The New Yorker skýrir frá þessu og segir að í nýrri skýrslu komi fram að fjölskyldan hafi meðal annars hagnast á sölu MAGA-varnings, fjárfestingum, hótel- og veitingahúsarekstri, fjölmiðlum og Mar-a-Lago, heimili Trump, í Flórída.
En stærsti hluti peninganna kemur frá rafmyntum eða 15,1 milljarður.
Trump setti sína eigin rafmynt á markað rétt áður en hann tók við forsetaembættinu. Um fimmti hver háttsettur embættismaður í stjórn Trump á mikið af rafmynt forsetans í dag samkvæmt umfjöllun The Washington Post í júlí.
Hvíta húsið hefur vísað staðhæfingum um að Trump hafi hagnast vel á því að sitja á forsetastóli á bug og segir þetta vera „fáránlegt“ að sögn The Independent.
„Trump-fjölskyldan nýtur mikillar virðingar fyrir að fara alltaf að lögum varðandi viðskipti, algjörlega gagnstætt fyrrum forsetum eins og til dæmis Biden-fjölskyldunni. Trump hefur alltaf verið heiðarlegur og lagt áherslu á gagnsæi og það er ástæðan fyrir að hann er og hefur alltaf verið opinn fyrir því að deila upplýsingum um fjármál sín,“ sagði Karoline Leavitt, talsmaður Hvíta hússins, varðandi nýju skýrsluna.