Ung móðir skaut eiginmann sinn og tvö ung börn þeirra til bana áður en hún beindi byssunni að sjálfri sér á heimili fjölskyldunnar í New Hampshire í Bandaríkjunum. Aðeins nokkrum dögum áður hafði móðirin deilt myndbandi á TikTok þar sem hún tjáði sig um andlegar áskoranir sínar.
Emily Long, 34 ára, fannst með með skotsár á höfði, og er hún sögð hafa myrt eiginmann sinn, Ryan Long, 48 ára, og tvö börn þeirra , Parker, átta ára, og Ryan, sex ára, snemma á mánudag, samkvæmt skrifstofu saksóknara New Hampshire.
Bæði börnin voru skotin í höfuðið, en faðirinn, sem glímdi við banvænt krabbamein, hlaut mörg skotsár, að sögn yfirlæknis ríkisins. Öll þrjú dauðsföllin voru úrskurðuð sem manndráp, en dauðsfall móðurinnar sem sjálfsvíg.
„Þetta var fullkomin fjölskylda eftir því sem við vissum,“ sagði nágranninn Bevy Ketel við WBZ-TV. „Þetta er bara skelfilegt. Við sáum þetta ekki fyrir.“
Lögreglan kom á heimilið á mánudagskvöld eftir að hafa fengið símtal frá neyðarlínunni þar sem tilkynnt var um mörg dauðsföll inni í snyrtilegu húsi fjölskyldunnar. Byssa fannst nálægt líkum þeirra, að sögn yfirvalda.
Þriggja ára gamalt barn hjónanna fannst lifandi og ómeitt inni í húsinu og er nú í umsjá fjölskyldumeðlima.
Rannsóknarlögreglumenn sögðust síðan hafa frétt af alvarlegum áhyggjum og viðvarandi vandamálum á þeim tíma sem manndrápin áttu sér stað, en útskýrðu það ekki nánar.
„Ein af stærstu spurningunum sem þeir spyrja núna að er orsökin, hvers vegna?“ sagði aðstoðarsaksóknari Ben Agati við WCAX. „Og ég held að það sé líklega eitt af því erfiðasta, að reyna að skilja hvernig þetta gerðist.“
Þótt ástæðan sé enn óljós, þá birti Emily, sem starfaði sem rekstrarstjóri hjá veitingahúsakeðjunni Wing-Itz, oft færslur á samfélagsmiðlum um erfiðleika sína og örvæntingu þegar hún tókst á við banvæna krabbameinsgreiningu eiginmanns síns.
Ryan, sem starfaði sem skólasálfræðingur við Oyster River miðskólann í Durham, greindist með heilaæxli, mjög árásargjarnt krabbamein í heila.
Í TikTok-færslu sem birt var aðeins tveimur dögum áður en harmleikurinn gerðist sagði Emily næstum 8.000 fylgjendum sínum að börnin hennar ættu í erfiðleikum og hún hefði sjálf verið mjög þunglynd þegar hún reyndi að endurheimta heilbrigðar venjur og eðlilegt líf á heimilinu á sama tíma og heilsu eiginmanns hennar hrakaði.
„Ég er staðráðin í að skapa eðlilegt líf. Ég hef átt í svo miklum erfiðleikum og verið mjög þunglynd og er orðin einangruð og vildi bara vera með börnunum mínum og eiginmanni mínum. Að því sögðu, þá er ég að gera breytingu og hún byrjar í dag. Og ég legg mig fram um að komast upp úr þunglyndinu og gera þetta fyrir fjölskyldu mína.“
Rannsókn á harmleiknum er enn í gangi.
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.