Leikkonan Mariska Hargitay afhjúpar fjölskylduleyndarmál. Faðir hennar er ekki Mickey Hargitay heitinn, en hann ól hana upp eftir að móðir hennar Jayne Mansfield lést árið 1967 í bílslysi. Mariska var í bílnum en lifði slysið af, hún var þá þriggja ára gömul.
Leikkonan, sem er hvað þekktust fyrir að leika Oliviu Benson í Law & Order: SVU, greinir frá því að líffræðilegur faðir hennar er ítalski söngvarinn Nelson Sardelli, sem er níræður.
Þegar hún var þrítug hafði hún samband við hann. Hún mætti á tónleika hjá honum í Atlantic City og kynnti sig síðan, eiginlega í karakter.
„Ég var eins og Olivia Benson,“ segir hún í viðtali hjá Vanity Fair.
„Ég sagði: Ég vil ekkert, ég þarf ekkert frá þér. Ég á pabba.“
Hún segir að Nelson hafi farið að gráta þegar hann sá hana og sagt: „Ég hef beðið eftir þessu augnabliki í 30 ár.“
Eftir þetta héldu þau sambandi og kynntist Mariska hálfsystrum sínum. Hún viðurkennir að það hafi verið erfitt um tíma „að vita að ég hafi lifað í lygi alla mína ævi.“
En síðan áttaði hún sig á einu. „Ég ólst upp þar sem ég átti að alast upp og ég veit að allir gerðu það besta fyrir mig. Ég er dóttir Mickey Hargitay og það er engin lygi.“