Sean Spicer sem var blaðafulltrúi Hvíta hússins á fyrstu sex mánuðum fyrri forsetatíðar Donald Trump, frá 2017-2021, í Bandaríkjunum varar forsetann eindregið við því að náða hina alræmdu Ghislaine Maxwell. Spicer segir að eini möguleikinn á því að þetta verði að veruleika sé ef núverandi aðstoðarmenn forsetans hreinlega afvegaleiði hann eða ljúgi að honum til að fá þessu framgengt.
Maxwell var eins og mörgum er kunnugt unnusta og samverkakona kynferðisbrotamannsins heimsfræga Jeffrey Epstein en Trump og hann voru lengi vinir. Mál tengd Epstein hafa reynst Trump erfið og mörgum stuðningsmönnum hans hefur reynst erfitt að skilja tregðu Trump-stjórnarinnar við að birta hin margumræddu Epstein-skjöl. Fullyrðingar um að Trump hafi eitthvað að fela varðandi tengsl sín við Epstein hafa verið lífseigar en á móti hefur verið bent á að í upphafi þessarar aldar sinnaðist þeim en Epstein lést árið 2019 í fangelsi.
Maxwell afplánar nú 20 ára fangelsisdóm meðal annars fyrir mansal en aðstoðarráðherra í dómsmálaráðuneytinu hitti hana nýlega og hún hefur verið flutt í fangelsi með minni öryggisgæslu. Talið er víst að hún vilji að Trump náði hana í staðinn fyrir að hún sýni embættismönnum hans samvinnu. Trump hefur ekki útilokað það en segist ekki hafa hugleitt slíkt og bætir við að hann hafi sannarlega vald til að gera það.
Í umfjöllun Daily Beast er vitnað í nýlegt hlaðvarpsviðtal við Sean Spicer. Þar sagðist hann hafa miklar áhyggjur af því að Trump muni náða Ghislaine Maxwell og það væri raunverulegur möguleiki á því að aðstoðarmenn forsetans afvegaleiði hann í því skyni.
Spicer spáir því að verði náðunin að veruleika muni það valda almennri hneysklan. Þetta muni forsetinn þó líklega aðeins gera ef aðstoðarmenn hans sannfæri hann um að það geti komið sér vel pólitískt séð. Hver sá sem reyni það sé hins vegar að ljúga að forsetanum.
Spicer telur að náðun Maxwell myndi valda almennri reiði og hann voni innilega að enginn af aðstoðarmönnum Trump sé að reyna að sannfæra hann um annað.