Tvær smákengúrur (vallabíur) sluppu frá eigendum sínum í Belgíu fyrir skemmstu. Önnur þeirra komst til Frakklands.
Fréttastofan UPI greinir frá þessu.
Í tilkynningu frá borgaryfirvöldum í Mouscron í Belgíu kemur fram að kengúrurnar hafi sloppið frá býli í úthverfinu Herseaux um þar síðustu helgi. Önnur þeirra komst yfir landamærin til Frakklands þar sem slökkviliðsmenn í bænum Wattrelos gómuðu hana.
„Til þess að handsama vallabíuna örugglega og án þess að meiða hana settu tæknimenn út net til að hindra för hennar og gripu svo í rófuna á pokadýrinu til þess að valda engum skaða. Þessi aðferð er algjörlega sársaukalaus fyrir dýrið, kemur í veg fyrir að það slái með rófunni, klóri með klónum eða reyni að bíta frá sér til að verja sig,“ segir í tilkynningu frá slökkviliðinu.
Var kengúrunni komið fyrir í búri og skilað til eigandans í Belgíu. Ekki er vitað hvar hin kengúran er niðurkomin.