverandi varaformaður SUS og fyrrverandi borgarfulltrúi flokksins sem segir það hreinlega ógeðfellt.
Samkvæmt frétt Vísis var bolurinn kynntur fyrir ungum Sjálfstæðismönnum á þann hátt að með honum sé ætlunin að minna á að frelsið sé grunnstef í allri stefnu SUS og að tjáningarfrelsið sé hornsteinn vestrænna samfélaga. Frelsið sé aldrei sjálfgefið, fyrir því þurfi ávallt að berjast. Sú barátta eigi sér stað með orðum, en aldrei með ofbeldi. Bolurinn sé ekki aðeins bolur heldur tákn um það sem ungir Sjálfstæðismenn trúi á og berjist fyrir.
Það sem Charlie Kirk skilgreindi sem frelsi hefur lengi verið umdeilt en hann aðhylltist til að mynda ekki frelsi kvenna til að fara í þungunarrof og ekki frelsi trans fólks til að fá að vera það sjálft enda leit hann á það að vera trans sem geðveilu.
Sumir sem gagnrýna unga Sjálfstæðismenn virðast túlka þennan bol á þann hátt að þeir taki undir skilgreiningu Charlie Kirk á hvað frelsi sé og styðji þau hörðu viðbrögð sem fólk, sem hefur sagt styggðaryrði um hann eftir andlát hans, hefur orðið fyrir. Ein af þeim sem virðist gera það er Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sem gagnrýnir uppátækið harðlega í færslu á Facebook. Þorbjörg Helga var varaformaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna á árunum 2003-2005 og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 2006-2014. Í færslunni er Þorbjörg Helga harðorð í garð síns gamla flokks og vísar einnig til þeirra hörðu refsinga sem gripið hefur verið til í Bandaríkjunum gegn þeim sem hafa sagt eitthvað um Charlie Kirk sem stjórnvöldum hefur mislíkað:
„Mér fannst hreint ógeðfellt að sjá SUS, hvar ég var einu sinni varaformaður, leggja upp með þessa boli. Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara? Í bólið með Miðflokknum? Skilaboðin eru skilgreining um málfrelsi á þeirra forsendum, á forsendum Trump. Sem er hrein ritskoðun.“
Þorbjörg Helga virðist sú eina hingað til úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem gagnrýnt hefur þessa Charlie Kirk boli ungra Sjálfstæðismanna opinberlega.
Egill Helgason fjölmiðlamaður veltir fyrir sér á Facebook hvort þetta sé sérstaklega klókt hjá ungum Sjálfstæðismönnum:
„Ég er ekki viss um að það sé sniðugur leikur hjá ungum Sjálfstæðismönnum að prenta boli að bandarískri fyrirmynd með áletruninni Frelsi. Því frelsinu virðist nokkuð snúið á hvolf þar vestra þessa dagana – og er það vart í anda hinnar heilögu (eða stundum er látið eins og hún sé það) stjórnarskrár. Þarna er í stórum stíl verið að þagga niður í fjölmiðlamönnum sem ekki eru stjórnvöldum þóknanlegir, beinlínis reka þá fyrirvaralaust – forsetinn sjálfur vill fara í mál við helsta dagblað landsins í þeim tilgangi að gera út af við það. Og nú kemur yfirlýsing um að það laustengda mengi fólks sem hefur verið nefnt and-fasistar verði skilgreint sem hryðjuverkasamtök. Þá verður líklega hægt að handtaka það og loka inni alveg eftir hentugleikum stjórnarinnar. Nei, þetta er ekki alveg í anda frelsisins. Held það verði svona fremur til háðungar ef einhver fer að klæðast þessum bolum á fundi þessa merka og gamla stjórnmálaflokks sem á sér ágæta hefð frjálslyndis.“
Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamaður, sem er virkur þátttakandi í starfi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir þessa færslu Egils og lofar Charlie Kirk:
„Hér svertir hann svo minningu Charlie Kirk sem myrtur var fyrir skoðanir sínar á dögunum. Dregur einhvern veginn upp þau hugrenningatengsl að hann hafi verið hluti af fasistahreyfingu, jafnvel þótt ekkert bendi til þess að skoðanir hans eða málflutningur hafi átt nokkuð skylt við slíkt.“
Egill minnist hins vegar ekki einu orði á Charlie Kirk í færslu sinni en hvort Stefán Einar skilgreinir frelsi með sama hætti og Charlie Kirk gerði kemur ekki fram í fræslu hans.