Töluvert var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Meðal þess sem kom til kasta lögreglu var matarboð stórfjölskyldu í Laugardalshverfi í Reykjavík en ekki reyndist þó raunveruleg þörf á aðkomu lögreglunnar að því.
Meðal verkefna á lögreglustöð 1 sem sér um löggæslu í austurbæ, miðbæ, og vesturbæ Reykjavíkur og Seltjarnarnesi var að ökumaður var stöðvaður fyrir of hraðan akstur fyrir að aka á 58 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraðinn er 30 kílómetrar. Í ljós kom að bifreiðin þarfnaðist jafnframt skoðunar og var hún því boðuð í skoðun að beiðni lögreglu innan tilskilins frests
Tilkynnt var um einstakling sem svaf ölvunarsvefni á salerni hótels í hverfi 101. Hann var vakinn og gekk sína leið.
Tilkynnt var um ölvaðan einstakling til vandræða utan við krá í hverfi 101. Viðkomandi var ekið til síns heima.
Tilkynnt var um háreisti milli fólks í fjölbýlishúsi í hverfi 104 sem nefnist Laugardalshverfi. Það reyndist hins vegar ekki á rökum reist heldur var um að ræða fjölmennt matarboð stórfjölskyldu þar sem gleðin var við völd.
Tilkynnt var um einstakling sem gekk ber að ofan á akbraut í Hlíðunum. Honum var ekið til síns heima.
Einstaklingur var síðan handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu grunaður um líkamsárás í hverfi 101.
Meðal verkefna á Lögreglustöð 2 sem sér um Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes var að tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir á byggingarsvæði en viðkomandi fundust ekki þrátt fyrir leit.
Loks má nefna að meðal verkefna á Lögreglustöð 4 sem vaktar Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ var að tilkynnt um partýhávaða í Mosfellsbæ. Húsráðandi hét lögreglunni því að að lækka í gleðskapnum.
Einnig var nokkuð um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna og nú í morgunsárið gistu alls sex fangageymslur.