Ákvörðun um óbreytta stýrivexti var fyrirsjáanleg. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum fyrir átta mánuðum hefur verðbólga verið á niðurleið og stýrivextir einnig. Við stjórnarskiptin var kyrrstaða nokkur ára rofin. Vaxtalækkunarferli gæti haldið áfram fljótlega ef tekst að koma í veg fyrir sjálfvirkar hækkanir neysluvarnings hjá stórmörkuðum og olíufélögum sem halda verði uppi. Athygli verður beint að þessum mikilvægu aðilum.
Orðið á götunni er að Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi enn á ný hlaupið á sig þegar hún kenndi forsætisráðherra um að verðbólga hafi ekki lækkað áfram eins og fyrr á þessu ári. Þegar Kristrún tók við forystu í ríkisstjórn eftir að kjósendur höfnuðu þeirri ríkisstjórn sem Guðrún átti sæti í undir lokin lækkaði verðbólga og stýrivextir einnig. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur engar forsendur til að skrækja núna vegna þess að vextir héldust óbreyttir við ákvörðun Seðlabanka Íslands.
Þrýst er á Guðrúnu „að gera eitthvað“ enda er staða flokks hennar sífellt að versna eins og skoðanakannanir sýna. Nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir að Samfylkingin er komin í 35 prósenta fylgi meðal kjósenda en Sjálfstæðisflokkurinn hendur áfram að lækka og er nú kominn í 18 prósent fylgi sem er jafnvel lægra en fékkst í kosningunum þann 30. nóvember 2024 sem dugði Bjarna Benediktssyni til að játa sig sigraðan og víkja eftir að hafa tekið við flokknum í 37 prósenta fylgi. Síðustu þingkosningar voru hinar verstu í samanlagðri sögu Sjálfstæðisflokksins.
Formannsskipti í flokknum fóru fram til þess að rétta fylgið af. Niðurstaðan er þveröfug. Fylgið heldur áfram að dala og nú æpa flokkseigendur og flokksmenn á formanninn að „gera eitthvað“ og þá er svarið að tala um einhverja sleggju. Uppgjöfin blasir við. Það var ekki fyrr en eftir að ríkisstjórnin sem Guðrún átti nokkra aðild að fór frá að það tók að rofa til í þjóðfélaginu.
Orðið á götunni að þrátt fyrir að margt bendi til að himinháir vextir séu sjálfstæður verðbólguvaldur geri Seðlabankinn fjármálaráðherra auðveldara fyrir að krefjast aðhalds í því fjárlagafrumvarpi sem hann hefur nú í undirbúningi með því að halda vöxtum nú óbreyttum. Allir krefjast fjármuna úr ríkissjóði og fjármálaráðherra þarf ávallt að vera sá sem stendur á bremsunni. Nú fara í hönd tímar þar sem tekist verður á um fjármál ríkisins og þá er eins gott að Seðlabankinn hjálpi til við að halda aftur af þenslu í þjóðfélaginu. Hins vegar er alveg ljóst hvar þensluvaldarnir eru fyrir á fleti og á þeim þarf að taka.
Formaður Sjálfstæðisflokksins gerir nú auma tilraun til að beina athyglinni frá þeirri staðreynd að flokkur hennar nær ekki fótfestu og formaðurinn veit að það styttist í sveitarstjórnarkosningar þar sem mjög takmörkuð eftirspurn er eftir atbeina flokksins víðast hvar um landið. Skoðanakannanir sýna að búast má við því að Sjálfstæðisflokkurinn verði yfirleitt utan valdastöðu og í áhrifalausum minnihluta.
Orðið á götunni er að flokksmenn í flokki Guðrúnar séu – þrátt fyrir allt – farnir að sakna Bjarna Benediktssonar.