Eins og greint var frá í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum lést erlendur ferðamaður sem var á göngu ásamt hópi fólks nærri Hrafntinnuskeri á gönguleiðinni Laugavegi, á Suðurlandi. Einstaklingur sem var í hópnum lofar vinnubrögð íslenskra björgunarsveitarmanna, sem komu á staðinn, í hástert ekki síst fyrir það hvernig haldið var utan um þau í hópnum sem eftir stóðu.
Umræddur aðili segir frá þessari upplifun á samfélagsmiðlinum Reddit. Þegar færslan var rituð hafði viðkomandi lokið göngunni um Laugaveginn en segir að atvikið sem um ræðir hafi átt sér stað á fyrsta degi göngunnar en hinn látni hneig þá niður og á endanum báru endurlífgunartilraunir ekki árangur. Viðbragðsaðilar voru kallaðir út og á vettvang komu björgunarsveitarmenn. Einstaklingurinn sem ritar færsluna segir svo frá (í þýðingu DV) vinnubrögðum þeirra eftir að búið var að flytja manninn, sem hneig niður, af staðnum:
„Þau gengu með okkur þá 13 kílómetra sem við áttum eftir að ganga þennan dag og voru með okkur fram eftir kvöldi í sæluhúsinu. Þau töluðu við okkur og buðu áfallahjálp. Þau voru svo góð og hjálpleg. Það var hughreystandi og eftir á að hyggja virkilega frábært að Ísland sé með þessar björgunarsveitir sem bjóða upp á gjaldfrjálsa aðstoð við að glíma við afleiðingar hörmunga.“
Tekur færsluhöfundur einnig fram að almennir borgarar af ýmsum þjóðernum á svæðinu hafi boðið fram aðstoð sína og segir að þrátt fyrir allt hafi upplifunin af göngunni verið góð þar sem hópurinn hafi hitt svo margt dásamlegt fólk.
Aðspurður í athugasemd við færsluna lýsir færsluhöfundur nánar aðstæðum á vettvangi og ljóst er að þær voru erfiðar. Í gönguhópnum voru á annan tug manna en það voru Íslendingar sem leiddu gönguna. Lágskýjað var á svæðinu og því fyrirséð að erfitt gæti verið fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar að lenda en ljóst var að maðurinn sem hneig niður þurfti að komast sem allra fyrst á sjúkrahús. Endurlífgunartilraunir voru hafnar þegar í stað og þyrlan kom á vettvang um 80 mínútum síðar en á meðan skiptist hópurinn og aðrir sem voru á svæðinu á við að veita manninum hjartahnoð.
Færsluhöfundurinn þekkti til mannsins sem lést og segir hann hafa verið góðan mann. Hann segir björgunarsveitarmennina hafa komið akandi að næsta sæluhúsi og gengið það sem eftir var af leiðinni á vettvang. Hann ítrekar síðan góðvild björgunarsveitarmannanna í garð hópsins eftir að þyrlan var farin af staðnum, með hinn látna:
„Það var svo hughreystandi að hafa þau þarna að vaka yfir okkur af því við vorum öll í miklu uppnámi.“