Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, segir fjölmiðla hafa logið til að búa til fyrirsagnir um lið sitt í kjölfar daprar byrjunar í Bestu deild karla.
KA gerði markalaust jafntefli við nýliða ÍBV í gær og er með aðeins fimm stig og einn sigur eftir sjö leiki í deildinni. Umræðan hefur þá verið neikvæð í kringum KA og eftir tap gegn Fram í bikarnum á dögunum var fjallað um það að stjórn KA hafi fundað með Hallgrími strax að honum loknum.
Hallgrímur tók hins vegar fyrir að hafa fundað með stjórninni og að fundurinn hafi snúið að döprum varnarleik liðsins. Eftir jafnteflið við ÍBV í gær skaut Hallgrímur svo á umfjöllun undanfarinna daga.
„Við erum staðráðnir í að leysa þetta saman. Það er engin kergja þótt fjölmiðlar reyni að búa til hluti og reyni að ljúga upp á okkur til að fá fyrirsagnir þá höldum við ótrauðir áfram,“ sagði hann í samtali við Fótbolta.net.