fbpx
Laugardagur 01.nóvember 2025
Pressan

Martin-hjónin og þrjár dætur þeirra hurfu sporlaust í jólagjafaleiðangri

Pressan
Mánudaginn 25. ágúst 2025 22:00

Martin-fjölskyldan.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 7. desember árið 1958 lögðu hjónin Kenneth og Barbara Martin af stað í fjölskyldubílnum ásamt þremur dætrum sínum til að versla jólagjafir. Fjölskyldan kom aldrei aftur heim og var engu líkara en að jörðin hefði gleypt hana.

Nú, tæpum 67 árum síðar, er vonast til þess að málið leysist eftir að mannabein fundust í bifreið í Columbia-ánni við ríkismörk Oregon og Washington.

Tvær dætur fundust

Ári eftir hvarfið fundust lík yngstu dætranna tveggja, Virginiu sem var 13 ára og Sue sem var 11 ára. Líkin fundust fljótandi í ánni en elsta dóttirin, hin fjórtán ára Barbara, og foreldrarnir fundust hins vegar ekki.

Í upprifjun Mail Online á málinu kemur fram að málið hafi vakið mikla athygli á sínum tíma og ótal tilgáttur verið settar fram um örlög fjölskyldunnar. Sumir telja að fjölskyldan hafi einfaldlega drukknað þegar Kenneth missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann endaði í ánni. Þá komu fram vísbendingar á sínum tíma um að ein dóttirin hið minnsta hafi verið skotin til bana.

Archer Mayo er áhugakafari og hann hefur árum saman helgað sig leitinni að svörum í þessu sorglega máli. Það var í fyrra sem hann fann fjölskyldubílinn, stóra station-bifreið, á töluverðu dýpi í ánni og hafði hann umsvifalaust samband við yfirvöld.

Lögreglan gerði árangurslausar tilraunir til að ná bílnum upp úr ánni, en varð að hætta eftir að bíllinn datt að hluta til í sundur. Aðstæður á vettvangi voru þar að auki metnar ótryggar og var aðgerðin talin of hættuleg til að hún borgaði sig.

Dularfull byssa og meint skotsár

Það var svo í sumar að Archer sneri aftur til leitar og notaði hann sérhæfðan búnað sem hreinsaði meðal annars burt leðju sem búin var að safnast fyrir inni í bílnum. Í leitinni fann hann mannabein en enn á eftir að staðfesta hvort um sé að ræða líkamsleifar af meðlimum Martin-fjölskyldunnar. Málið er enn til rannsóknar og opið, að sögn lögreglu.

Málið olli miklum heilabrotum á sínum tíma en það var ekki fyrr en tveimur dögum eftir hvarfið sem tilkynnt var um það. Þá höfðu hvorki Kenneth né Barbara skilað sér til vinnu.

Mánuði síðar fannst síðan byssa á víðavangi, skammt frá staðnum þar sem fjölskyldan sást síðast á, en hún er sögð hafa verið í eigu manns sem var kunnugur fjölskyldunni. Byssan var hins vegar ekki rannsökuð frekar.

Í maí 1959 fundust lík yngstu dætranna og í krufningarskýrslu var talað um mögulegt skotsár á höfði annarrar stúlkunnar, en ekki reyndist unnt að fullyrða hvort um skotsár væri að ræða eða eðlilegt rotnunarferli. Byssan og hið meinta skotsár hafa haldið lífi í þeirri kenningu að hvarf Martin-fjölskyldunnar hafi ekki verið slys heldur þaulskipulagður glæpur.

Elsti sonur hjónanna, Donald Martin, sem þá var 28 ára og bjó í New York, sagði síðar við lögreglu að hann teldi útilokað að dauði foreldra hans og systra væri slys. Lögreglumaðurinn Walter Graven í Multnomah-sýslu var einnig tortrygginn og rannsakaði málið árum saman. Enginn grunaður var þó nokkru sinni nafngreindur og engin morðrannsókn hófst formlega. Er vonast til þess að líkamsleifarnar sem Archer fann í sumar geti varpað frekara ljósi á hvað kom fyrir þennan örlagaríka dag.

Archer Mayo fann mannabein í bílnum í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump harðlega gagnrýndur fyrir framkvæmd og útfærslu viðhafnarsalarins – Rak nefndina sem átti að skila umsögn

Trump harðlega gagnrýndur fyrir framkvæmd og útfærslu viðhafnarsalarins – Rak nefndina sem átti að skila umsögn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út
Pressan
Fyrir 4 dögum

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt
Pressan
Fyrir 4 dögum

Kínverskir ríkisborgarar handteknir – Reyndu að kaupa úraníum í Evrópu

Kínverskir ríkisborgarar handteknir – Reyndu að kaupa úraníum í Evrópu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Stórleikarinn um stundina þegar hann áttaði sig á að hann þurfti hjálp – „Ég hefði getað drepið einhvern“

Stórleikarinn um stundina þegar hann áttaði sig á að hann þurfti hjálp – „Ég hefði getað drepið einhvern“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rússar kynna óhugnanlegt vopn – Kjarnorkuknúin eldflaug sem enginn getur stöðvað

Rússar kynna óhugnanlegt vopn – Kjarnorkuknúin eldflaug sem enginn getur stöðvað