fbpx
Miðvikudagur 17.september 2025
Fréttir

Þættir um íslenskt grín fengu enga endurgreiðslu – Skýringar á því voru ófullnægjandi

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 17. september 2025 13:30

Nefnd um endurgreiðslu kvikmyndagerðar hefur aðsetur hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands sem er staðsett í sama húsnæði og Bíó Paradís.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðuneytið hefur fellt úr gildi synjun nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi á umsókn aðstandenda ónefndra sjónvarpsþátta um endurgreiðslu hluta framleiðslukostnaðar, úr ríkissjóði. Nefndin sagði þættina ekki uppfylla ákvæði reglugerðar, um endurgreiðslur, um menningarlegt gildi en ráðuneytið segir skýringar á þeirri niðurstöðu vera ófullnægjandi.

Þættirnir eru ekki nefndir á nafn í úrskurði ráðuneytisins en fram kemur þó að meðal umfjöllunarefna sé íslenskt grín.

Nefndin synjaði umsókninni í október 2024 en niðurstaðan var kærð til menningar- og viðskiptaráðuneytisins í sama mánuði. Á meðan málið var til meðferðar var það ráðuneyti hins vegar lagt niður og málið færðist því yfir til menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðuneytisins en það tafði málsmeðferðina.

Synjun nefndarinnar byggði á því að þættirnir uppfylltu ekki kröfur reglugerðarinnar um menningarlegt gildi en í þeim liðum er ekki síst vikið að því að viðkomandi verkefni skuli tengjast íslenskri menningu og sögu.

Aðstandendur þáttanna vildu meina í sinni kæru að þeir stuðluðu að eflingu menningar og kynningu á sögu Íslands og væru þar að auki framleiddir á Íslandi. Vildu þeir einnig meina að sambærileg verkefni hefðu fengið endurgreiðslu og því væri um brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að ræða. Öll verkefnin eigi það sameiginlegt að þar ferðist íslenskir þáttastjórnendur til framandi landa til að kynnast ólíkri menningu og vekja áhuga áhorfenda á henni, ásamt því að bera framandi menningu saman við íslenska menningu og íslenskan menningararf.

Einstakt grín

Aðstandendur gerðu sérstaka athugasemd við að nefndin teldi þættina ekki uppfylla að fullu lið reglugerðarinnar um að viðkomandi verkefni yrði að byggja á sögupersónu eða einstaklingi úr íslenskum eða evrópskum menningararfi, sögu, samfélagi eða trúarbrögðum. Bentu þeir á önnur verkefni sem fengu endurgreiðslu og sögðu varla standast að þau verkefni uppfylltu þetta ákvæði en ekki þeirra.

Sögðu aðstandendur þættina endurspegla íslenskan veruleika og eiga stóran þátt í sögu íslensks gríns.

Vildu þeir meina að þættirnir uppfylltu kröfur e-liðar reglugerðarinnar um að söguþráður, handrit eða meginþema yrðu að beinast að viðfangsefnum líðandi stundar sem hafi vísun til menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála í íslensku eða evrópsku samfélagi.

Sögðu aðstandendur íslenskt grín einstakt, litað af litlu samfélagi, norðlægri staðsetningu og þjóðernislegum einkennum. Fyrri verkefni sem tengdust þessu verkefni væru samkvæmt áhorfsmælingum meðal vinsælustu grínþátta sem framleiddir hefðu verið á síðustu árum og því mætti færa rök fyrir því að þeir, þar á meðal umrætt verkefni, væru mikilvægur hluti af íslenskri grínmenningu. Þættirnir endurspegluðu menningarlega fjölbreytni með þeim formerkjum að um skemmtiefni væri að ræða sem næði til breiðari hóps heldur en fræðsluefni geri. Njóti þættirnir þannig mikilla vinsælda, sér í lagi meðal ungs fólks, sem alla jafna horfi minna á íslenskt sjónvarpsefni en eldra fólk.

Engin umsögn

Nefndin sendi ekki frá sér formlega umsögn um kæruna en sendi nokkra punkta í tölvupósti til ráðuneytisins um að í umsókn um endurgreiðslu hafi ekki verið útskýrt á fullnægjandi hátt hvernig þættirnir uppfylltu ákvæði reglugerðarinnar um menningarlegt gildi að fullu. Það ætti ekki að gilda eitt og sér að þættirnir væru með íslensku tali enda hefði það verið metið samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar um framleiðsluhluta þeirra verkefna sem sótt er um endurgreiðslu fyrir.

Í niðurstöðu menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðuneytisins segir að þegar aðstandendum þáttanna var tilkynnt um þá niðurstöðu nefndarinnar að ekki hefði verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að þættirnir uppfylltu nægilega ákvæði reglugerðarinnar um menningarlegt gildi hafi ekki komið fram að það myndi hafa þær afleiðingar að umsókninni yrði hafnað.

Óskað var eftir frekar leiðbeiningum en svar barst frá starfsmanni Kvikmyndastöðvar Íslands, sem aðstoðar nefndina, en samkvæmt svarinu yrði „bara að rýna í það sem nefndin segir og reyna að rökstyðja betur af hverju verkefnið á að standast menningarprófið.“

Ráðuneytið segir þetta svar ekki vera í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og að starfsmaðurinn hafi heldur ekki upplýst nefndina um þessa beiðni um skýrari leiðbeiningar. Nefndin eða viðkomandi starfsmaður hafi vel getað leiðbeint aðstandendum þáttanna um hvað mætti betur fara í umsókninni. Óheppilegt verði að teljast að samskipti nefndarinnar við aðstandendur hafi verið með þessu hætti, sérstaklega þegar litið sé til þess að umræddur starfsmaður sé einnig framleiðandi og hafi verið aðalframleiðandi myndar sem sýnd var 2024 og hlaut endurgreiðslu framleiðslukostnaðar frá nefndinni. Ráðuneytið segir þó að endurgreiðsla einnar myndar hafi ekki áhrif á endurgreiðslu annarrar og umræddur starfsmaður hafi ekki haft sérstaka hagsmuni af úrlausn málsins.

Rök

Ráðuneytið segir að þótt aðilar eigi ekki rétt á, samkvæmt stjórnsýslulögum, að krefjast rökstuðnings þegar kemur að styrkjum á sviði lista og menningar þá hafi skort á að nefndin hafi vísað til gagna í svörum sínum. Nefndin hafi getað sýnt fram á hvernig þættirnir væru frábrugðnir þeim verkefnum sem aðstandendur þáttanna vísuðu til í sinni kæru. Svör nefndarinnar til ráðuneytisins í punktaformi hafi verið ófullnægjandi.

Ráðuneytið telur einnig að nefndin hafi átt að leiðbeina aðstandendum betur um hvers vegna umsóknin var metin með þessum hætti. Taka hafi átt fram hvort um listrænt mat væri að ræða eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um styrk. Hafi síðarnefnda ástæðan skipt mestu hafi nefndin átt að skýra það og gefa aðstandendum kost á að bregðast við.

Ráðuneytið gerir einnig athugasemd við að skort hafi á rökstuðning nefndarinnar þegar hún hafi fengið kæruna til umsagnar. Þegar mál séu komin í kærustig beri nefndinni að rökstyðja mat sitt. Nefndin hafi heldur ekki brugðist við því sjónarmiði aðstandenda að þættirnir uppfylltu ákvæði reglugerðarinnar um að söguþráður, handrit eða meginþema yrðu að beinast að viðfangsefnum líðandi stundar sem hafi vísun til menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála í íslensku eða evrópsku samfélagi. Óvanalegt sé að stjórnvald bregðist ekki við þeim atriðum sem kærandi setji fram í kæru með formlegum hætti og verði að telja það ófullnægjandi stjórnsýslu. Nefndin hafi heldur ekki virt andmælarétt í málinu og heldur ekki afhent ráðuneytinu öll tölvupóstsamskipti.

Er það því niðurstaða ráðuneytisins að svo miklir meinbugir hafi verið á meðferð málsins að fella verði synjun nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar úr gildi. Er því beint til nefndarinnar að taka málið upp aftur óski aðstendur þáttanna eftir því.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Flow kemur með hugleiðslu inn í fangelsin

Flow kemur með hugleiðslu inn í fangelsin
Fréttir
Í gær

NTÍ skammar sveitarfélög fyrir að skipuleggja hús á hættusvæðum – Tjón á nýlegum byggingum aukist

NTÍ skammar sveitarfélög fyrir að skipuleggja hús á hættusvæðum – Tjón á nýlegum byggingum aukist
Fréttir
Fyrir 2 dögum

MAST beitti bónda of mikilli hörku – Tók sig loksins á eftir langan tíma

MAST beitti bónda of mikilli hörku – Tók sig loksins á eftir langan tíma
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Furðar sig á því að geta fengið íslenskt vodka á lægra verði í Bandaríkjunum en í Fríhöfninni

Furðar sig á því að geta fengið íslenskt vodka á lægra verði í Bandaríkjunum en í Fríhöfninni