Rannsóknarstofan Sameind hefur kært ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, um leyfi til að innrétta húsnæði að Ármúla 34 fyrir starfsemi Konukots, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Rannsóknarstofan sem er staðsett í húsinu við hliðina, Ármúla 32, hefur raunar áður mótmælt áformunum en í kærunni kemur meðal annars fram að starfsemi Sameindar og Konukots geti á engan hátt farið fram í svo miklu návígi. Vill Sameind meina að aðstæður geti skapast á stöðum eins og Konukoti sem geti verið lífshættulegar fyrir suma sjúklinga sem koma á rannsóknarstofuna.
Miðað við heimasíðu Sameindar virðist stofan einkum annast töku blóðsýna og rannsóknir á þeim.
Byggingafulltrúi veitti í maí síðastliðnum byggingarleyfi til að innrétta húsnæðið fyrir Konukot, þar sem á að vera pláss fyrir 12 skjólstæðinga á 2. hæð og tímabundið búsetuúrræði fyrir 6 skjólstæðinga á þriðju hæð.
Í kæru Sameindar sem tekin var fyrir á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs segir að byggingarleyfið uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar þar sem starfsemi Konukots geti ekki fallið undir almenna gistingu eins og getið sé um í notkunarflokki 4, samkvæmt reglugerðinni. Starfsemin eigi frekar að falla undir notkunarflokk 5 þar sem Konukot sé félagslegt úrræði eða heilbrigðisþjónusta þar sem einstaklingar í mikilli neyslu dvelji. Skjólstæðingar Konukots geti því ekki með nokkru móti bjargað sér af sjálfsdáðum úr mannvirkinu ef til eldsvoða kemur.
Um þá hættu sem Sameind vill meina að geti stafað af skjólstæðingum Konukots fyrir sjúklinga sem komi á rannsóknarstofuna segir í kærunni:
„Mikið ónæði og sóðaskapur sem fylgir fyrirhugaðri starfsemi Konukots. Flest allar konurnar eru eiturlyfjaneytendur og eru þær hættulegar sínu nánasta umhverfi. Starfsemi Sameindar rannsóknarstofu er í um 10 metra fjarlægð frá inngangi að Ármúla 34 þar sem fyrirhugað er að starfsemi Konukots verði. Í athvarfi fyrir fíkniefnaneytendur hafa komið upp berklatilfelli á þessu ári og eru þessir einstaklingar tregir til að leita sér meðferðar og eru því oft smitandi. Til Sameindar koma ónæmisbældir sjúklingar að leita sér lækninga og getur það verið lífshættulegt fyrir þá að smitast af berklum. Búast má við því að skjólstæðingar Konukots muni leita inn í biðstofu og salerni Sameindar sem er óásættanlegt. Athvarf fyrir fíkniefnaneytendur og heilbrigðisstarfssemi fara á engan hátt saman.“
Þess er ekki getið í hvaða athvarfi þessi berklatilfelli komu upp.
Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar er ferill málsins rakinn. Upphaflega var afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi frestað og henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem samþykkti að senda erindið í grenndarkynningu. Sameind sendi inn mótmæli þar sem komu fram sömu athugasemdir og vísað er til í kærunni.
Skipulagsfulltrúi gaf hins vegar á endanum jákvæða umsögn um byggingarleyfið á grundvelli þess að Ármúli tilheyrði miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og á slíkum svæðum væri heimild fyrir úrræði eins og Konukoti. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti síðan erindið í apríl síðastliðnum með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Málinu var vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina um byggingarleyfi í maí síðastliðnum með skilyrði um nýja eignaskiptaryfirlýsingu þar sem um væri að ræða breytta skráningu á fjöleignarhúsi.
Borgin krefst frávísunar á kærunni þar sem ekki sé um að ræða kæranlega ákvörðun. Varakrafa er að kröfum Sameindar verði hafnað. Ranglega sé haldið fram í kærunni að athugasemdum Sameindar hafi ekki verið svarað. Athugasemd um brunaeftirlit hafi verið svarað og það sé rangt sem komi fram í kærunni að Ármúli 34 hafi verið ranglega flokkaður í notkunarflokki 4, samkvæmt byggingarreglugerð, í stað notkunarflokks 5 eins og réttara hefði verið. Í reglugerðinni standi meðal annars um notkunarflokk 4 að hann eigi við um húsnæði þar sem boðin sé tilfallandi gisting. Konukot sé einmitt dæmi um slíkt húsnæði og gert sé ráð fyrir að fólk sem gisti þar sé almennt fært um að bjarga sér sjálft út ef eldsvoði verði.
Þegar kemur að áðurnefndum röksemdum og viðvörunum Sameindar, um mögulegar afleiðingar þess fyrir starfsemi rannsóknarstofunnar að hafa Konukot við hliðina, segir í greinargerð borgarinnar að þar sem þær snúi ekki að útgáfu byggingarleyfisins verði ekki fjallað um þær.