Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur beðist afsökunar á að hafa dreift falsaðri mynd af hópi manna sem grunaðir eru um þjófnað á hundruðum lítra af díselolíu frá flutningafyrirtækinu Fraktlausnir. Í gær birti lögreglan myndina og óskaði eftir að ná tali af mönnunum á henni en í ljós hefur komið að um er að ræða skjáskot úr myndbandi úr eftirlitsmyndavéla Fraktlausna en myndinni hafði verið breytt verulega, líklega með aðstoð gervigreindar og var upphaflega birt í Facebook-hópnum Þjófar á Íslandi. Ljóst er að myndin haf ekki rétta mynd af útliti mannanna sem leitað er að.
Tilkynning lögreglunnar fer hér á eftir í heild sinni:
Fölsk mynd fór í umferð vegna mistaka
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðst einlæglega afsökunar á að hafa dreift mynd sem breytt hafði verið með notkun gervigreindar. Myndin var send út í tengslum við yfirstandandi rannsókn á eldsneytisþjófnaði í borginni.
Umrætt myndefni, gaf ekki rétta mynd af útliti einstaklinganna sem óskað var upplýsinga um og hefur myndin þegar verið fjarlægð af öllum miðlum lögreglu. Réttri mynd verður í kjölfarið komið til fjölmiðla og þess óskað að þeir fjarlægi myndina sem átt hafði verið við eða komi því ellegar skýrt til skila að hún sé fölsuð.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur áherslu á að almenningur geti treyst öllu því sem hún sendir frá sér. Nauðsynlegt hefði verið að sannreyna myndefnið með fullnægjandi hætti áður en því var dreift í tengslum við rannsókn lögreglu. Við skoðun er augljóst að öryggismyndavél í þessari fjarlægð hefði ekki getað skilað jafn skýrum myndum. Þetta þekkir lögreglan vel sem vinnur með slíkt myndefni á hverjum degi.
Verklag embættisins verður tekið til endurskoðunar í kjölfarið á þessu máli með það fyrir augum að það endurtaki sig ekki.
Ljóst er að tilkoma gervigreindar hefur í för með sér aukna hættu á ýmis konar fölsunum, falsfréttum og röngum sakargiftum og þurfa allir að hafa varann á gagnvart slíku athæfi. Þar er lögreglan ekki undanskilin.