Þórhallur Gunnarsson, stjórnendaráðgjafi og -þjálfari hjá Góð samskipti og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölmiðla Sýnar, fór af stað með Draumaliðsdeild Alþingis í gær.
Í færslu sinni lýsir Þórhallur deildinni svona:
„Í leiknum er keppt í þremur flokkum:
Flokkadeild
Formannadeild
Topp 10 þingmenn vikunnar
Í hverri viku fá stjórnmálaflokkar, flokksformenn og alþingismenn stig út frá fjölbreyttum og sanngjörnum mælikvörðum.
Stigin safnast saman og sigurvegarar verða krýndir við þinglok í vor.“
Þórhallur birtir jafnframt niðurstöður vikunnar 10.–17. september
„Stigagjöfin byggir m.a. á:
Þátttöku í umræðum og frumkvæði í þingstörfum
Sýnileika í samfélaginu og samtal við almenning
Persónulegum styrkleikum og leiðtogahæfni
Samstöðu og fagmennsku innan flokks
Ath:
Ekki er lagt mat á hægri eða vinstri stefnu – aðeins á vinnusemi, framkomu, samskiptahæfni og lausnamiðað viðhorf.
Allar tölur byggja á raunverulegum gögnum og metinni frammistöðu frá og með setningu Alþingis 10. september 2025.“
Í samtali við DV segir Þórhallur að hann muni birta stöðutöflu einu sinni í viku í öllum flokkum.
„Í grófum dráttum byggir leikurinn á því sem kemur fram í forsendunum en sett upp þar með einfaldari hætti. Ég safna gögnum víða, bæði frá Alþingi, fjölmiðlum og víðar. Formenn flokka fá til dæmis aukastig því ofar sem flokkur þeirra er í samanlagðri stigagjöf flokkanna. Velgengni allra þingmanna hjálpar því bæði flokki og formanni.“
Segist Þórhallur ekki leggja mat á hvort pólitíkin sem stunduð er sé „rétt“ eða „röng“.
„Lykilatriðið er vinnusemi (mætingar, þátttaka í þingfundum, þingnefndum), framkoma (hlusta á sjónarmið), að koma með lausnir (eflaust margir ósammála hvort lausnin sé góð) en það er þó viðleitni. Að hlusta á sjónarmið og taka tillit til annara viðhorfa (þetta snýst fyrst og fremst um nálgun í samræðum, ekki að viðkomandi sé eins og lauf í vindi með skoðanir sínar.
Svona er þetta í örstuttu máli, mannlegir eiginleikar eru helsti mælikvarðinn og hæfileikinn til að leiða fólk.“