fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Fréttir

Gagnrýnir aðgerðaleysi Ferðamálastofu vegna bílastæðavitleysunnar

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 18. ágúst 2025 10:00

Seljalandsfoss: Mynd: Pexels.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðsögumaður veltir upp þeirri spurningu af hverju Ferðamálastofa hafi ekki leitað lögfræðiráðgjafar þegar kemur að bílastæðum við náttúruperlur landsins. Segir hann málaflokkinn hafa skaðað orðspor landsins sem gestrisin þjóð og hefta aðgengi landsmanna að náttúrunni.

„Þetta er að komast í hámæli í samfélaginu núna eftir að flestir sem starfa úti í feltinu er búin að margbenda á þetta og reyna að ná eyrum stjórnvalda. Hvar er Ferðamálastofa búin að vera?

Hvers vegna eru þessi samtök ekki búin að leita ráða lögfræðinga og reyna að stöðva þessa bílastæða vitleysu sem hefur ekki gert nema að skaða orðspor okkar sem gestrisinn þjóð og hefta aðgengi Íslendinga að eigin náttúru.“ 

Björn Júlíus Grímsson leiðsögumaður vitnar í færslu sinni í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar í viðtal við Georg Andersen framkvæmdastjóra Gjaldskila á Mbl.is í gær. Gjaldskil er eitt fárra fyr­ir­tækja sem hef­ur heim­ild frá Fjár­mála­eft­ir­liti Seðlabanka Íslands (FME) til inn­heimtu á Íslandi og segir Georg flest benda til þess að inn­heimtuaðferðir sumra bíla­stæðafyr­ir­tækja séu ólög­leg­ar, þar sem lögð séu á inn­heim­tu­gjöld sem eiga sér enga stoð í lög­um.

Segir Georg landeigendur eða aðra þjón­ustuaðila mega rukka hvað þeir vilja í bíla­stæðagjald. Þegar ekki er greitt fyrir stæðið megi hins vegar ekki leggja hvað sem er ofan á. „Ef neyt­and­inn greiðir ekki stöðugjald þegar lagt er í stæði, þá þarf til heim­ild lög­reglu eða sveit­ar­fé­lags svo þú get­ir lagt á stöðubrots­gjald,“ seg­ir Georg.

„Af hverju heyrist ekkert í þessu fólki þegar að ráðherra fer með aðra eins vitleysu eins og að segja að það sé allt eðlilegt með að rukka að vild því það kosti að reka og byggja bílastæði. Já það kostar en hvernig væri að kalla eftir hóflegri gjaldtöku?“ spyr Björn í færslu sinni og tekur Seljalandsfoss sem dæmi. 

„Það koma ca. um 500þ manns þar og segjum að meðaltalið sé 3 í bíl og verðið sé 750 á bíl (getum mögulega gefið okkur þetta því rútur borga jú meira þótt þær hafi fleiri) þetta gera í kringum 127 milljónir á ári. Ég ætla að leyfa mér að efast um að þær framkvæmdir sem hefur verið farið í við Seljalandsfoss hafi kostað nógu mikið til að réttlæta þessa gjaldtöku þótt sannarlega hafi einhverja verið kostað til þar.

Það vita það allir sem hafa rekið fyrirtæki að stundum þarf að kaupa inn tæki og tól en fæstir gera ráð fyrir að borga upp stærri tækjakaupa eða framkvæmdir á nánast engum tíma og byrja bara strax að moka inn peningum, þannig að kalla þetta hóflega gjaldtöku á flestum þessum stöðum er algjörlega galið.“ 

Nefnir Björn að vel geti verið að Ferðamálastofa sé búin að vera að vinna í hlutum á bak við tjöldin og einnig að aðrir hafi verið að vinna í þessum málaflokki, en viðkomandi sé alls ekki að standa sig. Segir hann Seljalandsfoss „langt frá því að vera versta dæmið sem við þekkjum í bílastæðamálum en þar hefur gjaldtaka verið einna lengst og innviðauppbygging til skammar miðað við það.“

Georg hvetur í viðtalinu við Mbl.is fyrirtæki sem rukka vilja bílastæðagjöld að leita sér ráðlegginga áður en lagt er í slíka vegferð. „Ég hvet þessi fyr­ir­tæki til þess að leita sér aðstoðar því ég held að menn hafi hlaupið á sig og þarna að baki sé vanþekk­ing frem­ur en vilji til brota. Þetta get­ur nagað niður orðspor slíkr­ar starf­semi fljótt.“

Margir taka undir færslu Björns og segja þetta óboðlegt.

„Hóflegt gjald væri tímagjald td 100-200 kr á klst og greitt væri fyrir mínúturnar eins og gamla góða bílastæðagjaldið var og er í Reykjavík sem dæmi,“ segir Lára Zulima Ómarsdóttir leiðtogi almannatengsla hjá Pipar/TBWA og fyrrum blaðamaður.

Hinrik Ólafsson leikari er sammála Birni með Seljalandsfoss: „Sammála. Ekki er salernisaðstaða við Seljarlandsfoss boðleg vegna sóðaskapar og þrengsla.“

Kona bendir á bílastæði við Fagradalsfjall á Reykjanesi og segir enga leið að hætta við heimsóknina og þar af leiðandi að greiða fyrir bílastæði: „Á sumum stöðum eins og við Fagradalsfjall er ekki einu sinni að sjá að bílastæðin séu gjaldskyld og langt í upplýsingar um gjaldtökuna, eins ef fólk hefur ekið inn er engin leið til að hætta við. 1000 krónur skal greiða að öðrum kosti leggjast 3500 við gjaldið, sem sagt gæti kostað fólk 4500 að aka inn og strax úr aftur. Svona lítur þetta út hjá þeim. Auðvitað glæpafyrirtækið Parka sem þarna stjórnar ferðinni og sér sér hag í því að fólk greiði ekki þúsundkallinn og sendir fólki rukkun upp á 4500 kr. Væri verulega gaman að vita hvað þeir hafa halað inn þarna og á fleiri stöðum sem þeir annast um innheimtu bílastæðagjalda.“ 

Á myndinni sem hún birtir með má sjá skilti um bílastæði (P1) en þar er ekkert tekið fram um gjaldskyldu.

Mynd: Facebook.

Karlmaður segist hafa hætt við heimsókn þegar hann sá að greiða skyldi fyrir stæði: 

„Sammála að það er stórfurðulegt að samtök ferðaiðnaðarins og þeir sem eiga mikið undir að halda ferðamönnum góðum skuli ekki gera neitt í þessu rugli sem þessi bílastæðamál eru. Kannski hugsa þeir að þessi ferðamenn koma bara einu sinni en þetta spyrst út, ég var á ferð fyrir norðan fyrir stuttu og ætlaði að sína börnunum hverasvæðið við Námuskörð en gat ekki betur séð en að það ætti að rukka 1400.kr þar inn. Ég læt ekki bjóða mér svona og bakkaði út aftur og sá svo fleiri gera það sama. Það þarf náttúrulega einhver sem fær þetta „ítrekunargjald“  á sig að kæra viðkomandi fyrirtæki því miðað við það sem þessi maður segir þá er þetta ólögleg innheimta.“ 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslensk kona kynntist draumaprinsinum á stefnumótaforriti – ChatGPT staðfesti að svik voru í tafli

Íslensk kona kynntist draumaprinsinum á stefnumótaforriti – ChatGPT staðfesti að svik voru í tafli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pris fagnar ársafmæli – Segja fjölskyldur spara tugi eða hundruði þúsunda árlega

Pris fagnar ársafmæli – Segja fjölskyldur spara tugi eða hundruði þúsunda árlega
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni