Skemmdir voru unnar á um tíu bifreiðum á Seltjarnarnesi um helgina, en tilkynning um málið barst lögreglu á laugardagsmorgun, 28. júní.
Bifreiðarnar voru kyrrstæðar í bifreiðastæðum við Seltjarnarneskirkju á Kirkjubraut og á Nesvegi við Mýrarhúsaskóla þegar verknaðurinn átti sér stað.
Þar var á ferðinni skemmdarvargur sem rispaði allar bifreiðarnar með einhvers konar áhaldi svo mikið tjón hlaust af.
Lögreglan biður þau sem geta veitt upplýsingar um málið um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.petur@lrh.is. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um mannaferðir á þessum stað á föstudagskvöld.
Þau sem búa á áðurnefndu svæði eða áttu þar leið um á fyrrnefndum tíma eru góðfúslega beðin um að athuga með myndefni hafi þau aðgang að slíku, m.t.t. rannsóknarinnar.
Hér er bæði átt við hefðbundnar eftirlitsmyndavélar og eins upptökur úr bifreiðum, en margar bifreiðar hafa nú slíkan búnað innanborðs, eins og kemur fram í tilkynningu lögreglunnar.