Snærós Sindradóttir, listfræðingur og fyrrum fjölmiðlakona, opnar í dag SIND gallery. Um er ræða feminískt listagallerí sem staðsett er á Hringbraut 122, gegnt JL-húsinu. Fyrsta sýning byrjar í dag og stendur til 27. september, Rúrí: Tíma Mát.
„Þetta er einn stærsti dagur lífs míns. Risa uppskeruhátíð eftir 9 mánuði af undirbúningi og erfiðisvinnu. Ég sé iðulega langt fram í tímann og í viðtali við Reykjavík Grapevine í vikunni viðurkenndi ég að fyrir SIND hefði ég ekki bara 6 mánaða eða 3 ára plan, heldur líka 5, 10 og 30 ára áætlanir og drauma. Þess vegna er öllu til tjaldað og engu til sparað.“
Í færslu á Facebook segist Snærós standa ein að stofnun SIND. „Það er enginn fjárhagslegur bakhjarl eða skuggapartner. En það er Freyr og án hans gæti ég ekkert af þessu. Það er mín stærsta gæfa í lífinu að eiga mann sem hjálpar mér að láta alla mína drauma rætast. Stundum með því að treysta mér í blindni án þess að skapa kvíða og stress, og stundum með því að verða sérfræðingur í listaverka upphengjun. Við tvö höfum sett allt undir til að SIND verði að því gallerí sem því er ætlað að vera: Framsækið, stórhuga og nærandi fyrir íslenskt menningarlíf.“
Eiginmaður Snærósar er Freyr Rögnvaldsson, fyrrum blaðamaður á DV og Heimildinni, sem starfar í dag sem upplýsingafulltrúi Eflingar.
Þakkar Snærós fyrir velviljann sem henni hefur verið sýndur síðustu daga.
„Ég hef sannarlega fundið fyrir straumunum.
Og takk Rúrí, fyrir að vera uppáhalds listamaðurinn minn og fyrir að treysta mér til að opna SIND með þinni list. Síðustu dagar hafa verið hreint út sagt ótrúlegir með þér.“