Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Marko Saloranta, landsliðsþjálfari Finnlands, býst við hörkuleik gegn Íslandi í fyrsta leik á EM í Sviss á morgun. Hann var spurður út í Stelpurnar okkar á blaðamannafundi í dag.
„Ísland er í 15. sæti heimslistans og þær eru sigurstranglegri. En það hentar okkur bara vel og við munum ekki gefa neitt eftir,“ sagði Saloranta í dag.
Eins og Saloranta kom inn á er Ísland talið sigurstranglegra og Finnland í raun lakasta lið riðilsins, sem inniheldur einnig Sviss og Noreg, á pappír.
Þá var Saloranta einnig spurður út í hvað beri að varast í liði Íslands og var hann beðinn um að nefna einn leikmann í því samhengi.
„Það þarf að varast marga leikmenn Íslands, þær eru hraðar og hættulegar þegar þær vinna boltann. Ef ég þarf að nefna einn leikmann er það Sveindís Jane Jónsdóttir.“