Fjölmargir ferðamenn nota vefinn Tripadvisor á ferðalögum sínum til að finna meðmæli með veitingastöðum, stöðum sem vert er að skoða og upplifunum, í þeirri borg eða landi sem þeir eru staddir hverju sinni. Notendur geta gefið einkunnir og umsagnir og þannig raðast veitingastaðir og staðir upp í röð eftir einkunnunum. Það getur því skipt veitingastaði töluverðu máli að vera ofarlega á listanum og slæmar umsagnir, þó þær séu fáar, geta lækkað einkunnina verulega.
DV tók síðast saman lista yfir þá tíu besta í júní 2023. Það var því tilvalið til að athuga hvernig listinn lítur út í dag, athuga hvort staðirnir þá væru enn á topp tíu listanum og hvort ogþá hvaða staðir væru nýjir á listanum.
Svona leit listinn út 10. júní 2023:
Og svona lítur hann út í dag:
Tveir staðanna bera íslenskt nafn á Tripadvisor, Fiskmarkaðurinn og Kopar. Í raun má segja að aðeins Kopar sé sá eini sem heldur sig við alíslenskt nafn þar sem Fiskmarkaðurinn bætir erlenda nafninu við.
Veitingastaðurinn Arabian Taste, sem býður upp á sýrlenskan og arabískan skyndibita eins og shawarma, falafel og döner-kebab, heldur enn toppsætinu. Staðurinn opnaði í ársbyrjun 2022 á Laugavegi 87 og hefur hann slegið í gegn hjá erlendum ferðamönnum og einnig hjá heimamönnum. Samandregið þykir maturinn vera afar bragðgóður, gerður úr gæðahráefnum og þá þykir verðlagið afar hagstætt.
Staðurinn er með 1070 umsagnir og 1000 þeirra gefa staðnum gefa fimm stig. Áttar umsagnir gefa staðnum hræðilega umsögn (e. terrible) og snýr ein að því að viðkomandi fékk pöntunina rangt afgreidda og önnur bendir á að um er að ræða skyndibitastað og því alls ekki besti veitingastaðurinn í Reykjavík. Aðrar snúa að því að þjónustan sé léleg og starfsmenn dónalegir.
Vefsíðan opnar á íslensku, en enska og arabíska er einnig í boði.
Í öðru sæti er nepalski veitingastaðurinn Himalayan Spice, sem opnaði árið 2018. Staðurinn er sá eini í höfuðborginni sem býður upp á nepalska matargerð og þar má meðal annars fá einn vinsælasta disk Nepals, Dumplings. Matseðillinn er fjölbreyttur og meðal annars hægt að fá lamb, tígrisrækjur, kjúkling, fisk og ýmsa grænmetisrétti, svo eitthvað sé upp talið. Af 938 umsögnum lofa 856 staðinn og segir einn umsagnaraðili „besti maturinn í ferðinni.“ Af örfáum neikvæðum umsögnum nefnir einn að frábært kvöld hafi verið eyðilagt þegar þjónninn hljóp á eftir henni þar sem hún hefði greitt rangt, og rukkaði hana 150 krónur aukalega. Sagðist hún þegar hafa greitt háa upphæð fyrir matinn.
Vefsíðan opnar á íslensku, en enska er einnig í boði. Facebook-síðan er bland af íslensku og ensku, þegar bæði tungumál eru þá er íslenskan á undan.
Mama Reykjavík opnaði í júní 2020 á Laugavegi 2. Staðurinn er vegan veitingastaður sem býður upp á súpur, salöt og ýmiss konar góðgæti. Mama Reykjavík heldur einnig tónleika, fyrirlestra og viðburði sem tengjast heilsu og andlegum málefnum. 304 umsagnir um staðinn eru nær allar jákvæðar eða 281 þeirra. Árið 2023 greindi DV frá að íslensk kona gaf staðnum lélega einkunn sökum þess að allir matseðlar og upplýsingar eru aðeins á ensku og spyr sig hvers heimamenn eigi að gjalda. Enn hefur ekki verið bætt úr þeirri athugasemd.
Vefsíða og Facebook-síða er aðeins á ensku, matseðillinn líka.
Fyrsti veitingastaðurinn á listanum sem býður upp á „fine dining“, er í fjórða sæti listans, Apótek, sem opnaði í desember árið 2014, sem er í einu af mörgum fallegum og sögufrægum húsum miðbæjarins. Matseðillinn er skemmtileg blanda af íslensku og evrópsku eldhúsi með funheitu argentísku grilli. Matseðillinn er fjölbreyttur og á staðnum er einnig lifandi kokteilbar þar sem verðlaunaðir „apótekarar“ hrista saman spennandi kokteila,i.
Umsagnir eru 3403, þar af 2401 lofsamlegar. Á meðal neikvæðra ummæla er léleg þjónusta, bið eftir drykkjum, maturinn hafi verið kaldur og hár hafi verið í matnum.
Vefsíðan opnar á íslensku, en enska er einnig í boði. Facebook-síðan ber enskt heiti (Apotek kitchen bar) enn er á íslensku.
Reykjavík Kitchen opnaði í september 2018 og er fjölskyldurekinn og að hluta í eigu sömu fjölskyldu og rekur Old Iceland sem er í 6. sæti listans. Eins og nafnið bendir til þá býður staðurinn upp á hefðbundinn íslenskan mat og íslenskt hráefni. Á matseðlinum er kjötsúpa, sjávarréttarsúpa, þorskur, lax, lamb og naut svo aðeins fátt sé talið. Umsagnir eru 1573 og nær allar lofsamlegar, eða 1357 þeirra. Umsagnir sem gefa staðnum lélega einkunn snúa aðallega að langri bið eftir þjónustu eða borði, þrátt fyrir að hafa pantað, og að staðurinn stóðst ekki væntingar. Athygli vekur að öllum neikvæðum umsögnum er svarað.
Vefsíðan er á ensku, en matseðlar eru á ensku og íslensku með enskuna á undan. Facebook-síðan er á ensku, en er afskaplega léleg og ekkert uppfærð.
Old Iceland sem rekinn hefur verið frá árinu 2017 er fjölskyldurekinn og að hluta í eigu sömu eigenda og Reykjavík Kitchen. Staðurinn leggur áherslu á sjávarrétti og íslenska lambakjötið.
Staðurinn er með 3127 umsagnir, þar af 2430 lofsamlegar. Á meðal neikvæðra ummæla er léleg og dónaleg þjónusta, þar á meðal að ekki virðist hægt að bóka borð, nema þegar starfsfólki hentar það. Líkt og hjá Reykjavík Kitchen vekur athygli að öllum neikvæðum umsögnum er svarað.
Staðurinn er ekki með vefsíðu, en Facebook-síðan sem er illa uppfærð er á ensku. Matseðill er á ensku og íslensku með enskuna á undan.
Fiskmarkaðurinn, sem opnaði árið 2007, lýsir sér sem nútímalegum íslenskum veitingastað með asísku ívafi. Veitingastaðurinn er í Ísafoldarhúsinu, sögufrægu húsi byggt 1886, sem áður var í Ísafoldarprentsmiðja. Sveinn Björnsson fyrsti forseti Íslands ólst upp í húsinu.
Umsagnir eru 4020, þar af 3004 lofsamlegar. Á meðal neikvæðra ummæla er léleg þjónusta og löng bið eftir mat, og að staðurinn hafi ekki staðist væntingar.
Vefsíðan er á íslensku, enska er einnig í boði. Á vefsíðunni er þó enska nafnið sem lógó meira áberandi en íslenska nafnið. Facebook-síðan er á íslensku, en þar er enskt lógó staðarins sem aðalmynd.
Sæta svínið opnaði í byrjun árs 2016, og er í eigu sömu aðila og eiga Apótekið, og fleiri staði í miðbænum. Staðurinn er gastropub með íslenskan mat með alþjóðlegu ívafi.
Umsagnir eru 912, þar af 372 lofsamlegar. Á meðal neikvæðra umsagna er léleg þjónusta og löng bið eftir mat, og einhverjir telja staðinn frekar virka sem skyndibitastað en veitingastað.
Í kjallaranum eru haldnir viðburðir, þar á meðal partýbingó á sunnudagskvöldum með Siggu Kling.
Vefsíðan er á íslensku, enska er einnig í boði. Facebook-síðan er á íslensku.
Kopar, sem opnaði 2013, er í einni af verbúðunum við gömlu höfnina, með frábært útsýni. Þar er hægt að panta snekkjuferð meðfram Reykjavík, Engey og Viðey, og fara síðan í þríréttarða máltíð á veistingastaðnum. Kopar býður upp á nútímalega matarlist með aldargömlum hefðum.
Umsagnir eru 1510, þar af 447 lofsamlegar. Á meðal neikvæðra ummæla er léleg þjónusta, löng bið eftir mat og vonbrigði með staðinn eftir lofsamleg ummæli.
Vefsíðan er á íslensku, enska er einnig í boði. Facebook-síðan er á íslensku (fyrir utan kynningu á staðnum).
Vietnoodles, sem opnaði haustið 2020, býður upp á víetnamskan mat. Umsagnir eru 171, þar af 149 lofsamlegar. Af tveimur slæmum umsögnum, báðar um að maturinn hafi verið vondur er önnur frá Íslendingi.
Vefsíðan og matseðlar eru á íslensku og ensku, með íslenskuna á undan. Sama er með Facebook-síðuna.
Athygli vekur að það er aðeins helmingur staðanna á listanum sem falla undir að vera fínni veitingastaður (e fine dining): Apótek, Reykjavík Kitchen, Old Iceland Restaurant, Fiskmarkaðurinn og Kopar. Sumir myndu jafnvel segja að það falli ekki allir þeirra í þann hóp.
Einnig vekur athygli blaðamanns að aðeins einn staður á topp tíu listanum ber alíslenskt nafn, Kopar. Fiskmarkaðurinn er vissulega einnig með íslenskt nafn, en blandar því enska í nafnið á Tripadvisor, og enskt lógó staðarins er aðalmerki á vefsíðunni og Facebook-síðunni.
Nokkrir staðanna mættu gera betur í vefsíðu og Facebook-síðu sinni. Nýjasta færsla hjá sumum þeirra er nokkurra mánaða gömul, hjá Reykjavík Kitchen er síðasta Facebook-færsla frá því í desember 2023. Þetta gefur hreinlega til kynna að staðirnir séu ekki í rekstri.
Mjög margir erlendir ferðamenn nýta sér Tripadvisor á ferðalögum sínum. Íslendingar eru ekki eins miklir notendur þar, alla vega ekki í eigin landi. En kannski er kominn tími til að nýta sér vefinn meira og skilja eftir umsagnir, lofsamlegar, og neikvæðar, ef kvörtun á staðnum sjálfum meðan setið er að snæðingi skilar ekki árangri.