Jón G. Hauksson og Sigurður Már Jónsson ræða um nýja risann á matvörumarkaðnum, fyrirtækið Dranga, sem þeir segja að sé leið Jóns Ásgeirs Jóhannessonar inn á matvörumarkaðinn aftur.
Jón Ásgeir stofnaði eins og alþekkt er Bónus ásamt föður sínum Jóhannesi Jónssyni. Drangar eru nákvæmlega eins upp byggðir og Festi og Hagar og velta árið 2024 um 75 milljörðum króna. Innan samstæðunnar eru Samkaup, Orkan og Lyfjaval. Samkaup reka meðal annars Nettó, Iceland og Kjörbúðirnar. Til stendur að skrá Dranga í Kauphöllina eftir um tvö ár. Meginmarkmið Dranga er núna að ná betri innkaupum og stefnir fyrirtækið á að hagræða um allt að 3 milljarða í rekstrinum frá því sem núna er. Inn í umræðu þeirra félaga um Dranga fléttast svo óvænt 20 ára gömul umræða um fyrirtækið Dagsbrún.
„Nú er Jón að fara með félög í skráningar, Jón Ásgeir. Á fyrri tímum þegar hann var inni í Kauphöllinni, til dæmis með félög eins og Dagsbrún, þá gekk ekki til dæmis vel að draga aðra fjárfesta að Jóni opinberlega. Og þáverandi forstjóri Dagsbrúnar, Gunnar Smári Egilsson, þeir kvörtuðu báðir mjög yfir því að lífeyrissjóðirnir vildu ekki fjárfesta í Dagsbrún,“ segir Sigurður í Hluthafaspjallinu.
Jón tekur undir og segist muna þetta vel. Telur hann að lífeyrissjóðir á þeim tíma hafi ekki haft trú á Gunnari Smára Egilssyni sem forstjóra.
„Og kannski fyrirtækinu sem slíku, þetta féll náttúrulega með brauki og bramli. Seinna útskýrði hann [Gunnar Smári] sína aðkomu að félaginu þannig að honum hefur bara verið falið að stækka EBITDA. Sem sagt, hann átti bara að vera að ná í félög bara inn undir regnhlífina. Og það var ekkert hugað að arðsemi eða að sinna rekstri eða öðru slíku. Það átti bara að stækka EBITDU. En á þessum tíma vildu lífeyrissjóðir ekki fjárfesta og þeir kvörtuðu báðir yfir því, Jón Ásgeir og Gunnar Smári, þeir fengu ekki traust og trúnað lífeyrissjóðanna. Í dag eru ábyggilega aðrir tímar,“ segir Sigurður.
Jón færir umræðuna í Dranga, nýtt félag sem er utan um Samkaup, Orkuna og Lyfjaval og segir þetta nákvæmlega eins og Festi og Hagar.
„Þarna er komið nýtt fyrirtæki sem heitir Drangar. Það er með matvörubúðir og það er með Orkuna sem er þarna og apótek. Þannig að það er verið að teikna nákvæmlega upp sams konar líkan og hjá Festi. Við erum búin að fjalla um þetta alveg frá því síðastliðið haust að Jón Ásgeir ákvað það að hann kom með Prís. En hann sá það mjög fljótt að það er svo erfitt og seinvirkt að ætla að fara að koma með Prís og láta það einhvern veginn vinna sig upp í innri vexti. Hann varð að koma inn á matvörumarkaðinn, og hvað gerði hann eins og við nákvæmlega sögðum: Hann teiknaði upp líkan eða svona kassa og hann keypti Samkaup. Hann kaupir af lífeyrissjóðunum í Sýn,“ segir Jón.
Segist hann fullviss um að lífeyrissjóðirnir munu koma sterkir inn í Dranga, enda stórt og mikið fyrirtæki sem velti þegar 75 milljörðum.
„Þeir koma fram núna og segja það sé hægt að auka hagnað þarna eða snúa þessu við. Það hefur verið tap á Samkaupum. Þeir ætla að snúa við og vera með ábata, sem sagt ná fram þriggja milljarða ábata, meiri ábata, meiri hagnaði á næstu tveimur árum.“
Segist Jón velta því fyrir sér hvort þar sé verið að búa til væntingar fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð sem verður eftir tvö ár þegar skráningin verður.
„Þetta er bara eigin lúður, blása í eigin lúður.“