Ísrael hefur sætt harðandi gagnrýni víða um heim fyrir framgöngu sína gagnvart Palestínumönnum, einna helst á Gaza en einnig á Vesturbakkanum. Ísraelsk stjórnvöld hafa getað farið að mestu leyti sínu fram og þá ekki síst vegna einarðs stuðnings Bandaríkjanna. Nú virðast hins vegar vera teikn á lofti um að í Bandaríkjunum sé þolinmæðin gagnvart Ísrael að minnka stórlega og hafa fréttir undanfarið um Palestínumenn sem drepnir hafa verið af ísraelska hernum, í biðröðum eftir mat, hækkað í óánægjuröddunum. Stuðningur við hernað Ísraela gegn Palestínumönnum hefur aldrei verið minni meðal bandarísks almennings. Óánægjuraddir eru farnar að verða sífellt háværari meðal helstu stuðningsmanna Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hefur á köflum sjálfur líst efasemdum en þó takmörkuðum.
Í umfjöllun CNN kemur fram að samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í vikunni hafi 32 prósent svarenda lýst yfir stuðningi við aðgerðir Ísrael. Stuðningurinn hefur aldrei verið minni síðan Hamas réðst á Ísrael í október 2023.
Stuðningurinn er þó enn mikill meðal yfirlýstra stuðningsmanna Repúblikanaflokksins, 71 prósent, en stuðningurinn er afar lítill meðal stuðningsmanna Demókrata, aðeins 8 prósent.
Minnstur er stuðningurinn meðal fólks á aldrinum 18-34 ára.
Þótt Repúblikanar styðji enn þá vel við bakið á Ísrael þá hafa efasemdir innan þeirra raða farið vaxandi og sumir af helstu stuðningsmönnum Donald Trump eru meðal þeirra. Hin mjög svo hægri sinnaða Marjorie Taylor Green, þingkona flokksins og ein af helstum stuðningsmönnum Trump, hefur tekið undir að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum. Hefur þetta þótt sæta miklum tíðindum.
Mikla athygli vestanhafs hefur einnig vakið hversu gagnrýnin hinn þekkti og hægri sinnaði fjölmiðlamaður Tucker Carlson er orðinn í garð stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael. Hefur hann komið því skýrt á framfæri í þætti sínum að hann telji nú vera nóg komið af ekki síst fjárhagslegum stuðningi Bandaríkjanna við Ísrael. Mikla athygli vakti fyrir nokkrum vikum þegar hann tók Ted Cruz, öldungardeildarþingmann Repbúblikana frá Texas, til bæna í þættinum vegna nánast skilyrðislauss stuðnings þingmannsins við Ísrael.
Brad Sherman þingmaður Demókrata frá Kaliforníu er meðal þingmanna sem stutt hafa við bakið á Ísrael en hann segir við CNN að það sé einfaldlega að tapa almenningsálitinu bæði í Bandaríkjunum og víðar. Fólk sé löngu búið að fá nóg af endalausum dauða almennra borgara í Palestínu. Ímynd Ísrael hafi beðið mikinn hnekki og ímyndin skipti máli.
Fyrr í vikunni tók Donald Trump undir að það væri sannarlega hungursneyð á Gaza-svæðinu og andmælti þar með Benjamin Nethanyahu forsætisráðherra Ísrael. Stuðningur Trump við Ísrael virðist þó enn traustur en hann hefur gagnrýnt fyrirætlanir Frakka og Breta um að viðurkenna sjálfstæði Palestínu.
Þótt efasemdir og gagnrýni í garð Ísrael hafi náð inn í þingflokk Repúblikana þá eru efasemdirnar enn meiri meðal almennra stuðningsmanna forsetans. Innan MAGA-hreyfingarinnar sem kennir sig við skammstöfunina á einkunnarorðum Trump, Make America Great Again, fer stuðningurinn við Ísrael minnkandi og hann er sagður sérstaklega lítill meðal fólks á aldrinum 18-30 ára, innan hreyfingarinnar.
Margir aðrir þingmenn Repúblikana, aðrir en Marjorie Taylor Green, styðja hins vegar enn dyggilega við bakið á Ísrael og harðneita því að verið sé að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum.
Þrýstingurinn á að draga úr eða hætta alfarið stuðningi við Ísrael er hins vegar orðinn mikill innan Demókrataflokksins. Hluti þingflokksins hefur til að mynda lagt fram tillögur um að svipta Ísrael fjárhagsstuðningi til að styrkja eldflaugavarnir sínar. Í umfjöllun CNN kemur einnig fram að það muni reynast sumum þingmönnum flokksins erfitt í þingkosningunum á næsta ári ef þeir standi heils hugar á bak við Ísrael, sérstaklega í ríkjum og kjördæmum þar sem mikið er um kjósendur af arabísku bergi brotnir.
Til marks um harðnandi gagnrýni og aukna andstöðu við Ísrael meðal Demókrata bendir CNN meðal annars á hlaðvarpið Pod Save America sem stýrt er af fyrrum aðstoðarmönnum Barack Obama, í forsetatíð hans. Í hlaðvarpinu er því haldið fram að það sé ekki annað hægt fyrir flokkinn en að gera grundvallarbreytingar á afstöðu sinni til Ísrael. Bæði Bandaríkin og heimurinn allur séu komin á þann stað.