Orðið á götunni er að umræður um stefnuræðu forsætisráðherra eigi að vera einmitt það: Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Í gærkvöldi flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína í Alþingi en allur gangur var á því hvort fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem töluðu fyrir hönd sinna flokka, töluðu yfirleitt um þá stefnu sem forsætisráðherra kynnti.
Fyrst í ræðustól á eftir Kristrúnu Frostadóttur var Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins. Orðið á götunni er að hún hljóti að hafa verið að hlusta á einhverja allt aðra ræðu en forsætisráðherra flutti vegna þess að ræða Guðrúnar fjallaði alls ekki um stefnuræðu forsætisráðherra.
Guðrún kom í ræðustól og varði tíma sínum í að vara við hættum Evrópusambandsaðildar og reyna að færa rök fyrir því að þjóðin megi alls ekki fá að kjósa um það hvort aðildarviðræðunum, sem legið hafa í dvala um hríð, verði haldið áfram.
Orðið á götunni er að athyglisvert sé að Guðrún og fleiri stjórnarandstæðingar sem á er að skilja að vilji hvorki heyra né sjá til neins sem tengist Evrópusambandinu og saka ríkisstjórnina einatt um að vera að lauma ESB inn í umræðuna eða jafnvel ESB-aðild inn um „bakdyrnar“ í Brüssel eru einmitt í sífellu að troða ESB inn í umræðuna. Ríkisstjórnin er ekki að gera það heldur stjórnarandstaðan.
Orðið á götunni er að Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, hafi hitt naglann á höfuðið er hann benti á að ríkisstjórn sem hefur það í sínum stjórnarsáttmála að þjóðin fái að kjósa um áframhald aðildarviðræðna er ekki að laumast með eitt eða neitt. Hún er ekki að reyna að lauma Íslandi svo lítið beri á inn í Evrópusambandið. Hún er þvert á móti einmitt að gefa þjóðinni síðasta orðið á öllum stigum máls. Þjóðin fær að kjósa um framhald aðildarviðræðna og svo fær þjóðin vitaskuld að kjósa um það hvort hún vill ganga inn í ESB eða ekki.
Það er stjórnarandstaðan sem bersýnilega óttast það að þjóðin vegi og meti hlutina á upplýstan hátt og taki skynsamlegar ákvarðanir bæði hvað varðar framhald viðræðna og á endanum aðild. Stjórnarandstaðan berst gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar vegna þess að hún er í fylkingarbrjósti fyrir sérhagsmunaöfl sem óttast að forréttindastöðu þeirra hér á Íslandi stafi hætta af því að ísland gangi í ESB. Um það snýst málið.
Orðið á götunni er að það sé kaldhæðnislegt að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli nú kyrja þennan sérhagsmunahræðsluáróður hárri röddu. Guðrún Hafsteinsdóttir kallaði eitt sinn eftir því að aðildarviðræður yrðu kláraðar og þjóðin fengi að kjósa um aðild að ESB. Árið 2014 var hún formaður Samtaka iðnaðarins og sagði í viðtali við Frjálsa verslun að hún vildi klára aðildarviðræðurnar við ESB og sagðist treysta þjóðinni fyrir niðurstöðunni. Þetta var engin eins skiptis yfirlýsing frá henni. Í Viðskiptablaðinu sama ár kallar hún eftir því að þjóðin fái að kjósa um aðild að ESB. Á Alþingi í gærkvöldi kvað heldur vetur við annan tón hjá henni.
Orðið á götunni er að Guðrún, rétt eins og Bjarni Benediktsson á undan henni, hafi áttað sig á því að til að eiga möguleika á frama innan Sjálfstæðisflokksins þarf fólk að stilla sér upp með sérhagsmunaöflunum sem eiga flokkinn með húð og hári. Þeir sem halda sig við sannfæringu sína – eins og t.d. að hagsmunum Íslands og Íslendinga sé best borgið með fullri aðild að ESB – geti gleymt frama í flokknum, hvað þá að þeir geti látið sig dreyma um formennsku.
Orðið á götunni er að þarna sé mögulega komin skýringin á bágri stöðu flokksins nú um mundir. Flokkur sem gengur út á að fólk kasti frá sér hugsjónum sínum og sannfæringu til að verja gríðarlega ríka sérhagsmuni flokkseigenda og bannar aðra umræðu innan flokksins og í samfélaginu en þá sem fer fram á grundvelli sérhagsmunanna er flokkur sem á sér vart bjarta framtíð, ef þá nokkra.