Stjórnarandstaða er mikilvæg og menn þurfa að nálgast það hlutverk af ábyrgð. Í lok þings nú í vor týndi stjórnarandstaðan sér í ábyrgðarleysi. Mörg mál sem frestað var koma aftur inn í þingið þegar það kemur saman í haust. Þinghlé er óvenju stutt núna vegna þess hve fundað var langt inn í sumarið því er frestun mála ekki löng. Málin eru tilbúin og búið að ræða sum þeirra mjög vel í þinginu. Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan Sigmar Gudmundsson 5
„Við ætlum ekki að láta þingið virka þannig að minnihlutinn sé með neitunarvald. Nei, þannig er það bara ekki hugsað í kerfinu okkar og það er þannig af ástæðu. Núna er það auðvitað þannig að við erum að hætta um miðjan júlí. Það er stutt þangað til að þing kemur saman aftur, þannig að þetta er nú ekki langur tími þangað til að málin koma inn aftur. Þau eru auðvitað bara tilbúin og sum þeirra er reyndar líka bara ansi vel rædd, einmitt búið að fara í alls góða umræðu um sum. Mikla þinglega umræðu,“ segir Sigmar.
Hann bendir á að þetta var ekki í fyrsta skipti sem bókun þrjátíu og fimm var rædd, hún hafi líka verið rædd í formi skýrslu sem Bjarni Ben kom með inn í þingið þegar að þeir lögðu ekki fram málið sem slíkt. „Það eru mörg mál þarna. Kílómetragjald og breytingar á almannatryggingum og við höfum verið að leggja svolítið mikla áherslu á að ná fram hagræðingu eins og til dæmis birtist í sameiningu sýslumanna og annað í þeim dúr þannig að það er fullt af málum sem við þurfum að keyra áfram inn í þingið núna í haust. Þetta var í sjálfu sér ekki, löng frestun á málunum því við vorum auðvitað komin inn í mitt sumar ..,.“
Það er auðvitað galli við okkar kerfi er að mál lifa ekki milli þinga.
„Nei, það er nú málið, það þarf að byrja upp á nýtt. En það er meiri svona samhljómur með mörgum málum þarna heldur en að spilað var upp núna á síðasta vetri. Ég held að það hafi auðvitað líka verið þannig að þetta var svolítið stutt. Við komum úr erfiðri kosningabaráttu. Fólki líður alls konar eftir kosningarnar. Fólk er missátt við hlutskipti sitt eftir kosningarnar. Þetta er auðvitað allt líka bara mannlegt.“
Þetta voru tímamóta kosningar. Það varð gjörbreyting á ásýnd íslenskra stjórnmála. Það hurfu tveir flokkar af þingi og náttúrlega það sem aldrei hefur gerst fyrr í Íslandssögunni, það urðu hrein stjórnarskipti.
„Jú, jú, og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fá ofboðslega slæma útreið í þessum kosningum. Enda var þessi ríkisstjórn, sem þeir voru búnir að vera í, mjög óvinsæl. En þetta er síðan bara veruleikinn og þá þurfa menn síðan að spila með það að þeir eru komnir í stjórnarandstöðu. Það er ákveðið hlutverk, það er mjög dýrmætt hlutverk, það er gríðarlega mikilvægt hlutverk. En menn þurfa líka að vera í stjórnarandstöðu af ábyrgð og mér fannst menn aðeins týna sér í ábyrgðarleysi núna undir lok þingsins.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.