Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru samtakanna Hollvinir Meðalfellsvatns vegna framkvæmda við vatnið. Samtökin segja framkvæmdirnar hafa staðið yfir í áratugi án nokkurra leyfa. Viðkomandi sveitarfélag, Kjósarhreppur, staðfestir að engin leyfi hafi verið fyrir framkvæmdum en verið sé að vinna í málinu og það sé á viðkvæmu stigi. Lóðarhafi lóðanna þar sem framkvæmdir hafa staðið yfir þvertekur hins vegar fyrir að engin leyfi hafi verið veitt fyrir framkvæmdum sem ráðist hafi verið í undir lok síðustu aldar og í upphafi þessarar aldar. Aðrar framkvæmdir á lóðunum hafi hins vegar staðið yfir nýlega en þær séu umfangsminni en af sé látið.
Umræddar framkvæmdir hafa staðið yfir á tveimur samliggjandi lóðum við vatnið en á báðum lóðum er sumarbústaður. Segir í úrskurði nefndarinnar að af gögnum málsins megi ráða að undanfarna áratugi hafi ýmsar framkvæmdir átt sér stað á þessum lóðum og að einhver samskipti hafi verið á milli þeirra einstaklinga sem undirrita kæruna, fyrir hönd samtakanna, og Kjósarhrepps.
Hollvinir Meðalfellsvatns segja í kæru sinni að framkvæmdir vegna landfyllingar út í Meðalfellsvatn hafi staðið yfir á umræddum lóðum síðustu áratugi. Síðastliðin tvö ár hafi framkvæmdir verið stórtækar og m.a. notaðar öflugar vinnuvélar til grjóthleðslu. Ítrekað hafi verið haft samband við Kjósarhrepp vegna þessa, en framkvæmdir aldrei verið stöðvaðar.
Hollvinirnir segjast óttast fordæmisgildi óleyfisframkvæmda og hvaða áhrif þær kunni að hafa. Ljóst sé að um brot á vatnalögum og öðrum lögum sé að ræða. Þá hafi viðeigandi umsagnaraðilar ekki verið inntir álits um framkvæmdirnar enda hafi aldrei verið sótt um framkvæmdaleyfi. Almenningur eigi að hafa óskertan aðgang að vatnsbakka Meðalfellsvatns, en óhjákvæmilega veigri fólk sér við að ganga inn á tyrfða lóð með flaggstöng, borði og stólum. Umhverfið á lóðunum hafi fælandi áhrif á almenning.
Í umsögn Kjósarhrepps um kæruna segir að framkvæmdir á lóðunum hafi ekki verið unnar á grundvelli framkvæmdaleyfis og að ekki hafi verið leitað nauðsynlegra umsagna áður en þær hafi hafist. Við mismunandi tilefni hafi starfsmenn sveitarfélagsins gert athugasemdir vegna framkvæmda á lóðunum, stöðvað þær og kallað eftir leyfisumsóknum. Þá hafi síðan í nóvember 2024 verið lagt hart að framkvæmdaraðila að sækja um framkvæmdaleyfi.
Hins vegar segir sveitarfélagið að ekki verði tekin afstaða til lögmætis framkvæmdanna eða mögulegrar samþykktar umsóknar fyrr en nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir og umsagnir hafi borist frá Umhverfis- og orkustofnun og Fiskistofu. Verði framkvæmdaleyfi ekki samþykkt eða talið verði að framkvæmd sé andstæð skipulagi og lögum muni sveitarfélagið íhuga að beita viðeigandi úrræðum samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki. Málið sé í eðlilegum farvegi, en sé viðkvæmt og því sé mikilvægt að taka öll skref af varfærni.
Það kemur ekki fram í lýsingu á umsögn Kjósarhrepps að þar hafi verið minnst á hvenær framkvæmdirnar byrjuðu fyrst.
Lóðarhafi beggja lóða fékk tækifæri til andsvara og í þeim koma nánari tímasetningar á upphafi framkæmdanna fram.
Lóðarhafinn segir að kæran snúist í grunninn um framkvæmdir sem gerðar hafi verið fyrir 23 og 33 árum. Þar af leiðandi hafi kæran ekkert erindi í dag, en allar teikningar og leyfi hafi verið samþykkt á þessum tíma þrátt fyrir fullyrðingar um annað í kærunni.
Þegar kemur að nýlegri framkvæmdum segir lóðarhafinn að ákveðið hefði verið að skipta um rotþró og til þess hafi þurft að nota jarðvinnuvél. Tyrfa hafi þurft upp á nýtt eftir jarðrask og bílastæði hafi verið löguð. Segir lóðarhafinn að það sé langt frá raunveruleikanum að kalla það stórtækar framkvæmdir á lóðunum. Þá hafi almenningur algjörlega óskertan aðgang við vatnsbakka Meðalfellsvatns fyrir framan sumarbústaðina.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir í sinni niðurstöðu að ljóst sé að framkvæmdir hafi staðið yfir með hléum yfir lengri tíma á umræddum lóðum og að hluti þeirra sem undirriti kæruna hafi verið í samskiptum við sveitarfélagið vegna þeirra. Í kærunni sé m.a. greint frá því að fundur hafi verið haldinn með sveitarstjóra, oddvita sveitarstjórnar og skipulagsyfirvöldum Kjósarhrepps.
Nefndin segir að þrátt fyrir þessi samskipti hafi ekki verið lögð fram nein formleg erindi í tilefni af hinum umdeildum framkvæmdum fyrir skipulags- eða byggingaryfirvöld sveitarfélagsins og hafi því ekki verið formlega afgreidd af þeirra hálfu. Liggi því ekki fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu og því geti nefndin ekki annað en vísað kærunni frá.