Þrír breskir unglingsdrengir „með englaandlit“ börðu mann til dauða af handahófi. Einn manaði annan til að byrja að lumbra á manninum og svo ágerðist árásin. Málið vakti mikinn óhug í Bretlandi og hefur vakið upp spurningar um hvert ungdómurinn stefni.
Fjallað er um málið í dagblaðinu The Mirror og fleiri breskum miðlum en árásin átti sér stað þann 17. ágúst árið 2012 í borginni Liverpool.
Gerendurnir í málinu voru tveir bræður, Connor Doran 17 ára og Brandon Doran 14 ára, og vinur þeirra Simon Evans 14 ára. Þeir voru sakfelldir fyrir árás og manndráp á 53 ára gömlum heimilislausum manni, Kevin Bennett að nafni, ári seinna.
Það vakti óhug margra að sjá myndirnar af drengjunum og barnslegt útlit þeirra. Hvernig gátu þrír englar framið slíkt ódæði?
Þetta umrædda kvöld hafði Kevin farið á pöbb sem kallast Queens Arms í Walton hverfinu og drakk sig ölvaðan þar. Á öryggismyndavélum sást að hann fór frekar snemma af pöbbnum, haldandi á plastpoka fullum af bjór.
Síðan lagðist hann til hvílu í skúmaskoti fyrir aftan stórmarkað á County Road og svaf þar fram til klukkan 5:00 um morguninn þegar drengirnir þrír komu að honum.
„Ég er viss um að þú hefur ekki kjarkinn til að berja hann,“ sagði Connor, sá elsti, við Simon og eggjaði hann til að veitast að hinum lánlausa Kevin. En hann hafði kjarkinn og byrjaði að sparka í manninn sem gat sér litla björg veitt.
Síðan tóku hinir drengirnir tveir þátt í árásinni líka. Simon og Connor börðu og spörkuðu í höfuðið og búkinn á Kevin á meðan Brandon stóð vörð og passaði upp á að enginn kæmi að þeim. Árásin stóð yfir í um 20 mínútur.
Að lokum hlupu drengirnir flissandi og hlæjandi í burtu á meðan Kevin, varla með meðvitund, náði að skríða fram úr skotinu og fram fyrir verslunina þar sem hann örmagnaðist.
Starfsfólk sá hinn illa farna heimilislausa mann og hringdi á neyðarlínuna. Hann var fluttur á spítala en lést þar af blóðeitrun sökum líffærabilunar sex dögum eftir árásina. Hann var dagdrykkjumaður og heilsuveill fyrir og þoldi þessa miskunnarlausu árás illa.
Doran bræðurnir fóru heim til sín og grobbuðu sig af árásinni við fjölskyldu sína. Nokkrum dögum seinna játaði Simon hins vegar við mömmu sína að hann og bræðurnir hefðu valdið dauða heimilislausa mannsins.
Hringur lögreglunnar þrengdist og grunur féll á drengina þrjá. En í málsgögnunum kom fram að móðir Doran piltanna, Linda, hefði tafið fyrir með því að ljúga að lögreglunni um hvar þeir hefðu verið þessa nótt. Hún var einnig ákærð í málinu.
Í réttarhöldunum neituðu allir drengirnir þrír að hafa myrt Kevin Bennett en voru engu að síður sakfelldir af kviðdómi. Connor Doran hlaut þyngsta dóminn, svokallaðan lífstíðardóm í fangelsi, eða að minnsta kosti 12 ár.
Simon Evans hlaut 8 ára dóm, en talið var að Doran bræðurnir hefðu haft mikil áhrif á hann til hins verra. Áður en hann kynntist þeim hafði hann verið fyrirmyndar nemandi í sínum skóla.
Brandon Doran, sem ekki tók þátt í líkamsárásinni sjálfri, hlaut 6 ára fangelsisdóm.
Í réttarhöldunum var nöfnum drengjanna þriggja haldið leyndum sökum aldurs þeirra. En eftir að dómur féll ákvað dómari að rétt þætti að birta nöfn þeirra, öryggis almennings vegna. Í dóminum beindi dómarinn sérstaklega orðum sínum að móður Doran bræðranna. Sagði hann hana vera „sorglega manneskju“ sem hefði verið „óhæf og óviljug til þess að sinna móðurhlutverkinu af ábyrgð.“ Hlaut hún tveggja og hálfs árs fanglesi fyrir yfirhylmingu.
Fleiri úr Doran fjölskyldunni lentu upp á kant við lögin í málinu því að Jordan Doran, 21 árs bróðir sakborninganna, var handtekinn í réttarsalnum fyrir vanvirðingu. En hann hafði verið að taka ljósmyndir sem er harðbannað.
Við dómsuppsöguna brotnaði Simon saman en Doran bræðurnir voru sem steinrunnir í framan. Hugsanlega fegnir að fá að hitta bróður sinn.
Á meðan yfirheyrslum í málinu stóð hafði enn eldri bróðir drengjanna, Ryan Doran 23 ára, verið ákærður fyrir morð.
Merkileg líkindi eru á milli þess máls og máls drengjanna þriggja. Ryan réðist af tilefnislausu á 42 ára mann að nafni Wayne Mitchell þar sem hinn síðarnefndi var á leið heim af pöbb við Townsend Lane í Anfield hverfinu í mars árið 2012.
Ryan hafði drukkið tíu bjóra og notað bæði kannabis og kókaín áður en hann lét til skarar skríða. Hann barði Wayne svo illa að hann höfuðkúpubrotnaði og fékk blæðingu inn á heila. Hann lést nokkrum dögum seinan á sjúkrahúsi.
Ryan Doran neitaði sök en hlaut lífstíðardóm fyrir morðið og tók það kviðdóm aðeins um eina klukkustund að komast að niðurstöðu. Um tíma voru því allir meðlimir Doran fjölskyldunnar, nema yngsta systirin á bak við lás og slá.