Landsréttur hefur snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að Margréti Friðriksdóttur athafnakonu væri óheimilt um að leggja fram bréf, sem barst dómstólasýslunni árið 2018 í ærumeiðingarmáli, sem höfðað hefur verið á hendur Margréti, með ákæru embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, fyrir ummæli sem hún viðhafði í garð Barböru Björnsdóttur dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hafði Margrét kallað Barböru meðal annars lausláta mellu og sagðist byggja það á upplýsingum um að Barbara hefði átt í framhjáhaldi sem hefði meðal annars farið fram innan veggja dómhússins við Lækjartorg. Er því haldið fram að í umræddu bréfi sé vikið að meintu framhjáhaldi Barböru með manni sem kallaður hefur verið til sem vitni í málinu.
Landsréttur staðfesti hins vegar þann hluta útskurðarins sem snýr að því að Margréti er ekki heimilt að kalla til dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur sem vitni í málinu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um kröfu Margrétar var kveðinn upp í júní síðastliðnum en úrskurður Landsréttar var kveðinn upp 4.september en birtur nú í dag.
Margrét hafði uppi ummælin um Barböru eftir að hún dæmdi Margréti fyrir hótanir í garð Semu Erlu Serdaroglu en Landsréttur sneri síðar þeim dómi við.
Í úrskurði Landsréttar segir að bréfið sé óundirritað og hafi borist dómstólasýslunni í júní 2018.
Í úrskurði Landsréttar er vísað til fyrri úrskurðar í málinu og fram kemur að af málatilbúnaði Margrétar megi ráða að hún telji upplýsingar um meint ástarsamband brotaþola (Barböru, innsk. DV) og vitnis, sem er aðeins auðkennt með stafnum I, geti haft áhrif á það hvort tiltekinn hluti þeirra ummæla, sem ákært er fyrir, sé refsiverður. Þá er væntanlega verið að vísað í ummælin um lausláta mellu.
Landsréttur segir að í greinargerð Margrétar til héraðsdóms sé byggt á því að þegar hún lét ummælin frá sér hafi henni verið kunnugt um framhjáhald Barböru og að framhjáhaldið hafði átt sér stað í dómhúsinu, svo vakið hafði hneykslan annarra dómara. Telji Margrét að umrætt bréf varpi ljósi á þessar fullyrðingar hennar.
Landsréttur segir að eftir að hinn kærði úrskurður, Héraðsdóms Reykjavíkur, var kveðinn upp hafi verið staðfest af hálfu dómstólasýslunnar að umrætt bréf hafi borist þangað árið 2018. Í bréfinu sé vikið að eðli sambands Barböru og umrædds vitnis og verði því að telja óvarlegt, í ljósi varna Margrétar, að slá því föstu að bréfið sé bersýnilega tilgangslaust til sönnunar. Sjónarmið ákæruvaldsins um að bréfið sé nafnlaust og innihaldi að mestu orðróm um meint ástarsamband þeirra kunni að hafa þýðingu við sönnunarmat dómara, en leiði ekki til þess að synja Margréti um leyfi til leggja skjalið fram í málinu.
Margrét fær því að leggja fram bréfið um hið meinta framhjáhald í málarekstri ærumeiðingarmálsins, sem er ólokið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.