Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi hluta dagsekta sem Matvælastofnun (MAST) lagði á ónefndan bónda yfir sex mánaða tímabil. Meðal annars hafði velferð dýra á bæ bóndans verið ábótavant og stofnunin verið með hann undir sérstöku eftirliti í töluverðan tíma og átti málið, að sögn stofnunarinnar, sér áralangan aðdraganda. Gerði bóndinn loks fullnægjandi úrbætur en ráðuneytið segir að stofnunin hafi haldið álagningu dagsekta áfram eftir að bóndinn bætti ráð sitt, í samræmi við kröfur hennar.
Úrskurður ráðuneytisins féll síðastliðinn föstudag en var birtur nú í dag.
Í janúar síðastliðnum var bóndanum tilkynnt að til stæði að leggja dagsektir á hann til að knýja fram umbætur á dýravelferð með vísan til skýrslu úr eftirlitsheimsókn en í henni voru skráð 22 frávik þar af 21 alvarlegt. Bóndinn fékk tækifæri til andmæla en í kjölfar þeirra var honum tilkynnt um að 20.000 króna sektir yrðu lagðar á hann daglega og þar sem engar úrbætur voru gerðar fóru sektirnar í innheimtu. Bóndinn kærði í kjölfarið álagningu dagsektanna til ráðuneytisins. Stofnunin svipti bóndann einnig tímabundið leyfi til framleiðslu á mjólk en kæra hans vegna þeirrar ákvörðunar er enn til meðferðar hjá matvælaráðuneytinu.
Í úrskurðinum kemur fram að samkvæmt Matvælastofnun hafi álagning dagsekta átt sér margra ára aðdraganda og hafi þurft að hafa ítrekað eftirlit með búrekstri bóndans vegna brota á lögum og reglugerðum um velferð dýra. Áframhaldandi eftirlit hafi átt sér stað af hálfu Matvælastofnunar til þess að framfylgja kröfum um úrbætur, í kjölfar álagningar dagsektanna. Þann 8. júní síðastliðinn hafi bóndanum verið tilkynnt að ákveðið hefði verið að lækka dagsektir niður í 10.000 krónur vegna þeirra úrbóta sem gerðar hefðu verið. Innheimtu dagsekta hafi síðan verið alfarið hætt þann 22. júlí í kjölfar eftirlitsheimsóknar sem sýnt hafi fram á fullnægjandi úrbætur.
Í kæru bóndans var því haldið fram að Matvælastofnun hefði ekki fullnægt lögbundinni rannsóknarskyldu sinni í málinu auk þess sem skort hafi á fullnægjandi rökstuðning og með álagningu dagsekta hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Vildi bóndinn meina að skoðunarskýrslur Matvælastofnunar væru ófullnægjandi og tiltækju engin dæmi um hvaða aðfinnslur væru gerðar af hálfu stofnunarinnar. Andmælti hann einstaka frávikum ýmist sem röngum eða tók fram að úrbætur hefðu átt sér stað. Vísaði hann meðal annars til álits dýralæknis, þar sem fullyrðingum Matvælastofnunar um ástand nautgripa og sauðfjár var andmælt.
Matvælastofnun sagði í sínum andsvörum við kæru bóndans að ákvörðun um dagsektir hafi verið byggðar á mjög ítarlegum skýrslum eftirlitsfólks og væri þar bæði um að ræða héraðsdýralækni, eftirlitsdýralækna og dýraeftirlitsmann. Vildi stofnunin meina að frekar mætti gagnrýna hana fyrir of mikla vægð gagnvart bóndanum. Þannig mætti halda því fram að stofnunin ætti fyrir löngu að vera búin að stöðva búskap hans þar sem getu, hæfni og ábyrgð skorti. Stofnunin hafnaði andmælum bóndans um réttmæti athugasemda í skoðunarskýrslum, með ítarlegum rökstuðningi. Sagði Matvælastofnun loks að ef bóndinn hefði farið eftir gildandi lögum og reglugerðum um matvæli og dýravelferð hefði aldrei komið til dagsekta eða sviptingar leyfis á framleiðslu og sölu mjólkur. Á þeirri stöðu hafi enginn annar borið ábyrgð en hann sjálfur.
Matvælaráðuneytið segir í sinni niðurstöðu að gögn málsins bendi til að ýmsu hafi verið ábótavant í búrekstri bóndans varðandi velferð nautgripa og sauðfjár og aðbúnaður þeirra hafi ekki verið í samræmi við lög og reglugerðir. Í eftirlitsheimsóknum Matvælastofnunar hafi verið skráð margvísleg og ítrekuð frávik, sem telja verði að hafi fullnægjandi stoð í fyrirliggjandi gögnum. Um sé að ræða athugasemdir um innréttingar, óþrifnað, slæman frágang, sem og almennt um aðbúnað, umhirðu og meðferð dýranna. Í ljósi þessa sé það mat ráðuneytisins að efnisleg skilyrði laga um dagsektir hafi verið uppfyllt þegar ákvörðun um álagningu þeirra var tekin 13. janúar síðastliðinn. Þar sem bóndanum hefði áður verið veittur frestur til úrbóta án þess að það skilaði viðunandi árangri telji ráðuneytið jafnframt að það hafi verið í samræmi við meðalhóf að grípa til dagsekta
Ráðuneytið segir að eftir að dagsektirnar voru lagðar á bóndann liggi fyrir fimm skoðunarskýrslur, sú fyrsta frá 3. febrúar 2025 og sú síðasta frá 8. júlí síðastliðnum. Hvað varðar fyrstu þrjár skýrslurnar tekur ráðuneytið undir það með Matvælastofnun að ekki hafi verið tilefni til þess að lækka eða fella niður dagsektir. Í kjölfar næstu eftirlitsheimsóknar stofnunarinnar, 23. apríl 2025, hafi hins vegar legið fyrir að andmæli bóndans hefðu verið tekin til greina varðandi stíur í mjólkurhúsi, ásamt því sem ákveðið hafi verið að bíða með úttekt á tilkynntum úrbótum vegna gólfs í fjárhúsi til næsta hausts. Í reynd hafi því aðeins eitt frávik frá reglum um dýravelferð staðið eftir, þ.e. um loftræstingu í mjólkurhúsi. Hið sama eigi við um síðustu skoðunarskýrslu málsins, frá 8. júlí 2025, en þá hafi í fyrsta skipti verið gerð athugasemd við fóðrun og brynningu mjólkurkúa. Þar sem Matvælastofnun hafi ekki áður gert athugasemdir við þessi atriði og þar með ekki veitt bóndanum tækifæri til úrbóta, sé það mat ráðuneytisins að frá og með 23. apríl hafi ekki verið grundvöllur fyrir áframhaldandi dagsektum.
Dagsektir frá 23. apríl og fram til 22. júlí, þegar Matvælastofnun felldi þær niður, eru því felldar úr gildi en dagsektir frá 13. janúar til 23. apríl standa óhaggaðar.