Maðurinn sem grunaður er um að hafa myrt hjón fyrir framan dætur þeirra í hinum rómaða Devil’s Den þjóðgarði í Arkansas var handtekinn í miðri hárklippingu – og lýst sem „sálarlausum“ af hársnyrti sem skynjaði strax eitthvað óhugnanlegt við nærveru hans.
Sjá einnig: Leitin að morðingja í Devil’s Den hert – Sex tímar liðu þar til almenningur var varaður við
Andrew James McGann, 28 ára, gekk inn í hársnyrtistofuna Lupita’s Beauty Salon í bænum Springdale síðdegis þann 30. júlí – fimm dögum eftir að Cristen Amanda Brink og eiginmaður hennar, Clinton David Brink, voru myrt á afskekktri gönguleið í þjóðgarðinum þar sem þau voru í fjölskylduferð með dætrum sínum, sjö og níu ára gömlum. Stúlkurnar sluppu með skrekkinn en þurftu að horfa upp á foreldra sína myrta með köldu blóði.
Adriana Ruiz Avalos, hárgreiðslumeistari sem var á vakt þegar McGann kom inn, sagði í viðtali við NewsNation að hún hafi strax fengið „ónotatilfinningu“. „Ég sá hann og sagði honum að koma í stólinn – og fann einhvern ótta innan í mér,“ sagði hún. „Hann leit út fyrir að vera þurr, skítugur og með þykkt hár.“
McGann bað sérstaklega um að ekki væri klippt ofan af höfðinu, líklega til að fela augun, þar sem hann hafði verið eftirlýstur um skeið vegna ódæðisins. Hann sat þögull með hárið yfir andlitinu þegar leynilögreglumenn komu inn á stofuna og höfðu bókstaflega hendur í hári hans.
Lögregla hafði fundið svartan Kia Stinger bíl hans fyrir utan stofuna sem leiddi þá að hinum meinta morðingja sem var handtekinn á staðnum.
Hið óhugnalega morð hefur vakið talsverða athygli í fjölmiðlum vestan hafs. Hinn meinti morðingi á að hafa ráðist að Brink-hjónunum um hábjartan dag þar sem þau gengu um þjóðgarðinn með dætrum sínum. Fjölskyldufaðirinn, Clinton, reyndi að örvæntingafullur að verjast árásarmanninum á meðan eiginkona hans, Cristen, kom dætrum þeirra í skjól. Hún sneri svo aftur við til að freista þess að hjálpa eiginmanni sínum. Bæði fundust þau svo látin eftir átökin við ódæðismanninn.
Dæturnar gátu lýst árásarmanninum nákvæmlega fyrir lögreglu sem leiddi til víðtækrar leitaraðgerðar og handtöku McGann.
Hann hefur nú verið ákærður fyrir tvö morð af fyrstu gráðu og er vistaður í fangelsi í Washington-sýslu án möguleika á tryggingu. Lögregla segir að erfðaefni McGanns passi við blóð sem fannst á vettvangi. Þá er fullyrt að hann hafi þegar játað morðin, þó að hann ætli að lýsa sig saklausan fyrir dómi. Ef hann verður sakfelldur gæti hann hlotið dauðarefsingu.