Nýsjálensk móðir, sem er sökuð um að hafa myrt tvö börn sín og falið lík þeirra í ferðatöskum, er talin hafa gefið börnunum öflugt þunglyndislyf og sagt öðrum að hún vildi frekar að öll fjölskyldan dæi saman.
Hakyung Lee, 44 ára, er nú fyrir rétti í Auckland vegna dauða dóttur sinnar, Yuna Jo, átta ára, og sonar síns, Minu Jo, sex ára, árið 2018.
Saksóknari greindi kviðdómendum frá að eiturefnapróf hefðu leitt í ljós leifar af þunglyndislyfinu nortriptyline í brjóstholi og lifur beggja barnanna. Meinafræðingur komst að þeirri niðurstöðu að þau létust af „ótilgreindum orsökum“, en tíminn þar til líkin fundust hafi komið í veg fyrir nákvæma skammtagreiningu. Krufning sýndi engin merki um áverka, eins og beinbrot, á líkama þeirra.
Nortriptyline, þríhringlaga þunglyndislyf sem notað er við þunglyndi og taugaverkjum, getur valdið flogum, hættulegum hjartsláttartruflunum og hjartastoppi hjá börnum, jafnvel í tiltölulega lágum skömmtum, samkvæmt The Royal Children’s Hospital Melbourne.
Fékk Lee lyfseðil fyrir lyfinu í ágúst 2017, nokkrum mánuðum eftir að eiginmaður hennar greindist með krabbamein, eftir að hún sagði lækni að hún þjáðist af svima og ætti erfitt með svefn.
Lögmaður Lee segir hana hafa gefið börnunum lyfið áður en hún tók það inn sjálf. Hún hafi hins vegar misreiknað skammtinn, hún vaknaði, en börnin ekki.
Saksóknarar sögðu að andlegt ástand Lee hefði versnað eftir að eiginmaður hennar greindist og lést. Lee á að hafa sent eiginmanninum sms skilaboð: „Ef þú deyrð, þá dey ég ásamt börnunum okkar tveimur.“
Eftir andlát eiginmannsins fór Lee að eyða líftryggingu hans í utanlandsferðir og tók börnin með. Sagði hún vini sínum að hún óskaði þess að flugvélin myndi hrapa svo þau gætu öll dáið saman. Lee á einnig að hafa sagt vininum að hún hefði verið minna döpur ef börnin hennar hefðu dáið í stað eiginmannsins.
Móðir Lee hafði áhyggjur af henni og eyðslu hennar, hún mun hafa sagt við Lee að ef hún vildi deyja ætti hún að skilja börnin eftir hjá henni. Lee svaraði móður sinni að hún kynni ekki ensku, hvernig ætlaði hún að sjá um barnabörnin. Þetta var í síðasta sinn sem móðir Lee sá barnabörn sín. Mágur Lee og kona hans heimsóttu fjölskylduna í apríl 2018 og var það í síðasta sinn sem fjölskyldumeðlimir sáu börnin. Segir mágurinn að Lee hafi verið eðlileg í hegðun, húsið hreint og allt virst í lagi. Lee sagði þó að henni liði ekki vel og svilkona hennar hringdi eftir þetta reglulega til að kanna stöðu hennar, Lee hætti að svara henni um miðjan júní.
Þann 27. júní 2018 unnu aðgangarnir Princess Yuna og Hero Minu til verðlauna í Minecraft. Segir saksóknarinn atvikið mikilvægt og sönnun um síðustu athafnir barnanna áður en þau voru myrt.
Sama dag fór Lee og skilaði inn umsókn um nafnabreytingu sína í Hakyung Lee. Hún fór síðan í verslun og keypti pakka af stórum garðpokum, ruslatunnupokum, loftbóluplasti og límbandi. Daginn eftir fór hún í Safe Store og leigði geymslurými. Daginn eftir kom hún aftur þangað og skildi ferðatöskurnar eftir með líkum barnanna. Lee sótti síðan um bráðabirgðavegabréf og greiddi 4000 dali fyrir farmiða í viðskiptaflokki til Suður-Kóreu. Lítið er vitað um veru hennar þar, svo virðist sem hún hafi lifað af sparifé sínu. Hún hélt áfram að borga fyrir geymsluna þar til peningurinn þvarr.
Í júní 2022 fékk móðirin hennar símtal um að Lee væri á geðdeild á spítala í Seoul í Kóreu. Móðirin mætti þangað og spurði Lee hvar börnin væru. „Um hvað ertu að tala, ég á engin börn,“svaraði Lee. Andlegt ástand hennar batnaði við útskrift af spítalanum.
Á sama tíma án þess að Lee vissi höfðu lík barnanna fundist þegar fjölskylda á staðnum keypti innihald geymslueiningarinnar á netuppboði fyrir 401 dal og opnaði ferðatöskurnar og rannsókn var í fullum gangi í Auckland. Lee var síðar framseld frá Suður-Kóreu árið 2022. Í flugvélinni sagði hún lögreglumönnum að hún væri sökuð um eitthvað sem hún hefði ekki gert og hún vildi jarðarför fyrir börnin. Sagðist hún ítrekað hafa reynt að hafa eigið líf eftir andlát eiginmannsins og börn þeirra væru á stofnun.
Saksóknarar halda því fram að Lee hafi viðurkennt að hafa vafið líkum hvers barns inn í þrjú lög af plasti, innsiglað þau með límbandi og sett þau í aðskildar ferðatöskur sem hún flutti í geymslueininguna. Hún neitar sök í tveimur morðákærum og ber við geðveiki í vörn sinni. Lögmaður hennar hélt því fram í þessari viku að Lee hefði upplifað geðræna erfiðleika og talið að öll fjölskyldan ætti að deyja saman.
„Hún hefur drepið börnin sín, en hún er ekki sek um morð vegna geðrænna veikinda,“ sagði lögmaðurinn. „Hún vildi ekki skilja þau eftir til að horfast í augu við óhamingjusamt líf og foreldralausa framtíð og, í sundurleitu og brengluðu hugarástandi sínu, taldi hún að það væri best að þau öll dæju saman þegar hún myrti börnin sín, þannig var hennar hugarástandi,“ sagði lögmaður Lee við kviðdóminn.
Ákæruvaldið sagði að þótt það sem Lee gerði væri „óskiljanlegt“, þá væru skrefin sem hún tók klukkustundunum, dögum og vikum eftir að hafa myrt börnin sín gjörðir einhvers sem „ekki aðeins vissi hvað hann var að gera, heldur vissi líka að hann væri að gera það sem væri rangt“.
Myndin af Trade Me uppboðinu sýndi heimilismuni, þar á meðal þvottavél, rúm, borð, örbylgjuofn, reiðhjól og fjölmargar töskur af fötum allt hlutir sem þeir gætu selt eins og þeir höfðu gert áður, sagði Walker við dómnefndina.
„Meðal hlutanna voru tvær ferðatöskur, báðar vafðar í svart plast,“ sagði Natalie Walker saksóknari.
Kaupandinn Hongi Wihongi tók eftir óvenjulegri lykt sem kom frá báðum ferðatöskunum, „eins og af dauðri rottu“. Með hníf skar Wihongi í gegnum ysta lag plastsins, skar í gegnum ferðatöskuna sjálfa og uppgötvaði síðan annan svartan plastpoka bundinn með hnút. Hann skar í gegnum hann og fann annan plastpoka, aðeins til að finna annan.
„Þegar hann var að skera í gegnum þessi plastlög … varð lyktin sem hann fann enn sterkari,“ sagði Walker.
Þegar hann skar í gegnum síðasta plastlagið sá hann eitthvað „frekar hneykslanlegt og nokkuð óvænt“ klæddar líkamsleifar lítillar manneskju, liggjandi á hliðinni með beygð hné. Þetta barn var síðar auðkennt sem Minu Jo.
Hann hætti strax því sem hann var að gera og bað maka sinn að hringja í lögregluna. Fjöldi lögreglumanna og réttarmeinafræðingshópur kom á staðinn og ákveðið var að fjarlægja töskurnar tvær og fara með þær á líkhúsið á sjúkrahúsinu í Auckland. Hin ferðataskan var skorin upp og hafði henni verið pakkað eins, aftur fannst annað barn, Yuna Jo.
Dómarinn Geoffrey Venning sagði kviðdómendum að þeir gætu þurft að ákveða ekki aðeins hvort Lee hefði drepið börnin, heldur einnig hvort hún var fær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu.
Réttarhöldin eiga að standa í allt að fjórar vikur.