fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fókus

„Ég hef alltaf litið á þetta sem morð“

Fókus
Laugardaginn 23. ágúst 2025 08:30

Svanberg Hjelm hefur gengið í gegnum ýmislegt um ævina

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Texti: Svava Jónsdóttir

Svanberg Hjelm þekkir særindi og sorgir. Þegar hann var sex ára fórst faðir hans í sjóslysi. Hann var lagður í einelti alla skólagönguna og var feginn þegar skyldunni lauk og hann gat farið út á vinnumarkaðinn einungis „krakkaskratti“. Sautján ára lenti hann í alvarlegu bílslysi. Hann hefur eignast átta börn. Frumburðurinn er látinn. Það var Birgir sem ánetjaðist fíkniefnum og lenti í alvarlegu slysi þrítugur að aldri. Lífslíkur voru engar og var það faðir hans sem ákvað að slökkt yrði á öndunarvélinni. Það að fylgja syni sínum í gröfina tók mikinn toll og er Svanberg öryrki í dag meðal annars vegna þess. Hann vill að viðtalið verði hluti af forvörnum þegar kemur að fíkniefnum.

„Ég var lítill og óþekkur strákur sem ólst upp á Suðurnesjunum, í Keflavík nánar tiltekið.“ Svanberg Hjelm segir að hann hafi verið lagður í einelti alla skólagönguna eingöngu vegna þess að hann bjó í röngum hluta bæjarins. Hann bendir á að þá hafi ekki verið farið að tala um einelti heldur hafi verið talað um hrekkjalóma, hrekki og strákapör.

„Þar sem ég átti heima uppi á Bergi var litið á mig eins og ég væri gangandi sjúkdómur og að það mætti gera hvað sem er. Þetta mótaði mig rosalega og hafði gífurleg sálræn og neikvæð og vond áhrif á mig.“

Og sex ára drengurinn, sem lagður var í einelti, varð fyrir áfalli.

„Pabbi dó í sjóslysi þegar ég var sex ára og mamma var ein eftir það.“

Svanberg rifjar upp daginn þegar hann sex ára gamall varð föðurlaus 11. desember 1974. Þeir voru tveir á lítilli trillu, Hafrúnu BA10.

„Ég held það hafi ekki einu sinni verið vont veður. Ég hef aldrei vitað almennilega af hverju hún sökk.

Þetta er einn af skrýtnustu dögum í lífi mínu. Það var ekki lögreglumaður sem kom heim þennan dag heldur var það blaðamaður frá Morgunblaðinu sem spurði mömmu hvernig henni liði með það að trillan sem pabbi var á væri tilkynnt týnd. Mamma var ekki búin að frétta af þessu.“

Þögn.

„Þetta varð raunverulegt þegar lögreglan og presturinn komu. Óþægilegt. Það er kannski það sem ég man. Óþægilegt.

Presturinn sagði við mig: „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.“ Það eiginlega eyðilagði svolítið fyrir mér barnatrúna því að þá fór ég að hugsa um að það væri nú frekar eigingirni að taka í burtu ungt fólk frá sínum nánustu.“

Svanberg er beðinn um að lýsa hvernig sex ára gamall strákur upplifði sorgina.

„Þetta var mjög skrýtið. Ég veit ekki hvort ég upplifði þetta sem sorg.“

Hann hugsar sig um. Andvarpar.

„Kannski var þetta sorg. Kannski var þetta líka óvissa. Ég sá ekki mömmu heilu dagana af því að hún lá bara inni í rúmi grátandi. Ég man að eina skiptið sem mér leið ágætlega í skólanum var eftir þetta sjóslys en allir bekkjarfélagar mínir skrifuðu nöfnin sín í stóra, þykka og bláa Biblíu sem ég fékk að gjöf. Þetta var kannski einn dagur sem mér fannst ekki vera horft á mig eins og einhvern holdsveikan sjúkling af Berginu.“

Þögn.

„Þegar persóna hverfur úr lífi manns þegar maður er sex ára þá á maður ekkert rosalega margar minningar. Þetta eru meira glefsur. Allar minningar sem ég á í raun og veru um pabba eru minningar sem ég hef fengið að láni frá öðrum.

Pabbi dó rétt fyrir jól þannig að jólin fyrir mömmu voru ekki neitt. Jólin voru mjög skrýtin í mörg ár. Mamma var alltaf sorgmædd á jólunum og þetta setti sín spor í mann.“

Hafið tók. Og Svanberg Hjelm sem missti föður sinn í sjóslysi varð vatnshræddur.

„Það var ekki hægt að koma mér í sundlaug. Skólasund var vikulegt og það átti að kenna okkur að synda sama hvað og ég bara hékk í handriðinu logandi hræddur og ætlaði ekkert út í. Sundkennarinn grýtti mér út í sundlaugina og potaði í mig með priki til að ýta mér lengra út í því ég átti að læra að synda.“

Svanberg var hins vegar ekki hræddur við sjóinn sem slíkan. Hafið sjálft.

„Ég lék mér í fjörunni. Ég var óttalegur fjörulalli. Ég gerði ýmislegt sem blessunin hún mamma var ekki alveg sátt við. Ég fór oft frekar í hina áttina frekar en að fara inn í Keflavík.“ Drengurinn leitaði í náttúruna til að finna sálarfrið. „Ég gat dundað mér lengst úti á Bergi þar sem enginn fann mig. Á sumrin fór ég oft út að morgni til með nesti – brauðsneið eða epli – og kom fyrst heim í kvöldmat.“

Ég gekk aldrei óhultur

Aftur að eineltinu sem á þessum tíma var kallað hrekkir og strákapör.

„Það var yfirleitt setið einhvers staðar um mig. Ég gekk aldrei óhultur. Ég þurfti að læðast heim. Ég þurfti að fela mig. Ég þurfti að hlaupa fjöruna. Ég þurfti hreinlega að vera í felum því það þótti bara sjálfsagt að ef einhver krakki af Berginu væri gripinn í Keflavík þá væri allt í lagi að berja hann.

Skessuhellirinn var einn af felustöðunum mínum í gamla daga. Þá var þar engin tröllskessa. Þetta var bara lítill hellir þar sem hægt var að fela sig.

Ef ég komst óhultur í skólann þá endaði það þar og þá var ég tekinn fyrir í skólanum. Mér var grýtt í gólfið, mér haldið og einhver stakk mig í aðra rasskinnina með sirkli. Þetta er lítið dæmi.

Ef manni er sagt nógu oft að maður sé fífl og ljótur þá fer maður á endanum að trúa því. Ef manni er sagt að maður sé sjúkdómur í samfélaginu þá fer maður að trúa því.“

Svanberg fann fyrir kvíða út af þessu ofbeldi krakkanna. Nefnir aukinn hjartslátt. Svita. Hræðslu.

„Ég upplifði kvíða liggur við frá því ég vaknaði og þangað til ég sofnaði. Þegar tilfellin voru sem verst og maður vissi að eitthvað væri að fara að gerast þá fór maður að framkalla veikindi til þess að sleppa við að fara í skólann. Ég virtist stundum vera sárlasinn. Mamma lærði náttúrlega inn á mig og sá í gegnum mig en hún sá ekki það sem gerðist í kringum mig. Hún vissi um eineltið en þá var þetta bara kallað stríðni.

Ég var kominn með leið á að upplifa eineltið og ég held ég hafi verið átta ára þegar ég sagði við mömmu að ég væri frekar til í að drepast heldur en að fara í skólann. Og þá var ég orðinn vandamálið. Þetta var ein setning sem ég sagði í hita leiksins en það var nóg til að kveikja þá umræðu að ég væri með sjálfsvígshugsanir sem er náttúrlega algjörlega út í hött því ég var aldrei í þeim hugsunum. Þetta var bara eitthvað sem ég sagði; lítill snáði sem langaði ekki til að fara í skólann.“

Svanberg, sem var lagður í einelti, var sendur til sálfræðings. „Það var fenginn sálfræðingur alveg í hvelli til að leysa þetta. Ég man að mér fannst vera svo skrýtið hvað átti að bregðast rosalega hratt við þessu en það var aldrei brugðist við því þótt ég kæmi heim annaðhvort í rifnum fötum eða blóðugur. Það var allavega ekki tekið jafnhörðum tökum.“

Þannig liðu grunnskólaárin. Einelti. Vanlíðan. Kvíði. Lágt sjálfsmat út af öllu þessu.

„Þetta mótaði mann. Eins og ég sagði þá fór ég að trúa því sem sagt var við mig. Ég losnaði aldrei undan þessu. Ég gat aldrei flúið þetta. Þegar börnin mín hafa verið lögð í einelti hef ég alltaf farið að tala um hvernig þetta var þegar ég var yngri og var að alast upp. Ég vil að þetta verði stoppað áður en þetta versnar. Ég talaði af biturri reynslu. Skólakerfið brást á þessum tíma af því að það var ekkert hlustað á mig.“

Svanberg segir að enginn af gömlu skólafélögunum hafi nokkurn tímann beðið sig afsökunar.

„Ég hef aldrei farið á „reunion“ því ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við. Auðvitað hefur eitthvað af þessu haft áhrif á mig í lífinu. Ég var rosalega lengi kaldur og einhvern veginn tilfinningalaus.“

Og Svanberg var ánægður þegar síðasti skóladagurinn rann upp þegar skólaskyldunni lauk. Í skóla færi hann aldrei aftur.

„Ég leitaði aldrei á skólabekk aftur og hef alltaf hugsað til þess með hryllingi.“

Ungur út á vinnumarkaðinn

Fimmtán ára gamall fór Svanberg út á vinnumarkaðinn. Og á þessum tíma fór hann að drekka.

„Höldum við ekki öll að við verðum svo svakalega skemmtileg með áfengi? Ég hef komist að því að ég var það ekkert. Ég drakk of mikið, illa og of oft.“

Þetta var á þeim tíma þegar bresku hljómsveitirnar Duran Duran og Wham trylltu fólk á öllum aldri.

„Wake me up before you go-go“

Svanberg hefur alltaf átt erfitt með svefn og var það farið að hafa áhrif á þessum tíma. Eineltið skapaði hræðslu, ótta og kvíða og má tengja svefnleysið við þann djöful.

Fyrsta starf unglingsins – sem hafði sex ára gamall misst föður sinn í sjóslysi og fékk þess vegna gefins þykka, bláa Biblíu sem skólafélagar hans skrifuðu nöfnin sín í – var á sjónum. Hann varð háseti á bát.

„Ég byrjaði á sjónum í smátíma. Það lá eiginlega beinast við. Pabbi var sjómaður og það lá beint við að prófa þetta líka þegar ég var ungur. Svo var það bara hvað maður fékk að gera í raun og veru. Maður var bara krakkaskratti þegar maður var að fara út á vinnumarkaðinn. Þetta var notalegt. Það fylgdu þessu fríðindi en maður fékk að taka fisk með sér heim. Ég lærði að þetta var eitthvað sem ég þurfti að prófa og svo varð ég að prófa eitthvað annað. Ég fór að vinna í frystihúsum og í áhaldahúsinu hjá Njarðvíkurbæ og þar undi ég mér einstaklega vel. Ég var vélamaður og verkamaður hjá þeim og kom að byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ég vann þar með hópi pípulagningamanna og skreið um allt og hjálpaði.“

Þrjóskari en andskotinn

Svo breyttist lífið í desember árið 1985 þegar Svanberg var 17 ára gamall. Hann og fleiri voru í bíl. Þeir ætluðu að fara á ball í Hollywood og ætluðu fyrst að koma við í Hafnarfirði og sækja stelpur.

Hann talar um sædýrasafnið sem var í Hafnarfirði og veg þar rétt hjá. Hann ók þar á ofsahraða og endaði úti í hrauni.

„Það þykir vera mildi og kraftaverk að ég skuli vera lifandi. Það brotnuðu hálsliðir, og það hefur síðan þjáð mig og þjakað, og höfuðmeiðslin hrjá mig ennþá. Mér var tjáð að ég myndi aldrei aftur vinna erfiðisvinnu og ég myndi eiga í erfiðleikum með allt mögulegt í lífinu. Ég er steingeit og er þrjóskari en andskotinn,“ segir hann og kímir. „Það varð partur af lífinu að drattast með hausverk og aðra verki. Ég hef ekki verið verkjalaus síðan.“

Svanberg lærði ýmislegt af þessari reynslu.

„Ég lærði það að ég skyldi aldrei aftur keyra undir áhrifum. Ég man ekki eftir neinu fyrr en ég vaknaði á spítalanum.“

Hann var óvinnufær í tæpt ár og var með hálskraga fram á sumar. „Ég gat ekki baðað mig sjálfur og ekki gert neitt. Mamma hjálpaði mér.“

Hann sem sagðist vera þrjóskari en andskotinn ætlaði ekki að láta afleiðingar slyssins aftra sér í einu eða neinu. „Ef mér er sagt að ég geti ekki eitthvað þá þarf ég að fara í hina áttina. Ég er alltaf eins og lítill krakki. Ég verð alltaf að sýna að ég geti.

Bróðir minn og mágkona bjuggu í Stykkishólmi á þessum tíma og ég fór þangað um haustið og fór að vinna í frystihúsi; saltfiskverkun held ég að það hafi verið alveg örugglega. Samkvæmt lækni átti ég ekki að geta unnið neitt. Ég held ég hafi verið þar í eitt ár.

Ég hef lengi verið hálfgerður tækja- og bílakall og þegar ég kom suður lá beint við að taka meiraprófið. Ég fór á vinnuvélanámskeið,“ segir Svanberg, sem í gegnum tíðina hefur mest unnið sem flutningabílstóri og segist hafa keyrt flestar gerðir flutningabíla þar til hann varð öryrki, en á þessum tíma fór hann að vinna á lagernum í Hagkaup í Kringlunni sem var þá nýopnuð. Móðir Svanbergs var þá flutt til Reykjavíkur ásamt þáverandi sambýlismanni sínum og dóttur sinni. Og Svanberg bjó hjá þeim eftir að hann kom aftur suður.

Einelti og fíkniefni

Svanberg kynntist fyrrverandi eiginkonu sinni árið 1987. Frumburður þeirra, Birgir, fæddist í nóvember tveimur árum síðar. Svanberg var þá 21 árs. Þau eignuðust fimm börn áður en leiðir skildu árið 2001.

Birgir á góðri stundu

Hvernig var að verða faðir í fyrsta skipti?

„Tilfinningin var engu öðru lík. Ég get ekki sagt það öðruvísi. Það gerðist eitthvað innra með manni. Það er bara þannig. Það breyttist eitthvað.“

Þögn.

„Það var bara eitthvað gott. Það gerðist svo mikið þegar maður allt í einu fékk lítinn snáða í hendurnar.“

Svanberg segir að Birgir hafi verið með skollitað hár og ljósblá augu.

„Hann sýndi fljótt hvernig karakter hann var og að hann yrði með stórt og gott hjarta. Það sást eiginlega á fyrsta hálfa árinu hvernig hann yrði í raun og veru. Hann var einstaklega ljúfur og góður. Ég talaði oft um að hann væri með stærsta hjartað. Hann varð vinur vina sinna og verndari systkina sinna.“

Unga fjölskyldan flutti oft næstu árin og árið 1994 fluttu þau til Svíþjóðar þar sem þau bjuggu til ársins 2000 þegar þau fluttu aftur til Íslands. Móðir Svanbergs lést ári síðar.

Birgir var 12 ára þegar fjölskyldan flutti aftur til Íslands. Og það var farið að leggja hann í einelti bæði á og utan skólatíma. „Sá sem hafði sig mest í frammi sagði við Birgi að pabbi sinn væri lögga og ekkert yrði gert þótt hann gerði eitthvað af sér.“

Svanberg segir að ekkert hafi verið gert af hálfu skólans til að grípa inn í. „Það var sama hvað hann sagði eða hvað ég sagði. Það var aldrei hlustað neitt. Það átti aldrei að taka á vandamálunum. Það átti bara að sópa því undir teppið.“

Birgir breyttist.

„Það breyttist eitthvað í honum. Persónuleikinn breyttist.“

Svanberg þagnar. Hugsar sig um.

„Hann var ljúfur og góður en það gerðist eitthvað. Þegar börn og unglingar passa ekki inn á ákveðinn stað þá leita þau eitthvað annað og finna sér þá stað þar sem þau passa. Og það er ekki alltaf besti staðurinn.“

Þögn.

„Þetta tengdist því að sá sterkasti yrði að lifa af eða eitthvað svoleiðis. Þetta gekk svolítið mikið út á það að vera slæmi strákurinn og komast upp með það eða reyna að komast upp með það. Og í kringum fermingu komst Birgir í tæri við fíkniefni.

Hann kynntist mjög vafasömu fólki með vafasöm viðskipti í huga ef maður má orða það þannig. Hann sagði það alltaf sjálfur að þetta hefði bara verið hans flóttaleið og honum hefði allt í einu fundist hann tilheyra. Við þurfum alltaf að tilheyra einhvers staðar. Hann fann sig þarna. Hann fann hóp.“

Sökk andskoti djúpt

Svanberg segist hafa vitað að Birgr væri farinn að drekka bjór og vín.

„Maður hefði kannski átt að vera strangari. Ég veit það ekki. Þetta var á þeim tíma þegar við mamma hans vorum að skilja og hann varð líka reiður, ungur maður. Hann fór í kolöfuga átt en var samt sem áður alltaf strákurinn með stóra hjartað.“

Svanberg segir að Birgir hafi verið svolítið lunkinn við að fela neysluna til að byrja með. „Ég var aldrei viss í fyrstu hvort hann væri að nota. Ég kannski brást svolítið því ég leyfði honum að njóta vafans svolítið áður en ég gekk meira á hann.

Feðgarnir saman

Ég man eftir fyrsta skiptinu þegar ég gat virkilega séð að hann væri í neyslu. Hann var þá sennilega 16 ára. Ég spurði hann hvort þetta væri virkilega leiðin sem hann vildi fara. Hvort hann teldi þetta vera réttu leiðina því að þetta væri eiginlega bara leiðin niður á við. Hann var ekki alveg sammála mér en hann notaði akkúrat þetta; að þetta væri sinn hópur, þetta væri sitt fólk og þá tengdist það því að tilheyra.“

Þögn.

„Þetta gerðist eiginlega mjög hratt. Hann fjór í Fjölbraut á Akranesi en flosnaði upp úr skóla og fór í þetta umhverfi með svipuðum einstaklingum. Það tóku við tvö ár þar sem hann var alveg týndur.

Ég sagði alltaf við hann að þegar hann væri reiðubúinn þá væri ég til staðar og hann væri alltaf velkominn ef hann vildi gera eitthvað í sínum málum. Ég man þegar hann hringdi í mig og bað mig um hjálp. Hann sagðist vera búinn að fá pláss á Vogi en hann vildi ekki vera einn. Þá var hann bara 18 ára. Hann spurði hvort ég gæti verið með sér þangað til hann kæmist inn á Vog af því hann var hreinlega hræddur við sjálfan sig. Ég sat með honum í nokkra daga og horfði á hann í fráhvörfum og keyrði hann svo inn á Vog þegar dagurinn rann upp. Hann plumaði sig hvelvíti vel í langan tíma á eftir.“

Birgir hafði verið djúpt sokkinn. „Hann sökk bara andskoti djúpt. Hann sagði við mig eftir að hann varð edrú að hann sjálfur hefði verið kominn mikið dýpra en hann í raun og veru þyrði að viðurkenna. Þetta var ekkert leikur að einhverjum hassmolum. Þetta voru orðin miklu harðari efni. Þetta var miklu harðari heimur heldur en flestir þekkja í raun og veru.“

Birgir hafði búið í foreldrahúsum en 18 ára gamall leigði hann íbúð í Keflavík. Og eftir að hann varð edrú fór hann að vinna í flugvallarþjónstu. Svanberg kynntist núverandi konu sinni 2003 og fluttu þau árið 2007 til Innri-Njarðvíkur.

„Ég fór með honum á opna AA-fundi í Reykjavík á hverjum sunnudegi til þess að koma honum af stað og vera með honum. Svo fann hann sér félaga í Keflavík í AA-samtökunum þar og eignaðist marga góða vini þar. Og þarna virtist lífið snúast einhvern veginn. Allavega breytast. Hann fór allt í einu að verða eins og strákurinn sem við höfðum þekkt með stóra og mikla brosið og fallega og mikla hjartað og til í að gera allt fyrir alla. Og það var rosalega gott. Mér leið ekki alveg eins og ég væri misheppnað foreldri eins og ég hafði gert.“

Jakkafatafólk

Lífsstíllinn var ljótur. Birgir þurfti að rukka inn. „Það fylgir. Ég sagði við hann að öllum gjöfum fylgi gjald og gjaldið var annaðhvort að selja eða rukka inn. Hvað er betra en að nota unga, vitlausa krakka sem hljóta í raun og veru engan dóm fyrir það sem fullorðinn einstaklingur fengi nokkur ár fyrir? Það var slegið á fingurna. Þetta hefur ekkert breyst þannig séð. Þetta er ennþá svona. Ungir krakkar eru oft notaðir til að koma efnunum áfram. Það liggur við að það sé setið fyrir þeim. En þegar þetta fer að skipta hærri fjárhæðum þá eru nú oft harðsvíraðri dúddar settir í verkið.“

Hvað veit Svanberg um þennan heim?

„Birgir talaði um að hann hefði verið svo heppinn að kynnast einhverjum sem gaf honum einhver efni. Ég sagði alltaf að þetta væri engin gjöf því að þessu fylgdi gjald eins og ég sagði því hann þyrfti að gefa eitthvað fyrir þetta líka sem hann þurfti að gera. Það eru engar gjafir í þessu. Það er það sem er notað svolítið á ungt fólk sem fellur því miður fyrir þessu. Þetta eru mikið til fullorðnir einstaklingar sem nýta sér bágstadda unglinga. Það spyrst út hver, hvar og hvernig. Þetta gæti alveg eins verið næsti nágranni. Í gamla daga vissi maður alltaf hver reykti hass í Keflavík. Þetta er ekkert svoleiðis lengur. Núna er þetta orðið jakkafatafólk. Gaurinn sem er að útvega gengur ekkert um í rifinni skyrtu og skítugum gallabuxum.

Það er alltaf einhver fyrstur og það er hann sem er notaður sem hálfgert agn eða hann beitir fyrir hina. Hann veit um „betri félagsskap“ heldur en það sem er í boði. Þegar Birgir kynntist þessu þá kynntist hann strák sem var í félagsskap sem tók Birgi opnum örmum. Þetta er hnitmiðað. Þetta þarf ekki að vera strákur. Þetta getur líka verið stelpa. Þetta er bara píramídi. Sá sem er neðstur í píramídanum fiskar inn fyrir þá sem eru ofar.“

Vond tilfinning

Svanberg nefndi að hann hefði kannski átt að vera strangari.

„Maður var alltaf litinn hornauga ef maður reyndi að tala um þetta. Það var eins og það væri bannorð að tala um að ungt fólk ætti í raun og veru í svona miklum erfiðleikum. Þetta var svolítið eins og að stinga hausnum ofan í sandinn. Það var þannig tilfinning sem maður fékk og þetta átti einhvern veginn að leysast.

Þetta var bara þjóðfélagsleg andúð sem maður fann bara almennt. Það var eins og ég væri oft og tíðum að tala við sjálfan mig. Það hefði verið hlustað á mig ef ég hefði verið ljóshærður kvenmaður með blá augu og grenjandi. En ég átti bara að fixa hlutina. Ég átti bara að redda hlutunum sjálfur. Ég ætla ekkert að fórnarlambavæða sjálfan mig en það er miklu einfaldara fyrir konu að segja eitthvað heldur en karlmann því það er hlustað strax á konuna eða var gert. “

Svanberg leitaði meðal annars til barnaverndarfulltrúa og segir að hann hafi sagt: „Ertu ekki karlmaður? Getur þú ekki reddað þessu sjálfur?“

„Það tók mig smátíma til þess að fá barnaverndaryfirvöld til þess að sjá hvernig hlutirnir voru í raun og veru. Þetta var ekkert unnið á eini helgi. Það fóru mörg ár í þetta.“

Svanberg hafði trú á því að Birgir hafi eingöngu unnið heiðarlega vinnu eftir meðferðina 18 ára gamall. „Ég vildi alltaf horfa á það að hann væri að gera þetta löglega en ég veit það ekki. Kannski stakk ég hausnum oft í sandinn. Þetta er mjög erfitt því við verðum að átta okkur á því að loksins þegar foreldri áttar sig á því hvert stefnir eða hefur stefnt þá líður því foreldri svolítið eins og því hafi mistekist svolítið í uppeldinu. Það er vond tilfinning.“

Vanmáttugur

Margir misstu eigur sínar í efnahagshruninu 2008, margir misstu vinnuna og álagið var mikið.

Svanberg, núverandi kona hans og börn þeirra fluttu til Noregs árið 2009.

„Það var ekkert fyrir okkur að hafa á Íslandi og ég vissi það alveg að ég með mína reynslu sem bílstjóri fengi örugglega eitthvað að gera í Noregi. Ég veðjaði bara á það og fór á undan fjölskyldunni haustið 2009. Þá var Birgir ennþá að vinna hjá flugvallarþjónustunni og átti kærustu og allt leit vel út. Ég kom heim um jólin og þá var ég kominn með vinnu í Noregi og búinn að redda húsnæði. Öll fjölskyldan flutti út í mars 2010,“ segir Svanberg en þrjú börn hans af fyrra hjónabandi fluttu líka út.

Birgir var edrú. Hann heimsótti fjölskylduna í Noregi sumarið 2010 og flutti svo til Noregs í desember. Svanberg segir að hann hafi þá verið hættur í vinnunni og hættur með kærustunni og hafa viljað skipta um umhverfi. „Mér fannst það vera í lagi. Við vorum með húsnæði til að taka við honum og hann var að pluma sig. Hann fékk vinnu og eignaðist kærustu og eignuðust þau son árið 2013.

Svo bönkuðu gamlir vanar upp á. Ef fólk er ekki á varðbergi gerist eitthvað. Hann kolféll og náði botni mjög hratt. Miklu hraðar heldur en þegar hann var ungur og óreyndur og hlutirnir urðu mjög slæmir mjög hratt.

Noregur er svolítið eins og Ísland; ef það er verið að tala um svona vandamál þá er kannski oft þægilegra að reyna að sópa því undir teppið. Hann fékk enga aðstoð en hann reyndi ítrekað. Ef fólk ætlar í meðferð í Noregi þá þarf það að borga hana sjálft.“

Birgir varð heimilislaus, en slitnað hafði upp úr sambandi hans og barnsmóður hans, og allt varð miklu verra en það hafði verið.

„Hann var stjúppabbi um tíma þannig að það voru tveir strákar í Noregi sem voru alveg til í að sjá hann í betra ástandi en á meðan hann var í þessu þá var það alveg vonlaust.

Það var alveg sama við hvern var talað. Hann kom alltaf að lokuðum dyrum. Það var meira fjallað um dauða ketti og veika hunda heldur en aðstæður sem fólk eins og hann var í. Hann var lokaður úti og það var enginn sem barði á trommur eða potta fyrir hann. Og það var rosalega erfitt að vera foreldri á erlendri grund og geta ekki gert neitt.

Birgir vissi alveg að hann væri að gera rangt og viðurkenndi oft að sér liði illa og hann vildi óska þess að hann fengi aðstoð en hann sagði oft að hann kæmi að lokuðum dyrum og honum væri nánast úthýst af því að hann talaði íslensku. Þetta voru hans orð og hann var náttúrlega undir áhrifum vímuefna þegar hann var að tala en ég veit alveg miðað við mína reynslu að þá voru þetta ekki innantóm orð.

Ég varð alveg vanmáttugur. Ég gat ekkert gert og það var ekkert hlustað á mig. Ég gat ekki talað hans máli því drengurinn var orðinn fullorðinn og átti að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Þjóðfélagið þarf svolítið að breytast,“ segir Svanberg og á líka við það íslenska. „Ég ætla ekkert að lasta fólk sem hefur háð styrjaldir eða verið í vondum málum og flyst til dæmis til Norðurlandanna en af hverju vill enginn horfa á fíkniefnaneytandann eða áfengissjúklinginn sem hefur háð innri baráttu við sjálfan sig, við sína djöfla, og háð stríð inni í sjálfum sér? Það vill enginn hlusta á það fólk. Ef við viljum hjálpa fólki, af hverju hjálpum við þá ekki fólki alla leið? Af hverju hjálpum við ekki fólki sem ráfar um götur Reykjavíkur og sem er hvergi velkomið og sem á hvergi heima og fær hvergi inni? Af hverju þurfti ég að heyra frá fólki að sonur minn hafi kúldrast inni í einhverri kaldri skemmu eða verið rekinn út úr líkamsræktarstöð sem var opin allan sólarhringinn af því að hann sótti í hlýjuna? Af hverju gat ég ekki fengið fréttir um að það hafi verið hægt að gera eitthvað?“

Þögn.

„Ég fékk aldrei svoleiðis fréttir. Ég fékk bara fréttir af því að hann hafi verið einhvers staðar á vergangi og það var enginn sem vildi gera neitt.“

Birgir komst í kast við lögin í Noregi og segir Svanberg að hann hafi haldið að hann gæti byrjað betra líf á Íslandi. Hafði hann ekkert komist í kast við lögin á Íslandi áður en hann flutti út? „Það voru eflaust einhver lögreglumál í gangi. Eitthvað sem ég vissi ekki um. En ég vissi ekki heldur allt saman.

Birgir ásamt syni sínum

Norðmenn horfa svolítið öðruvísi á hlutina. Þeir eru ekkert hræddir við að vísa fólki úr landi ef það er búið að gera of mikið af sér. Þá skiptir engu máli þó viðkomandi sé frá hinum Norðurlöndunum. Það stóð til vegna fíknilagabrota að senda hann úr landi.“

Birgir flutti heim haustið 2018 og segir faðir hans að hann hafi eiginlega verið á götunni frá fyrsta degi en hann fékk fyrst inni hjá ættingja sem hafði síðan ekki bolmagn eða getu til að aðstoða hann í því ástandi sem hann var í.

„Hann var snöggur að finna þann félagsskap sem hann þekkti svo vel áður. Hann væflaðist bara um. Hann svaf hér og þar og alls staðar og þar sem hann fékk inni hverju sinni. Og hann vann það sem var í boði í kringum þetta hvort sem það var handrukkun eða innheimta á einhverjum dópskuldum.“

Ekki hugað líf

Birgir var þrítugur farþegi í bíl í Kópavogi. Faðir hans segir að hann hafi setið hægra megin aftur í en annars hafi í bílnum verið „erlendir drengir“ sem hafi verið góðkunningjar lögreglunnar. „Þeir voru í ofsaakstri niður rampinn frá Kópavogi og niður á Reykjanesbraut í átt til Keflavíkur. Þar lentu þeir í árekstri; bílstjórinn lenti í árekstri við bíl sem fór á annan bíl. Bíllinn sem þeir voru í klippti niður ljósastaur sem fór inn í bílinn þeim megin sem Birgir sat og lenti hálfpartinn í fanginu á honum. Hann var undir áhrifum og vissi aldrei hvað gerðist.“

Þögn.

„Það var hringt í mig frá Íslandi og ég var spurður hvort ég væri faðir Birgis. Ég sagði svo vera. Sú sem hringdi sagðist vera að hringja frá gjörgæslu Landspítalans.“ Svanberg var tjáð að Birgir hefði lent í bílslysi og væri ekki hugað líf og að litlar líkur væru á að hann myndi lifa af næsta sólarhring. „Ég man að ég sagði við konuna að hún þekkti ekki son minn, hann myndi lifa næsta sólarhringinn og drægi andann þegar ég kæmi daginn eftir. Öndunarvél hélt honum gangandi. Það var svo illa brotið á honum höfuðið að hann varð heiladauður eiginlega strax.

Þarna eiginlega blokkaðist allt saman. Ég man voðalega lítið hvað gerðist eftir þetta. Ég var að keyra flutningabíl og var á leiðinni suður til Kristiansand frá Stavangri og sneri við og reddaði öðrum bílstjóra til að leysa mig af. Á um níutíu mínútum, einum og hálfum tíma, var ég búinn að hringja í systkini Birgis, bróður minn, sem býr í Svíþjóð, systur mína og konuna mína og við vorum búin að panta flugfar til Íslands daginn eftir. Vegna Covid-heimsfaraldursins var ekkert hlaupið að þessu.“

Sólarhring eftir símtalið gekk Svanberg inn á sjúkrastofu sonar síns sem lá þar í öndunarvél. „Það var sagt að hann hafi verið undir áhrifum og hefðu fundist efni í fötunum hans. Ég þakkaði eiginlega fyrir að svo hafði verið og að hann vissi aldrei hvað gerðist eins og ég sagði.“

Þögn.

„Það er kannski ljótt að hugsa svoleiðis en hans vegna varð ég mjög feginn.“

Svanberg talar um skrýtna atburðarás í kringum slysið. „Tveir aðrir höfðu verið í bílnum með honum. Annar þeirra slasaðist líka og reyndi að stinga af frá vettvangi en lögreglan fylgdi blóðslóð og fann hann. Bílstjórinn slapp furðulega vel. Ég hef aldrei fengið að vita hvað gerðist hvað þá varðar. Ég hef reynt að sækja eftir upplýsingum um hvort bílstjórinn hafi verið sóttur til saka eða dæmdur. Ég hef aldrei fengið svör. Ég hef skilið eftir skilaboð. Ég hef hringt í lögregluna.“

Þögn.

„Það hafði verið búið að svipta þennan bílstjóra svo oft ökuskírteininu að hann hefði aldrei átt að keyra bíl. Kerfið bregst,“ segir Svanberg sem hefur oft hugsað „hvað ef?“. „Í langan tíma kenndi ég sjálfum mér um. Hvað ef ég hefði verið harðari á sínum tíma og gengið harðar á Birgi til þess að fá hann til að hætta í neyslu? Allir sem þekktu hann vissu það alveg að þeim mun harðar sem maður gekk á hann þeim mun þrjóskari varð hann. Hann var bara eins og ég; það þýddi ekkert að fara í einhverja svoleiðis leiki við hann. Það hefði bara öfug áhrif.“

Reiður

Ungur, deyjandi maður í rúminu og meðlimir úr fjölskyldunni komu víða að til að kveðja hann. „Það þurfti að smala saman öllu liðinu. Það komu allir til þess að kveðja Birgi.“

Fimm dögum eftir slysið sat Svanberg og stjúpmóðir hjá læknum og var ákveðið að slökkt yrði á öndunarvélinni.

„Við Birgir höfðum rætt um þessi málefni. Við vorum rosalega fjálglegir þegar við töluðum saman. Konan mín hefur talað um að það hafi ekki verið til neitt sem hét „filter“ á okkur þegar við vorum að ræða saman. Við sögðum bara hlutina eins og þeir voru. Við höfðum talað um að ef einhvern tímann kæmi upp sú staða þá ætluðum við aldrei að enda sem grænmeti í rúminu.“

Þögn.

„Þannig að þennan dag sagði ég að Birgir hefði aldrei viljað enda svona. Það yrði bara slökkt á þessu. Það var mín ósk. Þá voru líka allir búnir að koma og kveðja hann nema náttúrlega yngstu systkini í Noregi. Ég vildi ekki leggja það á þau.“

Það tekur á að tala um þetta og Svanberg kemst við.

„Svo var slökkt á öndunarvélinni fyrir hádegi. Það var svolítið kraftaverk að Birgir hélt áfram að anda í töluverðan tíma eftir það. Það var eins og hann neitaði að gefast upp.“

Hann dró svo síðasta andardráttinn um miðjan dag.

Blessuð sé minning hans.

„Ég er titrandi. Ég er reiður. Ég er svekktur. Það er vont að vita af því að fólk fær að halda áfram. Fólk kemst bókstaflega upp með morð. Ég hef alltaf litið á þetta sem morð. Því að þegar einstaklingur er svona óábyrgur og annar lætur lífið vegna þess þá er viðkomandi búinn að fremja morð. Hann á ekki undir neinum kringumstæðum að geta gengið í burtu frá því. Eins og ég sagði þá hefur mér ekki verið svarað þegar ég hef hringt eða skilið eftir skilaboð hjá lögreglunni og rannsóknarlögreglunni. Þannig að ég veit ekkert. Mig langar bara að hugsa að karma hafi kannski náð í rassgatið á honum. Maður verður pínu uppgefinn þegar maður kemur að lokuðum dyrum. Þetta er ekkert einsdæmi. Maður hefur lesið um mörg önnur dæmi þar sem fólk fær verðlaunadóma fyrir að svipta annað fólk lífi. Það fær liggur við slátt á puttann og fær næstum því að njóta lífsins. Á meðan situr eftir fjölskylda með sárt ennið af því að kerfið er of hrætt við að takast á við þetta og standa á sínu.“

Vegna fjöldatakmarkana vegna Covid var ekki hægt að hafa jarðarför fljótlega eins og venjan er og segir Svanberg að fjölskyldumeðlimirnir sem búa í Noregi hafi verið fastir á Íslandi í fjórar vikur. Og biðin og það að komast ekki heim gerði að sögn Svanbergs allt erfiðara.

„Eins og ég sagði vorum við Birgir filterslausir þegar við töluðum saman og við vorum báðir á því að við ætluðum ekki að verða ormafæða í jörðinni. Við vildum láta brenna okkur.“

Svanberg dreymir stundum Birgi og hann dreymdi hann oft áður en hann var jarðsettur. „Það er mjög skrýtið en þá dreymdi mig hann alltaf þannig að hann væri að kvarta yfir kulda. Ég er að tala um strák sem gat eins og ég verið í stuttermabol þó það væri 17 stiga frost. Hann var alltaf að tala um kulda við mig í draumunum.“

Fjölskyldan komst til Noregs og fimm mánuðum eftir að Birgir lést var hægt að brenna hann og var duftkeri með öskunni komið fyrir.

„Þessir draumar hættu eftir að hann fékk samastað. Mig hefur síðan stundum dreymt að við séum að tala saman í síma og hann sé að segja að hann eigi eftir að redda hlutunum, eins og hann sagði stundum, og sé að fara að koma heim. Ég held að afsökun hans fyrir því að eiga fyrst eftir að redda hlutunum tengist því að hann hafi ekki verið reiðubúinn að gera það sem var rétt.“

Lenti á vegg

Svanberg er öryrki í dag. Hann segist hafa lent á vegg eftir að Birgir lést.

„Ég var fyrst um sinn mjög dofinn og svolítið týndur. Ég varð hins vegar rosalega reiður þegar fór að rofa til í höfðinu á mér. Ég fór að leita svo mikið að sökudólgum og síðast en ekki síst skoðaði ég sjálfan mig mikið. Mér fannst ég vera svo mikill sökudólgur í þessu öllu saman. Það var þetta „hvað ef?“ og „af hverju?“. Ég hefði kannski ekki getað gert betur. Ég var svolítið að sökkva sjálfum mér í pitt.

Ég var reiður meðal annars vegna þess að mér fannst kerfið ekki gera neitt. Ef eitthvað hefði verið gert mörgum vikum eða mánuðum fyrir slysið þá væri Birgir kannski lifandi. Hann hefði kannski verið í einhverjum öðrum bíl í staðinn.

Að endingu sagði heimilislæknirinn minn bara „stopp“ og „hingað og ekki lengra“ og að það þyrfti að finna aðstoð fyrir mig þar sem ég væri á leiðinni á virkilega vondan stað. Mér var komið í samband við fagfólk í janúar 2021 til að hjálpa mér að díla við þetta vegna þess að ég var kominn í veikindaleyfi. Ég gat ekki unnið. Ég einhvern veginn hvarf. Einhvern tímann hafði ég verið kominn niður í bæ og ég vissi ekki hvernig ég komst þangað. Einu sinni var ég í vinnuferð og mundi ekki eftir að hafa keyrt um 600 kílómetra. Ég mundi það ekki,“ segir Svanberg með áherslu.

Þögn.

„Ég var alveg týndur. Ég var eiginlega orðinn svolítið hættulegur bæði sjálfum mér og umhverfinu því að ég var svo sokkinn í einmitt „hvað ef?“ og „af hverju?“ og „heitasta helvíti“ og allt þetta. En svo komst ég einmitt í samband við fagfólk svo sem sálfræðing og fólk sem hefur unnið með fólki í sorg og síðustu ár hafa farið svolítið í að vinna þetta upp aftur. Vinna mig út úr þessu. Það endaði með því að allir þessir undirliggjandi sjúkdómar sem ég hef haft í gegnum tíðina hafa vegna slysa, streitu og álags ágerst svo rosalega að læknirinn sagði að það eina sem hægt væri að gera fyrir mig væri viðhaldsvinna. Nú væri líkaminn bara búinn að segja „stopp“.

Mér fannst vera skrýtið hvernig hann orðaði þetta en ég skil í dag hvað hann meinti. Liðagigt, slitgigt og vefjagigt varð miklu verra undir álagi. Ég hætti á þessu tímabili nánast að sofa og svefninn var ekki mikill fyrir. Læknirinn eiginlega sagði að ég væri á leiðinni í glötun og það yrði að bjarga mér. Og það tókst.“

Svanberg er 100% öryrki og segist eins og fyrr segir vera að stunda viðhaldsvinnu á líkamamum.

„Ég endaði í hjartaaðgerð haustið 2022 og öllum andskotanum þarna í millitíðinni. Ég var búinn að ganga um með stíflað hjarta í örugglega einhver ár áður en það uppgötvaðist. Ég ætla ekkert að segja að ég sé í dag á einhverjum „happy place“. Ég verð oft mjög sorgmæddur en við erum mörg í heimili og ég reyni oft að hugsa um að Birgir hefði aldrei viljað að maður myndi sökkva sér í einhvern aumingjaskap. Og það að láta vorkenna sér var það versta sem hann vissi um. Ég heyri stundum í höfðinu á mér: „Hættu þessu helvítis rugli.“ Hann kímir. „Það er erfitt að útskýra þetta.“

Drykkjan, dauðinn og lífið

Svanberg sagði að hann hafi drukkið of mikið og of oft. Hann hefur ekki drukkið í um átta ár.

„Núna get ég ekki drukkið áfengi. Ég man svo vel eftir síðasta fylleríinu mínu en ég vaknaði morguninn eftir skelþunnur. Ég segi oft að ég hélt ég hefði vaknaði dauður. Ég var veikur í marga daga á eftir og hef varla snert dropa síðan. Áfengi var alltaf vandamál. Í þau skipti sem ég drakk, drakk ég of mikið og illa og varð óttalegur ólátabelgur. Ég segi oft við börnin mín þegar þau eru að fara út að skemmta sér að hafa í huga að það er meiri skemmtun að vera sá sem segir söguna heldur en að verða sagan.“

Hvað er dauðinn í huga Svanbergs?

„Hann er bara endalok. Ég er búinn að missa foreldra mína og son minn – og búinn að jarða móður mína og son. Dauðinn er það eina sem við getum ekki flúið. Það er hægt að flýja ýmislegt í lífinu en maður flýr ekki dauðann. Hann kemur. Hann getur komið þegar fólk á síst von á eins og hann gerði í tilfelli Birgis.“ Og föður hans líka. „Það er öðruvísi tilfinning að fylgja móður eða föður í gröfina heldur en að fylgja syni í gröfina af því að foreldrar eiga ekki að grafa börnin sín.

Það gerðist eitthvað innra með mér. Eitthvað rangt. Allt sem hefur hrjáð mig í gegnum tíðina má segja að hafi sjöfaldast eftir að Birgir dó. Það varð allt miklu verra.“

Lífið heldur áfram.

„Þetta fjallar allt um val. Á endanum fjallar þetta allt um val. Ég get alveg valið um það að halda áfram að vera reiður, bitur, sár og súr en ég vel eiginlega frekar að við höldum áfram að lifa. Ég veit að Birgir hefði viljað það. Birgir hefði aldrei viljað einhverja vorkunn eins og ég sagði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Það sem Brynjar hélt að væru bilaðar lagnir var í raun listaverk í miðbænum

Það sem Brynjar hélt að væru bilaðar lagnir var í raun listaverk í miðbænum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Filippus prins lét þessi beittu orð falla eftir brúðkaup Harry og Meghan

Filippus prins lét þessi beittu orð falla eftir brúðkaup Harry og Meghan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Léttist um tæp 60 kíló í Biggest Loser en það átti eftir að kosta hann mikið

Léttist um tæp 60 kíló í Biggest Loser en það átti eftir að kosta hann mikið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Að finna von í myrkrinu – Bergdís segir sína sögu

Að finna von í myrkrinu – Bergdís segir sína sögu