fbpx
Miðvikudagur 13.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Öldungurinn sem sá ekki vandann

Svarthöfði
Þriðjudaginn 12. ágúst 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hefur verið hugsi síðan hann las grein í Viðskiptamogganum í síðustu viku eftir fyrrverandi háskólakennara í hagfræði, sem fyrir alllöngu er hættur störfum sökum aldurs. Í greininni fjallar öldungurinn um peningastefnu Seðlabankans, orsakir hennar og afleiðingar og helst er á honum að skilja að við Íslendingar séum pikkfastir í hringavitleysu, eða öllu heldur vítahring.

Kennarinn gamli virðist komast að þeirri niðurstöðu að hér á landi sé allt ómögulegt. Á vinnumarkaði ríki meira agaleysi en á öðrum vesturlöndum sem leiði til síendurtekinna kjarasamninga um launahækkanir sem fari langt fram úr hagvexti og greiðslugetu atvinnuvega þjóðarinnar. Afleiðingin sé annaðhvort verðbólga eða atvinnuleysi.

Til að bæta svo gráu ofan á svart ríki áþekkt agaleysi í fjármálastjórn hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélag. Þar hafi hallarekstur verið regla en ekki undantekning. Afleiðingin sé umframeftirspurn sem togi upp verðlag. Í framhaldinu sé reynt að brúa halla með skattahækkunum sem bæði hækki verðlag beint á opinberri þjónustu, sem sé ein tegund skattheimtu, og þrýsta upp verðlagi þegar skattgreiðendur reyna að viðhalda rauntekjum sínum með því að hækka verð.

Ofan á þetta allt saman bætist svo, að sögn kennarans fyrrverandi, að Seðlabankinn brölti um allt eins og óviti með mávastell með einhæfri og harðri peningastjórn sem sé sjálfstæður sveifluvaldur í hagkerfinu. Hávaxtastefna Seðlabankans dragi úr eftirspurn í hagkerfinu og færi kaupmátt milli samfélagshópa þannig að skuldarar tapi og fjáreigendur græði. Þetta dragi úr framleiðslu og atvinnu, auk þess sem framleiðslan færist frá fjárfestingarvörum (húsnæði tækjum, vélum o.þ.h.) yfir í skammlífar neysluvörur.

Þessi peningastefna veldur reglulegum kollsteypum og segir kennarinn fyrrverandi að þráhyggja Seðlabankans vegna verðbólgu á kostnað annarra þjóðhagsstærða sé bölvanleg og ekki í samræmi við lögin um Seðlabankann.

Svarthöfði verður að viðurkenna að honum fannst þessi grein Ragnars Árnasonar um margt athyglisverð. Hann man eftir honum sem róttækum Allaballa sem tók sig til og menntaði sig í fiskihagfræði og kenndi hana um árabil við Háskóla Íslands áður en hann hætti þar á síðasta áratug vegna aldurs. Á einhverjum tímapunkti sá Ragnar „ljósið“ og sneri frá sinni vinstri villu. Gerðist hann handgenginn mjög útgerðinni og stóð sig svo vel í að verja hagsmuni kapítalsins að árið 2011 fékk hann frelsisverðlaun ungra Sjálfstæðismanna, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson. Öllu hærri veður viðurkenningin ekki.

Svarthöfði minnist þess hins vegar ekki að Ragnar Árnason hafi gert sig gildandi í umræðu um peningastefnu, enda hefur hann verið upptekinn að útskýra fyrir fólki hversu mikilvægt það sé að útgerðin borgi alls ekki fyrir afnot sína af þjóðarauðlindinni. Sat hann þó um hríð í bankaráði Seðlabankans en bankaráðið hefur reyndar ekkert með peningastefnuna að gera. Sérsvið þess ku vera að velja matseðilinn fyrir hvern dag í dýrðlegu mötuneyti bankans. Vitaskuld felst mikil ábyrgð í því að ákveða hvort Ásgeir Jónsson borðar Vínarschnitzel eða turnbauta í hádeginu á föstudögum. Við skulum ekki gera lítið úr því.

Við lestur greinarinnar gat Svarthöfði ekki varist þeirri hugsun að fiskihagfræðingurinn gamli væri mögulega að misskilja málið frá upphafi til enda, alls ekki að greina kjarna þess. Ríki sem reka mjög lítinn gjaldmiðil, að ekki sé talað um gjaldmiðil sem hvergi er hægt að skipta fyrir verðmæti neins staðar í heiminum – hér kemur íslenska krónan upp í hugann – búa við mun meiri óstöðugleika og hærri vexti en þau ríki sem nota harðar myntir á borð við evru, svissneskan franka og Bandaríkjadal. Þessir háu vextir ýta undir auknar launakröfur á vinnumarkaði, vegna þess að í hávaxtalandi þurfa laun að vera hærri en þar sem vextir eru lægri. Niðurstaðan er gjarnan kjarasamningar sem eru ávísun á verðbólgu. Það er því gjaldmiðillinn sjálfur sem er rót aðhaldsleysisins og verðbólgunnar.

Gamli fiskihagfræðingurinn ætti nú að þekkja þetta vel. Öll stórútgerðin, sem hann varði áratugum í að kynna sér til hlítar, er búin að forða sér út úr krónuhagkerfinu vegna þess að vitanlega er það óðs manns æði að vera í hávaxtahagkerfi með gagnslausa örmynt þegar hægt er að vera í hagkerfi með traustan gjaldmiðil og hagstæð vaxtakjör.

Svarthöfði myndi alla vega ekki þráast við ef honum stæði til boða að búa í evruhagkerfi á Íslandi og losna undan verðtryggða húsnæðisláninu sínu sem er með verðtryggingu og raunvexti sem eru hærri en nafnvextir á húsnæðislánum í evrum. Og evrulánin eru ekki verðtryggð. Verðtrygging er raunar óþekkt hugtak meðal siðaðra þjóða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
06.07.2025

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir
EyjanFastir pennar
05.07.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir